Náttúruvernd

94. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 02:46:09 (4315)


[02:46]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég get ekki alveg fallist á málflutning hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Hann las hér upp úr væntanlega skipunarbréfi sínu og þar kom alveg skýrt fram að hlutverk nefndarinnar var að endurskoða þá þætti náttúruverndarlaga sem lúta að hlutverki Náttúruverndarráðs og stjórn náttúruverndarmála og annarra atriða sem varða stjórn náttúruverndar. Ég hygg að ég muni það rétt og hafi heyrt það rétt. Það er því engum blöðum um það að fletta að það var fyrst og fremst þessi stjórnsýslulegi þáttur sem átti að vera undir. Þegar ég kom í þetta ráðuneyti og innti eftir stöðu málsins sökum þess áhuga sem ég hafði á náttúruverndarmálum kom í ljós að það virtist afskaplega lítið liggja eftir þessa nefnd samkvæmt þeim upplýsingum sem trúnaðarmaður ráðuneytisins, formaður, veitti okkur. Ég fékk í hendurnar drög að frv., ég man ekki nákvæmlega tímasetningu þeirrar afhendingar, sem fjallaði um flest annað en akkúrat stjórnsýsluþáttinn. Mig rekur minni til þess að í þeim umræðum sem spunnust um það þegar ég ákvað að leggja þessa nefnd af þá hafi það komið fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að hann hafi ekki ekki einu sinni séð þetta frv. Það þótti mér á þeim tíma og þykir enn bera vott um furðuleg vinnubrögð í nefndinni. Það má vel vera að það sé hægt að setja þá sök á ráðuneytið í gegnum trúnaðarmann þess, eins og það er orðað, en ég held að þetta hafi gefið fyllilega tilefni til þess og sér í lagi með hliðsjón af því að það var ár liðið frá því hún átti að ljúka störfum og það hillti ekki undir lok starfsins að stokka aðferðina alla upp á nýtt.