Náttúruvernd

94. fundur
Þriðjudaginn 14. febrúar 1995, kl. 23:47:05 (4290)


[23:47]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er alveg greinilegt að það er mjög tímafrekt mál sem verið er að ræða. Það er skiljanlegt af hæstv. forseta að vilja nota nóttina til þess líka.
    Þetta frv. til laga um breytingar á lögum um náttúruvernd er komið fram í annað sinn og inn í það hafa raunar verið teknar einhverjar breytingar þó að ekki hafi verið tekið tillit til mjög margra þeirra athugasemda sem gerðar voru í athugasemdum við frv. á síðasta þingi þegar það hafði verið sent út til umsagnar.
    Ég hef mjög margt við þetta frv. að athuga en samkvæmt góðri siðvenju ætla ég samt að byrja á því að fagna einu atriði í 1. gr. þessa frv. þar sem stendur með leyfi forseta: ,,Við mótun stefnu í náttúruvernd og framkvæmdir og fræðslu á því sviði skal umhvn. hafa samráð við Náttúruverndarráð, bændur og aðra landnotendur`` og þetta hygg ég að sé komið inn eftir athugasemdir sem komu fram um frv. á síðasta þingi og ég vil virkilega fagna því að við mótun stefnu í náttúruvernd og framkvæmdir og fræðslu í þeim málum eigi að fara að hafa samráð við bændur og landnotendur. Í því sambandi vil ég einmitt geta þess að á ferð minni um landið á síðasta sumri kom mjög skýrt fram og oft í viðræðum við fólk úti á landsbyggðinni og ekki hvað síst bændur og forsvarsmenn þeirra að fólk var ekki alltaf sátt við þær ákvarðanir og framkvæmdir sem Náttúruverndarráð stóð

fyrir og vildi gjarnan hafa eitthvað meira um það að segja og taldi sig geta lagt ýmislegt til málanna á grundvelli þekkingar heima fyrir. Þó margt sé athugavert í þessu frv., virðulegi forseti, tel ég þetta vera aðeins til bóta.
    Skemmst er frá því að segja að það að koma á stofnun sem á að heita Landvarsla ríkisins og hafa með höndum bæði framkvæmd og eftirlit í náttúruverndarmálum tel ég alls ekki vera skref í rétta átt því að frekar hefur verið tilhneiging til þess í hinu opinbera kerfi að skilja að framkvæmd og eftirlit og talið betra að það væri ekki sami aðilinn samanber þegar verið var að skipta upp löggæslunni með eftirlit og framkvæmd á því stigi. Mér finnst vera afturför en ekki framför í þessari breytingu að ein stofnun sem er aðeins þrír stjórnarmenn undir stjórn umhvrh. eigi þarna að hafa bæði framkvæmd og eftirlit með þessum málum. Mér hefur heyrst það á þeim sem hafa gert athugasemdir við frv. og rætt það í dag að þetta sé eitt af þeim stærri málum sem nefndarmenn í hv. umhvn. hafa athugasemdir við og einnig þeir sem hafa sent umsagnir um frv.
    Það er alveg ljóst að hér horfir til miðstýringar heldur en hitt. Ekki er verið að víkka þessi mál út þannig að fleiri komi að þeim. Þrátt fyrir þetta ákvæði sem ég nefndi og var að gleðjast yfir að ætti að hafa fleiri til skoðunar um náttúruverndarmál er stjórnin mjög þröng og er skipuð af umhvrh. sem skipar þarna þriggja manna stjórn og formann sérstaklega og stjórnin á að hafa á hendi alla yfirstjórn Landvörslu ríkisins. Hún á að fjalla um starfs- og fjárhagsáætlanir, fylgjast með fjárhag og ráðstöfun fjár, gæta samráðs við Náttúruverndarráð, ferðamálaráð, sveitarstjórnir, bændur og aðra landnotendur og samtök áhugamanna um náttúruvernd. Síðan kemur einnig að ráðherra á að skipa framkvæmdastjóra Landvörslunnar þannig að þarna er ráðherra að taka sér eins konar alræðisvald yfir þessum málum að ég mundi segja. Þó að ég treysti hæstv. ráðherra til margra góðra verka þá held ég að hann sé að taka sér of mikið miðstýringarvald og selja það í hendur þeirra sem koma síðan á eftir honum.
    Það eru margar athugasemdir við frv. og samkvæmt því sem segir í athugasemdum minni hluta hv. umhvn., hefur nefndinni ekki tekist að fara mjög vel yfir frv. vegna tímaskorts. Í nefndaráliti minni hlutans segir að nefndin hafi lokið fyrstu yfirferð yfir frv. 9. febr. og ekki eru margir dagar síðan. Síðan hafi verið lagðar fram brtt. og málið afgreitt úr nefnd þannig að ekki hefur gefist mikill tími til þess að ræða breytingartillögurnar og taka meira tillit til þeirra ábendinga sem hafa komið.
