Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 17:16:16 (4130)


[17:16]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég átti nú satt best að segja von á því þegar ég bað um orðið að hæstv. utanrrh. ætlaði sér að víkja nokkuð að því sem við sögðum um skýrslu hans. En þessi umræða hefur farið út á allt aðra braut, því miður að mínu mati, vegna þess að við þurfum á því að halda nú að tala um framtíðina og getum ekki endalaust verið að tala um fortíðina. Það hefur að vísu verið mikill áhugi núv. ríkisstjórnar og stuðningsmanna hennar að tala um fortíðina. Hún byrjaði með því að hæstv. forsrh. lýsti yfir miklum áhuga á fortíðinni og í öllum ræðum sínum hér á Alþingi ræddi hann hana.
    En ég er ekki með þessu að segja að það eigi aldrei að ræða um fortíðina og um það með hvaða hætti íslenskir stjórnmálaflokkar eigi að koma að alþjóðlegum málum. Ég þarf ekkert að tala hér um Framsfl. í því sambandi vegna þess að Framsfl. er ekki stofnaður á rústum annarra flokka. Hann á sér langa sögu og utanríkismálastefna hans í gegnum tíðina er nokkuð ljós. Ég tel að Jónas frá Hriflu hafi séð langt inn í framtíðina þegar hann barðist fyrir því að við litum mjög til vesturs, til Bandaríkjanna, á sama tíma og aðrir vildu líta til Evrópu. Ég tel það hins vegar nauðsynlegt í dag að við lítum mjög á þróunina í Evrópu og fylgjumst með henni og það þýði ekki neitt að fullyrða um hluti langt í framtíðina eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vill gera.
    Menn vildu fullyrða hér fyrr á árum að Sovétríkin mundu standa að eilífu og ekkert gæti fellt þau, þar væri sæluríkið. Kommúnisminn mundi aldrei falla. Að mínu mati þýðir lítið að binda sig við slíka hluti. Við verðum að taka ákvarðanir á grundvelli þeirrar þróunar sem við sjáum fram á en getum ekki fullyrt langt inn í framtíðina enda er það annarra stjórnmálamanna oft á tíðum að taka þátt í því og taka ákvarðanir. Það eru t.d. komnir nýir straumar inn í Alþb., menn sem hafa ríkari lýðræðishefðir en fyrirrennarar þeirra, eins og ég efast ekkert um að því er varðar hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson. Við eigum að sjálfsögðu að dæma flokka út frá því, út frá þessum vilja, en ekki út frá fortíðinni.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er mikill áhugamaður um Framsóknarflokkinn ( HG: Alltaf verið.) og fór úr honum áður en hann hafði náð fullum þroska að eigin sögn. ( ÓRG: Þá var hann 14 ára.) Og af hverju ætli hann hafi farið úr honum? Ætli það hafi ekki verið vegna þess að hann var á móti NATO? Og ætli það hafi ekki verið vegna þess að margir alþýðubandalagsmenn börðust á móti NATO alla tíð og eru enn að berjast á móti NATO. Að vísu tala þeir ekki jafnmikið um það. Það var endalaust verið að ráðast á Framsfl. af Alþb. hér fyrr á árum út af þessu máli.
    Ég er stoltur af Framsfl. fyrir það að hann stóð að því að Ísland gengi í NATO. ( ÓRG: Ekki Hermann.) Ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun. Ég sagði: flokkurinn stóð að því, ( ÓRG: Ég bætti bara við: ekki Hermann.) hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. Ég veit ekki til þess að það sé slík eindrægni í Alþb. að hver einasti þingmaður þess standi ávallt á bak við núverandi formann Alþb. Ég hef ekki orðið var við það. En aðalatriðið er það að í Framsfl. hafa menn komist að slíkum lýðræðislegum niðurstöðum og staðið við það og staðið að því að gera ýmsa erlenda samninga, bæði að því er varðar landhelgismálin og að því er varðar Jan Mayen. Oft á tíðum og oftast ef ekki alltaf hefur Alþb. verið á móti þessum samningum. Það er nú svo skrýtið.
