Náttúruvernd

94. fundur
Þriðjudaginn 14. febrúar 1995, kl. 13:50:30 (4252)

[13:50]

     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað mikilvægt að fá það hér fram að hæstv. umhvrh. er nú allt í einu hættur að vera sérstakur áhugamaður um afgreiðslu þáltill. um embættisfærslu umhvrh. Það hefur legið hér fyrir að hæstv. umhvrh. krafðist þess að ríkisstjórnarmeirihlutinn felldi málið við 1. umr. Það hefur líka legið fyrir að hæstv. umhvrh. krafðist þess að málið yrði tekið út úr nefnd ( HG: Hvar er ráðherrann?) án þess að nokkuð yrði fjallað um það í nefndinni. Það hefur líka legið fyrir að hæstv. umhvrh. var hér upp úr helginni kröfumaður um það að málið kæmi strax fyrir á mánudegi. Nú allt í einu er hæstv. umhvrh. hættur að hafa sérstakan áhuga á því að þetta mál fái forgang. Það er kannski vegna þess að nú liggur nál. fyrir, nú eru komnar fram upplýsingar í málinu.
    Ég verð bara að lýsa þeirri skoðun minni, hæstv. forseti, að mér þykir þetta vera slæm afstaða hjá ráðherranum vegna þess að hann er á góðri leið með það, hæstv. umhvrh., að splundra hér þverpólitískri samstöðu sem hefur ríkt í þinginu óháð skiptingu í stjórn og stjórnarandstöðu varðandi mikilvæg frv. í umhverfismálum.
    Ég hef aldrei á þessu kjörtímabili unnið í umhvn. eða í umræðum um þau mál hér eftir því hver afstaða mín væri til þessarar ríkisstjórnar. Ég er viss um að félagar mínir í umhvn. geta staðfest það. En nú allt í einu virðist vera komin upp sú sérkennilega staða að ráðherrann er að beita sér fyrir því að spilla hér þverpólitískri samstöðu sem á eðli máls að geta tekist um umhverfismál vegna þess að ég tel að þau séu ekki þess eðlis að ágreiningur um ríkisstjórn Alþfl. og Sjálfstfl. eigi að hafa þar afgerandi áhrif. Það er svo ekki til bóta að hæstv. umhvrh. leggur svo ekki í það að vera einu sinni í salnum þegar verið er að ræða kröfur hans um það hvernig meðferð þingsins er háttað á þeim málum sem hann hefur hér flutt.