Grunnskóli

96. fundur
Fimmtudaginn 16. febrúar 1995, kl. 16:49:53 (4413)


[16:49]
     Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Frú forseti. Sl. laugardag birtist viðamikil auglýsing í Morgunblaðinu frá samtökunum Heimili og skóla þar sem á fremstu síðu var auglýst eftir þingmönnum fyrir börnin, einhverjum sem ætti að vilja taka að sér skólamálin, einhverjum sem eru tilbúnir til að ræða skólamálin. Það held ég að hafi vakið athygli og svolítið blendnar tilfinningar hjá okkur mörgum þingmönnum að sjá þetta því að þegar litið er yfir þetta kjörtímabil sem nú er að renna sitt skeið, þá er staðreyndin sú að hér hefur verið mikið rætt um skólamál á þessu kjörtímabili. Það stafar auðvitað fyrst og fremst af því að sú ríkisstjórn sem enn situr en mun nú vonandi ljúka sínum störfum innan tíðar réðist af miklu offorsi á skólakerfi landsins strax á fyrstu mánuðum og það er ástæða til þess að rifja það upp hvernig staðið hefur verið að skólamálum þessi fjögur ár

þegar Sjálfstfl. loksins þóknast að leggja hér fram frv. um grunnskóla og framhaldsskóla til þess að geta nú veifað framan í þjóðina þegar kemur til kosninga. En eins og kom fram í andsvörum áðan, þá eigum við eftir að súpa seyðið af þeim mikla niðurskurði sem hér hefur átt sér stað til skólamála.
    Það er rétt að rifja það upp að þegar hæstv. menntmrh. Ólafur G. Einarsson tók við störfum í menntmrn., þá fór hann að senda frá sér mikið af bréfum í ýmsar áttir og þegar líða tók á sumarið 1991, þá greip hann til ýmissa aðgerða og vægast sagt óvæntra. Hann hætti við að lengja kennaranám við Kennaraháskóla Íslands úr þremur árum í fjögur, hann stöðvaði áætlanir Menntaskólans við Hamrahlíð um ýmsar breytingar, hann kynnti áform um að koma á skólagjöldum sem reyndar tók árið að koma á og hann kynnti tillögur til niðurskurðar á öllum skólastigum og kannski voru langalvarlegastar þær tillögur sem gengu eftir um niðurskurð til framlaga í grunnskólum landsins og við stjórnarandstæðingar börðumst hér gegn nótt eftir nótt. Þegar á allt er litið, þá nemur niðurskurðurinn til skólamála um 2 milljörðum kr. á þessu kjörtímabili, 2 milljörðum kr., hæstv. menntmrh., þegar litið er á öll skólastig og Lánasjóð ísl. námsmanna. Hann er inni í dæminu. Og það er ekki hægt að segja annað en að hér hafi orðið nokkur stefnubreyting á þessu kjörtímabili sem felst í þeirri hugmyndafræði núv. ríkisstjórnar að láta landsmenn borga sérstaklega fyrir þá þjónustu sem þeir eru reyndar áður búnir að borga með sköttum sínum. Hér var mikið talað um það á fyrstu árum þessa kjörtímabils að fólk fengi þjónustu ókeypis, ókeypis skólagöngu, ókeypis þjónustu á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum, allt þetta sem við borgum með sköttunum okkar og sköttunum er ætlað að standa undir. Og það er heldur hlálegt að horfa nú upp á þessi miklu áform um þessar miklu breytingar á skólakerfinu og fagurgala um það hve menntunin sé okkur mikilvæg þegar horft er á þennan mikla niðurskurð. Og hef ég þó ekki komið inn á þær gríðarlegu breytingar sem gerðar voru á Lánasjóði ísl. námsmanna og ég ætla ekki að gera að umtalsefni hér, hvað þá meðferðina á Háskóla Íslands sem einn af prófessorum skólans sagði á fundi hér í Reykjavík fyrir örfáum dögum að væri að verða annars flokks háskóli. Og menn geta rétt ímyndað sér að það er alvarlegt mál þegar prófessorar skólans ganga um og lýsa því yfir að skólinn sé að verða annars flokks vegna stefnu núv. ríkisstjórnar, vegna þess niðurskurðar og þess minnkandi námsframboðs sem þar er, en við minnumst þess kannski að alþingismenn skömmuðust sín og veittu aukið fé til háskólans við samþykkt síðustu fjárlaga, en það dugar auðvitað ekki til þess að bæta upp þann skaða sem unnin hefur verið á undanförnum árum.