    Náttúruverndarráð gaf umsögn um frv. þar sem segir að æskilegt hefði verið að endurskoða alla löggjöf um umhverfismál og þar segir, með leyfi forseta: ,,þar með taldar lagareglur sem varða náttúruvernd, í heild sinni og taka mið af því sem nágrannaþjóðir Íslendinga hafa gert í þessum efnum. Auk þess hefði þurft að endurskoða uppbyggingu allra þeirra stofnana sem með einum eða öðrum hætti fjalla um umhverfismál. Í stað þessa hefur verið valin sú leið að leggja til breytingar á löggjöf sem hentaði ágætlega á þeim tíma sem hún var sett. Jafnframt hefði verið ástæða til þess að endurskoða hlutverk þeirra stofnana sem heyra undir umhverfisráðuneytið.`` Svo segir í áliti minni hlutans að mjög margir hafi tekið undir þetta sjónarmið.
    Þá vildi ég einnig spyrja hæstv. ráðherra um það þar sem greinilega er verið að koma á fót nýrri stofnun hvort það sé liður í sparnaðaráætlunum ríkisstjórnarinnar að bæta við ríkisstofnun sem hlýtur að kalla á aukið fjármagn og jafnframt hvort hugsað sé fyrir fjármagni fyrir þessa stofnun í fjárlögum yfirstandandi árs. Samkvæmt því sem segir í lögunum eiga þau að taka þegar gildi. Það segir í 7. gr. að lögin öðlist þegar gildi. Ég hefði haldið að ýmislegt þyrfti að skoða áður en svona lög geta tekið gildi og m.a. hvernig farið verður með þá starfsemi Náttúruverndarráðs sem Landvarslan á að yfirtaka. Jafnframt með starfsfólk sem vinnur hjá Náttúruverndarráði, hvernig verður með þeirra störf. Ég geri því skóna að hæstv. ráðherra hafi áhuga á því að vita hvað verður um þá starfsmenn hans sem vinna hjá Náttúruverndarráði. En mér finnst að þar sé mjög hlaupið án skoðunar í það að láta lögin taka gildi ef þau hafa engan aðdraganda heldur eiga að taka gildi á þeim tíma um leið og þau eru samþykkt en ekki gefinn aðlögunartími til þess að breyta þeirri stofnun skrifstofu Náttúruverndarráðs sem Landvarsla ríkisins á að yfirtaka og einnig með tilliti til starfsmanna.
    Þá mætti einnig spyrja um hvernig er með fyrirhugaðar framkvæmdir Náttúruverndarráðs á næsta sumri því að nú notar Náttúruverndarráð yfirleitt veturinn til þess að gera ýmsar áætlanir um starf sitt og það sem það hefur eftirlit með, framkvæmdir og eftirlit á hinum ýmsu stöðum á sumrinu. Hvernig verður sú verkaskipting? Hefur Náttúruverndarráð undirbúið ýmsar framkvæmdir á næsta ári og er þá alveg sjálfgefið að Landvarslan taki við þeirri framkvæmd eða hvernig verður háttað verklokum Náttúruverndarráðs yfir til Landvörslunnar? Væri mjög fróðlegt að heyra það hjá hæstv. ráðherra hvernig það mál verður og hvort einhverjir starfsmanna Náttúruverndarráðs verða eftir breytinguna starfsmenn Landvörslunnar.
    Með tilliti til þess sem segir í áliti minni hluta umhvn. get ég ekki séð að búið sé að vinna þetta frv. nægilega vel til þess að afgreiða það á næstu dögum. Minni hlutinn leggur til að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar og ég held að ég sé knúin til þess að taka undir það miðað við þá stöðu sem mér sýnist málið vera í.
    Það er ýmislegt fleira sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um af því að hann er staddur hér og situr yfir þessum umræðum. Í brtt. meiri hluta umhvn. segir á bls. 3 í 3. lið, þ.e. breyting við 3. gr. frv., að í stað 2. mgr. 13. gr. komi ný málsgrein sem hljóði svo, með leyfi forseta:
    ,,Umhvrh. skal setja reglugerð um akstur utan vega, umferð hesta, umgengni í óbyggðum, merkingu bílslóða og vega og leyfilegan öxulþunga vélknúinna ökutækja sem fara um óbyggð svæði. Þar sem hætta er á náttúruspjöllum er akstur utan vega og merktra slóða óheimill.``
    Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann telur þetta ekki stangast á við önnur lög. Samkvæmt því sem segir í áliti minni hlutans gafst ekki tími til þess að skoða það. Málið var tekið það fljótt út úr nefndinni að menn komust ekki í að athuga allt sem athuga þurfti. Í umferðarlögum, nr. 50/1987, segir í 3. gr.:
    ,,Ákvæði um umferð ökutækja gilda, eftir því sem við á, einnig um reiðmenn.`` Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. umhvrh. hvort hann gæti þá sett reglugerð um umferð hesta ef í umferðarlögum eru ákvæði um umferð reiðmanna. Er það ekki nokkurn veginn það sama?
