Staðan í kennaradeilunni með hliðsjón af afgreiðslu grunnskólafrumvarpsins

95. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 14:44:54 (4351)


[14:44]
     Sturla Böðvarsson :
    Hæstv. forseti. Það er vissulega óheppilegt að það skuli gerast að mikilvægar breytingar á grunnskólalögum skuli bera upp á sama tíma og yfir stendur kjaradeila við kennara. Það er að því leyti óheppilegt að sú hætta er vissulega fyrir hendi að þetta mál verði skekkt og skaðað vegna þessarar kjaradeilu. En umræðurnar hér sem eru utan dagskrár eru merkilegar þegar maður fylgist með afstöðu hv. stjórnarandstöðuþingmanna. Hér kom hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir og sagði að það ríkti samstaða og sátt meðal þjóðarinnar um þær breytingar sem verið er að gera á grunnskólalögum. Þetta er mikilvæg yfirlýsing fyrir okkur stuðningsmenn frv. Síðan kemur hv. þm. Svavar Gestsson og segir að þetta frv. fari ekki í gegn, það verði ekki tekið í gegn nema með átökum. Síðan kemur hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir og segir að frv. sé óunnið og það vanti mikilvægar niðurstöður. Ég vil segja við hv. þingmenn: Það er rangt. Við vitum að samningar við kennara hafa ekki náðst en þetta frv. og öll hliðarvinna við frv. er afar vönduð og ég efast um að í annan tíma hafi verið betur unnið að undirbúningi breytinga á svo mikilvægri löggjöf og þær breytingar sem er verið að vinna að á vegum hæstv. menntmrh. En þetta er rangt hjá hv. þm. Það hittist þannig á að ég veitti formennsku nefnd sem vann að undirbúningi þess að meta kostnaðinn við færslu grunnskólans til sveitarfélaganna. Þessi nefnd skilaði áliti um mánaðamótin ágúst/september. Í þeirri nefnd var formaður Sambands ísl. sveitarfélaga og formaður kennarasamtakanna og það var fullkomin samstaða um þær niðurstöður sem voru lagðar fyrir hæstv. menntmrh. Í þeirri skýrslu, sem hv. þm. Svavar Gestsson vitnaði í, var gerð tillaga með hvaða hætti væri unnið að málinu. Það var full samstaða í nefndinni og þarna voru þessir ágætu menn sem ég nefndi áðan í hópnum. Þess vegna kom mér mjög mikið á óvart, bæði þegar ég varð var við viðbrögð Eiríks Jónssonar, formanns kennarasamtakanna, og eins þegar ég heyrði afstöðu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, formanns Sambands ísl. sveitarfélaga, til þessa máls í sjónvarpi í gær, en það á sér vafalaust sínar skýringar og verður að líta á það eins og það er. En ég vil leggja á það áherslu, hæstv. forseti, að þetta mál er mjög vel undirbúið og ég tel að það væri mikill skaði, ef ekki tekst að ná málinu fram áður en þingi lýkur. Ég verð að segja það alveg eins og er, hæstv. forseti, að mér finnst afstaða hv. stjórnarandstæðinga bera þess merki að þeir hafa nokkrar pólitískar áhyggur af afgreiðslu þessa máls. Þeir geta ekki unnt okkur þess að ná þessu máli fram, ná því fram á kjörtímabilinu að færa grunnskólann til sveitarfélaganna, framkvæma þá aðgerð sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir segir að þjóðin sé sammála um, en stjórnarandstaðan ætlar að koma í veg fyrir á þingi.