    Það er vert að átta sig aðeins á stöðu skólamála við þessa umræðu sem hér á sér stað vegna þess að við stöndum frammi fyrir mjög mikilli og stórri breytingu á íslenska skólakerfinu og þá fyrst og fremst grunnskólanum, nái þetta frv. fram að ganga. Með fræðslulögunum sem sett voru árið 1907 voru þeir skólar sem þá voru starfandi, þ.e. þeir skólar sem kenndu börnum, færðir undir ríkið frá sveitarfélögunum. Fyrir 1907 var það hlutverk hvers sveitarfélags að annast kennslu barna samkvæmt þeirri fræðsluskyldu sem þá var í gildi. Frá 1907 hafa grunnskólarnir heyrt undir ríkið en nú stendur til að færa þá aftur yfir til sveitarfélaganna.
    Ég held að í raun sé orðin sæmileg sátt um það að færa skólann til sveitarfélaganna. Slík þróun hefur átt sér stað á Norðurlöndunum, reyndar með allmismunandi árangri að því er mér er sagt. Ég þekki t.d. Íslendinga sem eru að kenna við skóla í Svíþjóð og fer tvennum sögum af því hverng hafi tekist til og tengist reyndar umræðum um skólastefnur og það hversu miklu sveitarfélögin eigi að ráða um innra starf skóla, hversu mikið svigrúm sveitarfélögin eigi að hafa til þess að semja við kennara. Á að kenna öllum það sama? Eiga að gilda sömu samningar við alla kennara o.s.frv.? Þessi umræða hefur átt sér stað í Svíþjóð og eftir því sem mér skilst þá hafa sveitarfélögin þar haft nokkurt rými sem hefur leitt til þess að skólarnir hafa orðið býsna mismunandi. Þetta er hugmyndafræðileg umræða sem þar á sér stað og margir eru ósáttir við að skólar þróist hver í sína áttina og bjóði upp á mismunandi kjör. Þetta eru allt mjög stórar spurningar.
    Sú spurning sem vaknar kannski fyrst varðandi þetta frv. sem hér er til umræðu er sú staðreynd að vegna tímaskorts stöndum við frammi fyrir því að hugsanlega verði þetta grunnskólafrv. samþykkt en framhaldsskólafrv. verður eftir í hv. menntmn. Sannleikurinn er sá að nefndin hefur ákaflega lítið unnið í því frv. og ég get reyndar ítrekað það sem mína skoðun að ég tel að grunnskólafrv. sé alls ekki fullrætt og mun koma nánar að því í mínu máli. Þar eru ýmsir þættir sem hefði þurft að skoða miklu betur og nefndin hefði þurft að kanna og komast að niðurstöðu um. Það er einhvern veginn þannig oft í nefndastarfi á hinu háa Alþingi að þegar búið er að kalla til aðila og heyra ýmsar skoðanir þá er eins og menn haldi að málið sé rætt í stað þess að þá á nefndin sjálf eftir að vinna sitt starf og fara ofan í þá þætti sem menn vilja skoða betur. En sú spurning sem ég ætlaði að koma að hér er það hvaða afleiðingar það hefur að framhaldsskólafrv. verður skilið eftir og þar með verður ekki sú heild sem nefndin um mótun menntastefnu lagði til. Það er eingöngu hluti af hennar vinnu sem kemst til framkvæmda og það mun auðvitað velta mjög á næstu ríkisstjórn hvort frv. eða þau lög sem hugsanlega verða samþykkt verða tekin upp á nýtt, hvort þessu starfi verður haldið áfram eða hvað gerist.
    Að mínum dómi er þetta nokkuð óheppilegt vegna þess að það er ákveðin heild í þessu verki, það er ákveðin hugsun, það er ákveðin stefna í þessu verki sem ég er mismunandi mikið sammála. Ég er í rauninni frekar sammála þeim breytingum sem verið er að gera á grunnskólanum en ýmsu því sem stendur í framhaldsskólafrv.
