Náttúruvernd

94. fundur
Þriðjudaginn 14. febrúar 1995, kl. 22:50:25 (4274)


[22:50]
     Frsm. minni hluta umhvn. (Kristín Einarsdóttir) (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. þm. kom víða við í ræðu sinni og það voru nokkur atriði sem

hefði mátt gera athugasemdir við og ég mun gera það síðar þegar ég hef aðeins meiri tíma. Það var aðeins eitt atriði sem ég vildi vekja athygli hans á vegna þess að það gætti nokkurs misskilnings varðandi það að hann sagði nokkrum sinnum í ræðu sinni að svo virtist sem það væri ekkert vald eftir hjá Náttúruverndarráði. Það var eins og hann gerði sér ekki grein fyrir því að það er tilgangur frv. og vil ég í því sambandi vitna til orða hæstv. umhvrh. þegar þetta frv. var til 1. umr. þann 17. nóv. Á síðari degi umræðunnar sagði hæstv. ráðherra með leyfi forseta: ,,Tilgangur þessa frv. hins vegar, virðulegur forseti, er að svipta Náttúruverndarráð valdi. Það er beinlínis tilgangurinn að taka það vald sem Náttúruverndarráð hefur og færa það inn í stjórnkerfið.``
    Ég vildi bara árétta það því það var eins og hv. þm. gerði sér ekki grein fyrir því að það er tilgangur ráðuneytisins og hæstv. umhvrh. að svipta Náttúruverndarráð öllu valdi og þess vegna er eðlilegt að lítið sé eftir af því valdi sem Náttúruverndarráð ætti að hafa. Þó virðist svo í umræðunni og stundum í frv. eins og reynt sé að fela það. Það er kannski þess vegna sem ekki er svo auðvelt að gera sér grein fyrir því því það er verið að tala um framkvæmdastjóra og skrifstofur og ýmislegt alveg eins og um einhver völd sé að ræða. Þetta vildi ég bara í tilefni orða þingmannsins benda honum á.