Hringamyndun og samþjöppun valds í íslenskri fjölmiðlun

91. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 16:23:32 (4181)


[16:23]
     Árni M. Mathiesen :
    Hæstv. forseti. Það liggur við að manni verði orðfall að koma í ræðustól á eftir síðasta hv. þm. Hugmyndin um ríkisdagblað er mér svo framandi að ég bara get varla hugsað hana til enda. ( GHelg: Þingmaðurinn er ekki sérlega frumlegur heldur.) Sennilega yrði hv. þm. Guðrún Helgadóttir ritstjóri þessa dagblaðs ef hennar flokkur væri í stjórnaraðstöðu til þess að ráða því.
    Hæstv. forseti. Ég get ekki tekið undir með hv. málshefjanda að þau tíðindi að Íslenska útvarpsfélagið hafi keypt 35% hlut í Frjálsri fjölmiðlun kalli á sérstaka umræðu um samruna fjölmiðla á markaði. Reyndar kemur mér á óvart að hann skuli ræða samþjöppun valdsins eða samþjöppun áhrifa fjölmiðla

á Alþingi því að 18. október sl. þegar hv. þm. Svavar Gestsson hafði frumkvæði að utandagskrárumræðu um málefni Ríkisútvarpsins gerði ég það einmitt að umtalsefni í ræðu minni hversu yfirgnæfandi staða Ríkisútvarpsins væri á okkar litla fjölmiðlamarkaði. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, sem tók þátt í umræðunni, tók á engan hátt undir orð mín. Reyndar tók enginn hv. þm. undir þessi orð mín. Það kemur mér því verulega á óvart að nú í dag skuli vera mikill áhugi og miklar áhyggjur af því að vald skuli þjappast saman í þessum fjölmiðlaheimi.
    En ýmis gullkorn falla í þessari umræðu. Það er ekki bara hv. þm. Guðrún Helgadóttir sem er uppi með góðar og snjallar og skemmtilegar hugmyndir um ríkisdagblað. Starfsmaður samsteypunnar, sem verið er að gagnrýna, hv. þm. Jón Kristjánsson, ritstjóri Tímans, kom í pontu áðan og ræddi m.a. um rafræna fjölmiðlun. Ég velti því fyrir mér hvaða markhópur eða markaðshópur það væri sem mundi í framtíðinni lesa Tímann á Interneti.