    Það er ljóst að það náðist ekki samkomulag um þetta frv. í menntmn. og var reyndar ekki leitað

eftir því. Það lá svo mikið á að koma málinu út úr nefndinni og það leiddi til þess að málið var afgreitt út á því miður afar óheppilegum tíma. Það er afgreitt í ósátt við kennarasamtökin, það er afgreitt með nýjum og ítrekuðum samþykktum Sambands ísl. sveitarfélaga um þá fyrirvara sem þeir setja. Ég get ekki annað en vitnað í bréf sem mér barst í dag og er dagsett í dag, að ég held, frá kennarasamtökunum, bæði Kennarasambandi Íslands og Hinu íslenska kennarafélagi. Þar er sérstök klausa vegna þessarar afgreiðslu og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Vegna afgreiðslu laga um grunnskóla frá menntmn. Alþingis 14. febr. 1995 vilja kennarafélögin taka fram eftirfarandi:
    1. Afgreiðsla frv. úr nefnd án þess að nokkur niðurstaða sé fengin um meðferð ráðningarbundinna réttinda grunnskólakennara við flutning grunnskólans er hneyksli. Þessi dæmalausa málsmeðferð er líkleg til þess að tefja og torvelda samningaviðræður.
    2. Stóraukin áhersla verður lögð á það í viðræðum að meta nákvæmlega áhrif nýrrar lagasetningar á störf kennara og annarra faglegra starfsmanna skólanna.
    3. Samningstími verður metinn með tilliti til gildistökuákvæða.``
    Það er alveg ljóst að það að svona hittist á að verið er að reyna að afgreiða þessi lög á sama tíma og kennarar standa í vinnudeilum leiðir til þess að hugsanlega verða gerðir einhverjir tímabundnir kjarasamningar núna, vonandi takast þeir, en síðan verður að setjist yfir þessi mál öll aftur í ljósi þessara nýju laga vegna þess að þær lagabreytingar sem hér eru á ferð fela í sér breytingar á stöðu og kjörum kennara. Bara það eitt að fjölga kennsludögum leiðir til þess að það þarf að semja sérstaklega um það hvernig við því verður brugðist vegna þess að þó að starfsdögum grunnskólakennara verði fækkað eða þeir einhvern veginn teknir út fyrir kennslutímann þá þarf að vinna þá vinnu sem unnin er á þeim dögum og hún fer þá út fyrir þann tíma og þá þarf að semja um það. Það er ýmislegt annað í þessu frv., eins og kennarar vekja athygli á, sem þarf að semja um sérstaklega.
    Málið er afgreitt í óþökk kennarafélaganna og ég hygg að það ráði ekki litlu um þeirra afstöðu að þegar niðurstaðan er skoðuð, þ.e. frv. og brtt., þá kemur í ljós að það hefur ekkert tillit verið tekið til athugasemda kennara. Þetta frv. felur í sér að það er dregið úr áhrifum kennara á mótun skólastarfs og á vinnu innan skólanna. Kennarar hafa gert ítrekaðar athugasemdir um það mál en það er ekkert tillit tekið til þess.
    Það mætti hafa langt mál um stöðu skólamála í landinu og ég ætla aðeins að nefna það áður en ég kem að sjálfu frv. og breytingunum á því. Ég mun koma dálítið nánar að stöðu kennara og sveitarfélaganna á eftir en að mínum dómi eru helstu gallarnir á íslensku skólakerfi það flæði sem þar ríkir, þ.e. það er straumur upp í gegnum grunnskólann, inn í framhaldsskólana og loks í lok framhaldsskólans er einhver þröskuldur settur, einhver mælikvarði við það að ná stúdentsprófi sem þó er um margt óljóst og síðan eru háskólar hér á landi, sem betur fer, mjög opnir nemendum þó reyndar megi velta því fyrir sér hvort þar sé eðlilega að verki staðið og hvort ýmsar háskóladeildir ættu ekki að hafa heimildir til þess að gera ákveðnar kröfur til sinna nemenda. Ég veit að þetta er mjög umdeilt atriði með þetta flæði, með tilgang prófa og það hvað próf mæla í raun og veru en ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið slakað allt of mikið á kröfum í íslensku skólakerfi á undanförnum áratugum. Ég hef mikla reynslu af því sem framhaldsskólakennari að taka við þessum straumi nemenda í grunnskólum sem voru ekki á nokkurn hátt búnir undir það nám sem þar var boðið upp á. Það er ekki samræmi milli námsins í grunnskóla og þess sem boðið er upp á í framhaldsskóla. Það segir okkur að mínu mati að annars vegar séu kröfurnar ekki nægilega miklar í grunnskólanum og hins vegar bjóði framhaldsskólinn nemendum ekki upp á nógu fjölbreytt nám. Hann býður ekki upp á þá fjölbreytni sem þarf til að taka mið af mjög mismunandi stöðu nemenda.
