Staðan í kennaradeilunni með hliðsjón af afgreiðslu grunnskólafrumvarpsins

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 14:40:37 (4350)


[14:40]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki unnið að þessu máli í hv. menntmn. en eigi að síður hef ég komið nokkuð að sveitarfélagaþætti málsins og kynntist á frumstigi þeirri ákvörðun að flytja grunnskólann yfir til sveitarfélaganna. Ég vil geta um það hér og undirstrika það sérstaklega að á öllum þeim samkomum sem ég hef setið með forsvarsmönnum sveitarfélaga, sem eru orðnar nokkuð margar um þetta mál, og m.a. landsþing Sambands ísl. sveitarfélaga í haust, þá var ætíð lögð höfuðáhersla á tvö atriði sem yrðu að fylgja þessari ákvörðun, að það væri frágengið hvaða tekjustofnar fylgdu þessu máli og að lífeyrisréttindamál kennara væru frágengin. Staðan í þessu máli er einfaldlega sú að það er ekki orðið fullþroskað eins og fyrrv. iðnrh., sem nú er kominn til Finnlands, sagði oft í ræðustól. Þetta mál er bara hreinlega ekki tilbúið en það á að hafa framvinduna þannig að taka ákvörðunina nú um flutninginn með lögum og skilja þessi mál eftir opin. Málið stendur einfaldlega þannig.
    Vinnubrögðin í hv. menntmn., ég var kallaður inn þar í gær sem varamaður til að sitja einn fund í nefndinni þegar sú ákvörðun hafði verið tekin, væntanlega fyrir fram, af hv. formanni nefndarinnar og vafalaust í samráði við sinn ráðherra og sinn þingflokk að taka þetta mál út hvað sem yfir dyndi. Við fórum fram á það í nefndinni að fá að skoða málið til morguns eða þangað til í dag og þingflokkarnir fengju

að skoða málið núna seinni partinn, núna kl. 4. Hv. 9. þm. Reykv. bar fram tillögu þar um. Tillagan fékkst ekki tekin fyrir í nefndinni og formaður sagði á þá leið að sín tillaga um að taka málið út gengi lengra en tillaga hv. 9. þm. Reykv. og hún var ekki borin undir atkvæði einu sinni. Síðan var málið tekið út. Ég var einu sinni kallaður ofbeldismaður í nefndarstörfum af hæstv. menntmrh. ( Menntmrh.: Það er rétt.) og hann hafði stór orð í ræðustól um vinnubrögð mín í nefnd þegar ég tók einu sinni út mál með atkvæðagreiðslu. En ég hef aldrei neitað að taka fyrir tillögur sem fram eru bornar í nefnd á þeim tíma sem mér auðnaðist það að vera nefndarformaður og hafa hæstv. menntmrh. hjá mér sem óbreyttan liðsmann sem var ágætt því mér er ljúft að vitna um það hérna að hæstv. menntmrh. var góður liðsmaður í nefnd og vann bara af heilindum. En ég hef aldrei kynnst þessum vinnubrögðum á hv. Alþingi.