    Í öðru lagi segir einnig að umhvrh. skuli setja reglugerð um leyfilegan öxulþunga vélknúinna ökutækja. En í þessum sömu umferðarlögum og ég nefndi áðan, lögum nr. 50/1987, segir í 76. gr. um öxulþunga og þyngd, með leyfi forseta:
    ,,Dómsmrh. setur reglur um hámark öxulþunga og heildarþyngdar ökutækja með og án farms.``
    Þarna sýnist mér a.m.k. tvær greinar í umferðarlögum komi einmitt inn á þessa grein hér þar sem er verið að tala um að umhvrh. eigi að setja reglur um þessi tilteknu atriði. Það er þá orðið nokkuð óvanalegt ef bæði dómsmrh. og umhvrh. eiga að fara að setja reglur um sömu atriðin. Ég hef ekki haft tíma til að leita að og skoða hvort þetta væri á fleiri stöðum í brtt. meiri hlutans.
    Þetta vildi ég spyrja hér um, virðulegi forseti, en annars almennt um náttúruverndarlög tel ég mjög slæmt ef það þarf að vera að afgreiða frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd sem engin sátt er um að afgreiða á hinu háa Alþingi og ekki sátt um í þjóðfélaginu ef marka má þær athugasemdir sem komið hafa um frv. frá því að það var fyrst lagt fram.
    Ég hefði haldið að það væri ekki mjög erfitt að ná ákveðinni sátt um náttúruvernd. Allar þjóðir eru orðnar mjög meðvitaðar um að náttúruvernd er eitt af því nauðsynlegasta sem þarf að taka á á næstu árum, umhverfismál og náttúruvernd í framhaldi af því, og það er mjög nauðsynlegt að lagasetning um umhverfismál sé í sátt við hverja þjóð sem þau lög eiga að ná yfir. Ég held að flestir hér á landi séu sammála í hjarta sínu um það að þeir vilji verndun umhverfisins og vilji vernd náttúrunnar auðvitað með tilliti til notkunar og sjálfbærrar þróunar. Ég held að það sé skammsýni og fljótfærni að ætla að afgreiða lög um breytingu á náttúruvernd í fullkominni andstöðu við margt það fólk sem hingað til hefur látið sig náttúruvernd miklu skipta og þjóðina almennt. Til þess að vinna að þessum málum, sem ég efast ekki um að hæstv. ráðherra hefur hug á að gera, væri miklu æskilegra að hægt væri að gera það í sæmilegri sátt við þá sem lögin eiga að snerta.
    Það er nú einu sinni svo að á hinu háa Alþingi hafa nefndir, sem hafa ákveðin mál til umfjöllunar, mjög leitast við það að skoða þau frv. sem eru til meðferðar mjög vel, kalla til þá hagsmunaaðila og aðila úti í þjóðfélaginu sem málið snertir hverju sinni, heyra sjónarmið þeirra, fá umsagnir og leita eftir því hvort hægt sé að ná samkomulagi eða samstöðu um það hvernig skuli farið með löggjöfina. Það er hlutverk nefnda að fara vel yfir frv. og leita þessara leiða og ég hygg að ekki hafi unnist tími til að gera það í sambandi við einmitt þetta frv.
    Það hefur verið sagt svo margt og mikið um frv. í dag og væri sjálfsagt hægt að segja talsvert meira enn þá en ég mundi fyrst og fremst leggja áherslu á það, virðulegi forseti, að betri tími gefist til þess að skoða málið og ekki sé reynt að keyra það í gegn enda hef ég ekki heyrt það á neinum í Alþingi að mjög mikið liggi á því að afgreiða þetta frv. Samanber þau ummæli sem hér voru höfð eftir hæstv. forsrh. um forgangsmál í þinginu og afgreiðslu lagafrv. virtist ekki vera lögð áhersla á að afgreiða lagafrv. Ekkert var nefnt í því sambandi og allra síst þau frv. sem mikill ágreiningur væri um. Ég get því engan veginn séð eins og ég sagði í upphafi neina nauðsyn á því að keyra þetta frv. í gegn enda hygg ég að mjög mikil umræða sé eftir um þetta mál.
    Það sem hefur komið inn sem brtt. í viðbót við það sem ég las áðan upp sýnist mér vera mjög miklar orðalagsbreytingar en ekki miklar efnisbreytingar og ekki hefur verið tekið mikið tillit til þeirra efnisatriða sem komið hafa í umsögnum og athugasemdum yfirleitt um frv. Hér er verið að breyta sem dæmi orðinu lífsvæði í búsvæði og breyta ýmsum styttri setningum, hvort þær eru í nútíð eða þátíð eða eitthvað slíkt þannig að það eru mjög margar veigalitlar breytingar í þessum brtt. Ég tel að þurft hafi að fara miklu betur yfir það hvort ekki væri hægt að breyta þessu þannig að meiri sátt væri um frv.
    Virðulegi forseti. Ég held ég geti ekki að þessu sinni komið með fleiri athugasemdir en vafalaust verða þær fleiri sem ég kem auga á með því að hlusta á þær umræður sem eiga eftir að fara fram og ég vænti þess einnig að ég fái svör við þeim spurningum sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra. En til öryggis, virðulegi forseti, hyggst ég setja mig aftur á mælendaskrá síðar í nótt svo að ég geti þá komið með fleiri athugasemdir sem ég á vafalaust eftir að finna.