    Það var ákaflega athyglisvert að heyra það hjá skrifstofustjóra menntmrn., Stefáni Baldurssyni, hversu miklum tíma og miklu fé er varið til sérkennslu í okkar skólakerfi. Ég held reyndar að hún megi vera meiri vegna þess að hér hafa orðið gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar sem hafa leitt það af sér annars vegar að margir nemendur fá ekki það aðhald sem þeir þurfa. Það sem áður gerðist og fólst í því að arfur kynslóðanna barst á milli frá foreldrum til barna eða frá öfum og ömmum til barna, sú menningarhefð hefur því miður rofnað á mörgum heimilum, m.a. vegna vinnuálags og mikilla breytinga sem orðið hafa á fjölskyldulífi og fjölskylduháttum. Við þessu hafa skólarnir ekki brugðist. Menn voru kannski lengi að átta sig á þessum þjóðfélagsbreytingum og jafnframt hafa menn verið ákaflega seinir að taka við sér varðandi þá þjónustu sem þarf að veita þeim hluta nemenda sem á við ýmiss konar vanda að stríða og þá er ég bæði að tala um félagslegan vanda og það sem við getum kallað líffræðilegan vanda eða námsörðugleika sem kalla á sérstaka þjálfun og sérstaka þjónustu.
    Af fleiri göllum menntakerfisins vil ég sérstaklega nefna allt of litla list- og verkmenntun, allt of litla áherslu á skapandi hugsun og skapandi störf í skólunum sem m.a. ræðst af áherslum og of litlum fjárframlögum. Við sjáum að brottfall nemenda er mjög hátt í íslenskum skólum, þá er ég að tala um framhaldsskólana fyrst og fremst. Það er mikið um að nemendur verði að endurtaka sitt nám, m.a. vegna slælegs undirbúnings.
    Síðast en ekki síst er megingallinn, stóri gallinn á íslensku menntakerfi, hin lágu laun kennara sem ég held að valdi og hafi valdið ótrúlegum skaða. Ég get bara vitnað til minnar eigin reynslu af verkfallinu 1989 og bráðabirgðalögunum sem sett voru í júlí 1990 þar sem kennarar í framhaldsskólum voru sviptir þeim launabótum sem búið var að semja um, bæði verkfallið og bráðabirgðalögin höfðu alveg ótrúleg andleg áhrif á þá sem unnu í skólunum. Menn bara nenntu ekki lengur að standa í þessu. Það sem kallað er vinnuandi eða vinnusiðferði varð fyrir miklum skaða.
    Ef við hugsum til þess að kennarar í Kennarasambandi Íslands fóru í verkfall 1984, þá voru gerðir kjarasamningar sem urðu skömmu síðar að engu og mér er sagt að hafi einnig haft mjög lamandi áhrif á skólastarf og afstöðu kennara. Það er ekki fyrr en nú, tíu árum síðar, sem félagar í Kennarasambandi Íslands eru fyllilega komnir í það form að treysta sér aftur í harða kjarabaráttu. Kennarar í framhaldsskólum sögðu upp störfum og gengu út árið 1986. Þeir fóru í þriggja vikna verkfall 1987 ef ég man rétt og síðan var sex vikna verkfall BHMR 1989. Allt þetta var, eins og ég nefndi áðan, gert að engu með bráðabirgðalögunum 1990.
    Allt þetta sýnir að það er mjög mikil óánægja í kennarastéttinni og allt slíkt, óánægja með kaup og kjör, hefur áhrif á allt skólastarf. Þess vegna er svo brýnt að nota tækifærið við þær breytingar sem hér er verið að gera til að finna leiðir til að bæta kjörin. Það verður að hætta þessum tröppuhugsunarhætti sem hér ríkir að líta á þjóðfélagið eins og einhvern stiga þar sem hver hópur eða stétt situr rígföst í sinni tröppu og engu má breyta, engu má bylta, enginn má fá bætur. Þetta gengur ekki upp. Kjör kennara hafa versnað mikið á undanförnum áratugum, og ég hef ekki séð útreikninga um það en ég hef einfaldlega dæmi frá fólki sem hefur verið lengi í kennslu sem segir að fyrir um það bil 20 árum var hægt að lifa og framfleyta fjölskyldu á einum kennaralaunum. Núna duga varla laun tveggja opinberra starfsmanna til að halda uppi rétt venjulegri vísitölufjölskyldu. Það væri fróðlegt að sjá samanburð á launum kennara og ýmissa annarra stétta því að það er staðreynd að kennarar hafa dregist mjög mikið aftur úr. Þetta er aðdragandi að frv. og ég ætla þá að koma að því sjálfu.
