Náttúruvernd

94. fundur
Þriðjudaginn 14. febrúar 1995, kl. 13:49:03 (4251)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Það er rétt sem fram kom í máli hv. 8. þm. Reykn. að þetta mál var eina málið á dagskrá 3. fundarins í gær. Forseti hafði svo sannarlega gert sér vonir um að það yrði hægt að taka það mál fyrir og til afgreiðslu en eins og þeim hv. þm. er kunnugt sem voru hér á fundi þegar honum lauk í gær þá var orðið það áliðið tíma, kl. var um sjö þegar kom að þessum 3. fundi og ekki gert ráð fyrir kvöldfundi, svo að málið var ekki tekið fyrir, því miður vill forseti leyfa sér að segja því það hefur gengið vel að koma málum áfram undanfarna daga og vikur.
    Forseti getur upplýst að þetta er ákvörðun forseta en hún er gerð í fullu samráði við hæstv. umhvrh. svo forseti svari þeirri spurningu sem hv. 8. þm. Reykn. bar hér fram við forseta.