Svör við fyrirspurnum

91. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 15:09:57 (4154)

[15:09]
     Matthías Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Þáltill. var samþykkt 19. mars 1992 um yfirtökutilboð og önnur almenn tilboð í hlutafélögum. Þáltill. var mjög einarðlega orðuð og var á þessa leið:
    ,,Alþingi ályktar að fela viðskrh. að undirbúa nú þegar löggjöf um yfirtökutilboð og önnur almenn tilboð í hlutafélög til þess að vernda félagsmenn og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Leggja skal fram frv. um þetta efni fyrir 116. 1öggjafarþing svo að ný lög um þetta efni geti tekið gildi eigi síðar en 1. janúar 1993.``
    Ég leyfði mér nú þremur árum síðar að bera fram fyrirspurn til viðskrh. og ég lét í ljós mikla óánægju þegar að fyrirspurnin er ekki á dagskrá í dag. Það er löngu orðið mjög mikilvægt að löggjöf sé sett í þessum efnum og hæstv. fjmrh. sagði hér áðan að embættismenn hefðu ýmsum öðrum hnöppum að hneppa en að svara fyrirspurnum en þá eru líka til önnur vinnubrögð sem eru þau að þingmenn fái þá greidda sérfræðilega aðstoð til þess að semja slík frumvörp og ganga frá þeim og minnka álagið á embættismennina. Ég held að meiri þörf væri á því en mörgum snattferðunum sem eiga sér stað.