    Hv. formaður menntmn. hefur haldið því fram að það væri ákaflega lítill ágreiningur um innihald frv. Þetta er að mínum dómi alls ekki rétt. Það var útbúið hefti fyrir nefndarmenn þar sem dregnar voru saman helstu athugasemdir við þetta frv. og þetta hefti sem er ljósritað báðum megin er upp á 63 síður. Það eru gerðar mjög miklar athugasemdir við þetta frv. Þær eru auðvitað mismunandi alvarlegar en þarna er um mjög margar spurningar að ræða og að mínum dómi tók meiri hlutinn lítið tillit til þeirra athugasemda.
    Það má rifja það upp að á síðasta ári var lagt fram frv. um breytingar á lögum um grunnskólann og þá fór í gang töluvert mikil umræða sem leiddi til þess að það voru gerðar allnokkrar breytingar á frv. Kannski var stærsta atriðið sem tekið var út frá því að tillögur átján manna nefndarinnar voru lagðar fram hugmyndir um lengingu skólaársins. Það kom í ljós að lenging skólaársins um einn mánuð mætti mikilli andstöðu.
    En hér liggur frv. fyrir eftir þessa meðferð sem það hefur fengið í hv. menntmn. og með þeim breytingum sem nefndin leggur til. Ég ætla ekki að fara ítarlega í einstök efnisatriði en hins vegar langar mig til þess að koma að þeim atriðum sem ég tel að hafi verið nánast órædd og sem nefndin hefði þurft að vinna mun betur.
    Í fyrsta lagi er að nefna sjálfan flutninginn yfir til sveitarfélaganna og þá fyrst og fremst það hvernig að honum skuli staðið og hvað hann felur í sér. Eftir að hafa farið rækilega í gegnum frv. og þær umsagnir sem nefndinni bárust eru margir þættir óljósir varðandi þennan flutning, hvernig sveitarfélögunum er ætlað að taka þar á ýmsum þáttum og hver kostnaðurinn er. Frv. fylgir umsögn fjmrn. þar sem bent er á ýmis atriði en það er alveg ljóst að þetta frv. felur í sér að sveitarfélögin eiga að veita mun meiri þjónustu en ríkið hefur treyst sér til þess að veita hingað til. Loksins þegar grunnskólinn er fluttur yfir til sveitarfélaganna eiga þau gera hann almennilegan en ríkið hefur ekki treyst sér til þess. Hvað kosta þessar breytingar? Hvað kostar einsetning grunnskólanna? Hvað kosta máltíðir í skólum, hvernig á að standa að þeim? Hvað kostar sérkennsluþátturinn? Hvað kostar það starf sem fræðsluskrifstofur hafa unnið hingað til og sveitarfélögin eiga að sinna? Hvað kosta sérskólarnir og hvernig verður samstarfið milli einstakra sveitarfélaga hvað þau varðar o.s.frv.? Hvað kosta samningar við kennara og þannig mætti lengi telja.
    Í umsögnum sveitarfélaganna er bent á ýmsa þætti sem valda auknum kostnaði. Þar voru t.d. athugasemdir kaup á námsgögnum sem meiri hlutinn hefur nú ákveðið að gera breytingar á og það verður óbreytt stefna varðandi Námsgagnastofnun. Hún mun áfram bæði framleiða bækur og dreifa þeim til skólabarna. Þá er rétt að minna á það hvað Námsgagnastofnun hefur verið sársvelt árum saman og ýmis þau námsgögn sem verið er að afhenda grunnskólabörnum eru orðin bæði mjög gömul og námsbækur vantar á ýmsum sviðum. T.d. má benda á það sem kom fram þegar við vorum að velta fyrir okkur þjóðargjöfinni í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins. Þá var ég með hugmyndir um það að setja peninga í skólabókaútgáfu eða vinna námsgögn fyrir grunnskólana sem sérstaklega tengdust sögu þjóðarinnar. En þá bentu þeir hjá Námsgagnastofnun á að það sem vantaði langsamlega mest væri ný landafræði og orðabók fyrir skólanemendur. Þar væri ýmist ekkert til eða fornaldarástand ríkjandi. Þá vaknar spurningin hvernig ríkisvaldð muni standa að námsgagnagerðinni fyrst sá þáttur verður hjá ríkinu.
