Löggæslukostnaður

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 18:03:41 (4222)


[18:03]
     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir upplýsingarnar og afgreiðslu málsins sem mér sýnist, eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni, að sé ótvíræð og skýr. Síðan er auðvitað spurning um það sem liggur lengra til baka eins og fram hefur komið en einnig hvað varðar stöðu embættanna sem missa af tekjunum. Ég nefndi það áðan að ég hef heyrt efasemdir um að það sama sé látið yfir öll embætti ganga í þessum efnum. Ég skal engan dóm fella um það. En væntanlega heyrir hæstv. ráðherra um það frá embættunum ef svo er að þau hafi ekki fengið jöfnun eða bætur vegna lækkunar sértekna eins og fram var tekið við fjárlagaumræðuna. Væri gott ef hæstv. ráðherra gæti vikið aðeins að þessum þætti á eftir.