Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 16:07:24 (4118)


[16:07]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hef ekki sakað hv. þm. um nein Stasi-tengsl enda hafa engin skjöl fundist um hann í neinum Stasi-skýrslum þannig að það er ekki hægt að fjalla neitt um það hvernig þau voru eða hvort þau hafa verið. Það sem hv. þingmenn hafa hins vegar gagnrýnt mig fyrir var að vitna einnig í ummæli dr. Þórs Whiteheads sagnfræðiprófessors og hann sagði og ég hef lesið það áður, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,En uppgjör við fortíðina hefur ekki farið fram, heldur þvert á móti, þessi gamli kjarni í flokknum hefur alltaf færst undan slíku. Þetta væri ekki fréttaefni ef svo væri ekki. Hvers vegna sögðu þeir ekki frá þessum tengslum sínum við austur-þýsku leynilögregluna Stasi?``
    Þetta er það sem ég sagði og ég hef sagt og í þessi tvö skipti sem ég hef notað orðið tengsl. Þannig að það þýðir ekkert fyrir hv. alþýðubandalagsmenn að vera að færa þetta mál á eitthvert annað svið til þess að reyna að gera sig að fórnarlömbum hér. Þeir eru engin fórnarlömb, þeir eru með þessa sögulegu byrði á bakinu og þeir verða að reyna að komast undan henni. Ég held að með mínu framtaki í dag hafi ég auðveldað þeim það. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur hér gert grein fyrir skoðunum sínum. Ég sakna þess að hv. þm. Svavar Gestsson skuli ekki hafa gert það með sama hætti.