Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til lausnar kjaradeilum

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 13:40:31 (4324)


[13:40]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil lýsa vonbrigðum mínum með þetta svar hæstv. fjmrh. Það liggur sem sagt ljóst fyrir að þetta mál er á algjöru frumstigi. Við vitum að Alþingi mun ekki starfa lengur en næstu viku nema ríkisstjórnin hafi hugmyndir um annað þannig að þetta mál allt er mjög óljóst. Ég verð að lýsa mikilli undrun yfir því að engar formlegar viðræður hafa átt sér stað milli ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðarins um þessar kröfur. Ég hef eins og hæstv. fjmrh. lesið þær í blöðunum en ég hélt satt að segja að hæstv. fjmrh. hefði gert eitthvað meira en að lesa bara blöðin í þessu viðkvæma og erfiða máli og vil lýsa yfir mikilli furðu á þeirri afstöðu að þessu skuli vera sinnt með þeim hætti.