Lánasjóður íslenskra námsmanna

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 15:15:59 (4078)

[15:15]
     Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Skráðum námsmönnum í skólunum hefur ekki fækkað, þeim ætti reyndar að hafa fjölgað. Þeim hefur ekki fækkað. Af hverju hefur þeim ekki fækkað? Það er vegna þess að fólk er miklu lengur í námi en áður og ég geri ráð fyrir því að þeir sem þekkja eitthvað til í háskólanum t.d. viti þetta. Veruleikinn er sá að hlutfall þeirra sem taka lán er núna 40% en var 60%. Hvað segir þetta? Það segir það að lánakerfið er að týna tilgangi sínum af því að unga fólkið þorir ekki að taka lánin sem þið, hv. þingmenn Sjálfstfl., hafið búið til handa þessu unga fólki. ( SAÞ: Þeir geta það ekki.) Það er veruleikinn sem um er að ræða auk þess sem menn geta það ekki vegna þess að í sumum tilvikum er það þannig að fólk hefur ekki ábyrgðarmenn til að skrifa upp á allan þann lánamassa sem menn þurfa á að halda til að standa bak við námslánin í bankakerfinu í landinu þannig að það er alveg ótrúlegt að þetta fólk skuli leyfa sér að vera stolt af þessum handaverkum sínum. En það verður séð til þess á næstu vikum og mánuðum að það verði minnt á þessa hluti.