    Við stóðum að því ásamt Alþb. að fara út í samninga um Evrópska efnahagssvæðið. Því máli var hrint af stað af ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sem ég sat í og Sjálfstfl. var þá á móti málinu. Það þýðir ekkert að setja upp einhvern sakleysissvip, hv. þm., og segja: Við komum aldrei að þessu máli. ( HG: Ég hélt að Sjálfstfl. hefði verið á móti EES.) Hann var á móti. Það var flutt vantraust á þáv. ríkisstjórn, það var hvorki meira né minna en út af þessu máli. Sjálfstfl. taldi þetta vera svo alvarlegt skref sem þáv. ríkisstjórn steig að það var flutt vantraust á Alþingi. (Gripið fram í.) Aldeilis vitleysa, ég heyri að það er nauðsynlegt að formaður Alþb. tali við hv. þm. Hjörleif Guttormsson og uppfræði hann um málið. Það er greinilegt að hann hefur ekki fengið réttar upplýsingar á þeim tíma í þessu máli. (Gripið fram í.) Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er nú að reyna að halda því fram að formaður Framsfl. tali ekki nógu skýrt í Evrópumálum alveg með sama hætti og hann hefur talað um NATO á árum áður. Nú er hann hættur að tala um það. Nú er þetta komið í staðinn og nú á að reyna að gera Framsfl. tortryggilegan út á ESB vegna þess að NATO-platan, sem er búið að spila mjög lengi, passar ekki lengur.
    Ég get fullvissað hv. þm. um það að við teljum í Framsfl. að ekkert bendi til þess að Ísland með okkar ábyrgð muni sækja um aðild að ESB. En hvernig í ósköpunum á ég og aðrir að fullyrða það um alla framtíð að aðstæður geti ekki breyst? Hvað vitum við hvað kemur út úr ríkjaráðstefnunni? Hvað vitum við um það hvernig Evrópa muni þróast í framtíðinni? Auðvitað geri ég mér það ljóst að þessar aðstæður geta allar breyst og ég er ekki maður til þess að fullyrða um það fyrir langa framtíð. Það má vel vera að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sjái svona langt inn í framtíðina og hafi reynslu af því að hafa séð svona langt inn í framtíðina. Ég tel að reynsla hans sé önnur og hann ætti að hafa lært það að fullyrða ekki allt of mikið um langa framtíð.
    Ég er þeirrar skoðunar að Rómarsáttmálinn og sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins sé þannig í dag að aðildarumsókn komi ekki til greina út frá hagsmunum Íslands og ég reikna með því að það sé mjög

langt í að það muni breytast. Ég held t.d. að innganga Spánverja og Portúgala í sjávarútvegsstefnuna geri það enn þá ólíklegra að þar náist einhver skynsamleg niðurstaða í langri framtíð. Ég sé engin merki þess að menn ætli sér þar á bæ að líta á auðlindir hafsins með sama hætti og auðlindir landsins. Þar af leiðandi sé ég ekki í minni sýn þann dag að það geti komið til greina að Ísland sæki um aðild. En við lifum í svo breytilegum heimi að það getur ýmislegt breyst á stuttum tíma og þess vegna hef ég sagt, það er alveg rétt hjá hv. þm., að ég geti ekki fullyrt um þessa hluti og ég þekki ekki þann mann sem getur með einhverri sannfæringu sagt um það nema menn séu bara almennt á móti öllu alþjóðlegu samstarfi og vilji einangra sig, séu á móti GATT, á móti öllum alþjóðastofnunum eins og hv. þm. hefur verið.
    Ég segi fyrir mig að ég sé ekki þá heimsmynd, ég sé ekki að Ísland geti lifað eins einangrað og hv. þm. er talsmaður fyrir. Við erum svo háðir alþjóðlegum viðskiptum og alþjóðlegum samningum á allan hátt að við getum í reynd ekki lifað hér sem sjálfstæð og fullvalda þjóð án öflugs alþjóðlegs samstarfs. Þetta er mín sannfæring og ég tel að við verðum að sýna vissan sveigjanleika á hverjum tíma til að geta mætt þeim aðstæðum sem upp koma á hverjum tíma og við verðum að meta hlutina út frá því sem við sjáum á hverju ári.
