Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 12:39:44 (4097)


[12:39]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Með ræðu minni áðan var ekki ætlunin að raska þannig hlutföllum í ræðu hv. síðasta ræðumanns að hann kæmi ekki að hugmyndum sínum um þróun íslenskra utanríkismála. Ég vil hins vegar taka fram í tilefni af ræðu hans að ég las grein hans sem hann vitnaði í, hv. þm., á sínum tíma. Ég tók það þá fram að það væri uppgjör við lenínismann eins og þarna kom fram. Það er staðreynd að það leiddi ekki til þess innan Alþb. að menn teldu að uppgjörinu væri lokið því að skömmu eftir að greinin birtist sögðu margir menn sig úr Alþb. í Reykjavík vegna þess að þeir töldu að þetta uppgjör skorti. En þetta eru atriði sem lúta að innra flokksstarfi Alþb., sem mér finnst ekki eiga heima hér, en liggur alveg ljóst fyrir og við getum rætt nánar ef vill.
    Varðandi það sem hv. þm. sagði um skrif Morgunblaðsins og um Víetnamstríðið og hvaðeina annað í utanríkismálum get ég fullvissað hv. þm. að ég þarf ekki að draga neitt til baka af því sem ég hef sagt. Og ég gleðst yfir því í hvert sinn, eins og t.d. í gærkvöldi þegar ég hlustaði á sjónvarpsþátt þar sem Árni Björnsson þjóðháttafræðingur viðurkenndi að Morgunblaðið hefði líklega haft rétt fyrir sér að verulegu leyti þegar það fjallaði um þessi mál í Austur-Evrópu og við skrifuðum margir og höfum skrifað margir mjög mikið um.
    Það sem hv. þm. gerði síðan einnig var --- sem ég þekki vel úr þessum umræðum því að ég er gamalreyndur í þessum deilum --- að hann greip til samanburðarfræðanna. Fyrst ég talaði um þetta þá væri rétt að víkja að einhverju öðru og komast síðan að þeirri niðurstöðu að mönnum færist ekki að tala svona af því að það væru einhverjir aðrir atburðir sem hefðu gerst einhvers staðar annars staðar sem réttlættu hugsanlegar ávirðingar. Vandinn er bara sá í þessu að enginn íslenskur flokkur hefur átt sams konar samstarf við erlenda flokka og Alþb. og það er það sem við erum að tala um að þurfi að gera upp.