    Aðeins einu ári áður en Berlínarmúrinn féll sáu menn það ekki fyrir. Ég man það mjög vel, ég kom til Berlínar í janúar sama ár og fór þá í fyrsta skipti yfir þessi landamæri og til Austur-Þýskalands dagpart. Það var eftirminnleg heimsókn. Ég kom ári síðar til Berlínar þegar Berlínarmúrinn var fallinn. Það voru snögg umskipti sem enginn sá fyrir og við höfum lært af þeirri þróun sem þarna fór af stað að það getur ýmislegt breyst á stuttum tíma. Ég er líka þeirrar skoðunar, sem ég veit að hv. þm. er ósammála mér í, að það þjóni ekki okkar öryggishagsmunum að ganga í Evrópusambandið. Ég tel að öryggissamvinnan við Bandaríkin sé okkur afar mikilvæg og skipti miklu máli. Það er alveg ljóst að með inngöngu Íslands í ESB kæmi þessi mynd til með að breytast vegna þess að það er stefna Evrópusambandsins að koma upp algerlega eigin öryggiskerfi. Ég tel það afar mikilvægt að við höldum okkar samskiptum bæði til austurs og vesturs og ræktum sérstaklega Norðurlandasamstarfið. Ég veit að um það erum við hv. þm. sammála og höfum starfað að því í sameiningu að styrkja samskipti Íslands og Norðurlandanna. Það er að því leyti til rétt að hv. þm. vill sterkt Norðurlandasamstarf. Það hef ég fundið í hans starfi þar.
    Þetta vildi ég segja út frá því sem hann sagði hér um Framsfl. Ég vil taka það fram að Framsfl. telur það skyldu sína að taka þátt í alþjóðlegu starfi. Það er alveg rétt að Framsfl. hitti aðila frá Búlgaríu og frá Austur-Þýskalandi. Það voru ekki flokksleg tengsl. Það var með því hugarfari að flokkurinn gæti orðið að liði við þróun lýðræðis. Með sama hætti og við tökum þátt í alþjóðasamtökum frjálslyndra flokka. Á alþjóðaþingi þessara fjálslyndu flokka í sumar var fulltrúi t.d. frá Íran og þar var fulltrúi frá Kúbu. Það var ekki vegna þess að það séu formleg samskipti við flokka innan landamæra þessara landa heldur er hér um menn að ræða sem eru í útlegð og eru að berjast fyrir lýðræði í sínum löndum. Sömu sögu má segja um aðila sem voru frá Malaví og hafa verið að berjast við það að koma Banda nokkrum frá völdum sem ég veit að hæstv. utanrrh. hefur einhvern tíma hitt. Þessi flokkur er nú búinn að koma þessum sama Banda frá völdum sem betur fer og hefur m.a. getað gert það vegna þess að hann hefur haft flokka að baki sér á alþjóðlegum vettvangi.
    Auðvitað ber okkur að hafa samskipti við aðila sem eru að berjast gegn einræði í sínum ríkjum og vilja koma á lýðræði. Þetta tel ég að lýðræðislegir flokkar eigi að gera og ég tel alrangt sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði að Framsfl. hefði haft einhver formleg samskipti við kommúnistaflokka í Austur-Evrópu. (Gripið fram í.) Það er rétt, það var bændaflokkur í Búlgaríu. Þessi bændaflokkur var deild í kommúnistaflokknum en þessi bændaflokkur var einmitt endurreistur þegar lýðræði var endurreist í Búlgaríu og ætli það hafi ekki skipt máli að það var til einhver lýðræðishefð í þessum löndum. Það er þess vegna sem þessi ríki Austur-Evrópu eru komin lengra en Rússland vegna þess að menn höfðu ekki gleymt því að vera í stjórnmálaflokkum og það skipti þessa menn miklu máli að vera í samskiptum við lýðræðislega flokka í Vestur-Evrópu.