    Það sem veldur mér miklum vangaveltum og kemur víða við í þessum umsögnum er það sem snýr að sérkennslumálunum. Það er gengið út frá því í frv. að öllum skólabörnum verði gefinn kostur á sérkennslu í sínum heimaskóla. Það er jafnframt gert ráð fyrir því að þeir sérskólar sem nú starfa starfi áfram.
    Nú er það svo að stærstu sérskólarnir eða nánast einu sérskólarnir sem eru starfandi á landinu eru

í Reykjavík og þar af leiðandi kemur það í hlut Reykjavíkurborgar að taka við þeim og væntanlega gera samninga við alla vega nágrannasveitarfélögin, hugsanlega öll sveitarfélög á landinu, um það hvernig rekstri þeirra skóla verði háttað. En það sem maður spyr sig er það hvernig skólar landsins eru í stakk búnir til þess að sinna sérkennslunni heima fyrir. Þeir gera það að nokkru leyti núna en það er alveg skýlaus réttur barnanna að fá þessa sérkennslu. Og hvernig eru skólarnir í stakk búnir til þess að sinna henni?
    Það sem ég hefði viljað sjá og heyra í þessari umræðu var það að við í hv. menntmn. fengjum okkur tækifæri til þess að fara rækilega ofan í sérkennslumálin því að það vill svo til að í landinu eru nokkuð skiptar skoðanir um það hvernig staðið skuli að sérkennslumálum. Það eru tveir meginstraumar en það er kannski einn straumur sem gengur hvað lengst. Annars vegar er það hin svokallaða blöndun sem hefur átt mjög upp á pallborðið á undanförnum árum og felst í því að það eigi að gefa t.d. fötluðum börnum kost á því að vera í almennum skólum. Sumir ganga svo langt að segja að öll fötluð börn eigi að vera í almennum skólum. Þau eigi að vera eins og hver önnur börn í skólakerfinu og skólakerfið eigi að bjóða þeim upp á alla þá þjónustu sem þau þurfa á að halda. Síðan er straumur sem gengur aðeins lengra en það og vill ekki viðurkenna neins konar sérkennslu og segir að í orðinu sérkennsla felist mismunun. Það sé verið að mismuna nemendum og hver kennari eigi að fera fær um að kenna öllum nemendum. Þetta er hinn nýi straumur sem er mjög til umræðu og gengur mjög langt.
    Þarna á móti eru svo þeir sem segja að það eigi að veita sérþjónustu og að sumir nemendur hafi þörf og þeim beri réttur til þess að fá að vera með sínum líkum, fái að vera í sínu umhverfi, t.d. heyrnarlaus börn sem eigi að vera í sínu sérstaka málumhverfi þar sem allir tala þeirra mál og þau skilja hvert annað.
    Það er mikil hugmyndafræðileg umræða sem þarna á sér stað og ég held að við hefðum átt að gefa okkur tíma til þess að fara svolítið ofan í þessi mál. Ég velti því fyrir mér hvort sú blöndunarstefna sem þetta frv. gengur út frá sé raunhæf. Það er reynt að fara bil beggja. Það er ekki verið að taka neina afstöðu með þessum straumum en það hefði vissulega verið ástæða til þess að fara rækilega ofan í þetta.
    Varðandi fræðsluskrifstofurnar er allt mjög óljóst um það hvernig því starfi muni verða háttað, hvort sveitarfélögin muni ná einhvers konar samkomulagi á ákveðnu svæði um rekstur á slíkum þjónustumiðstöðvum eða hvað. Og eftir því sem ég best veit er allt starf varðandi þróun fræðsluskrifstofanna meira og minna í lamasessi. Menn hafa til að mynda verið að bíða eftir niðurstöðum í þessu máli.
    Eitt atriði enn vegna þess að það kom fram í umræðunum í gær að minni hluti menntmn. hefur ekki komið fram með neinar brtt. Ég vil taka það fram að málið var einfaldlega ekki komið á það stig í nefndinni að það væri kominn tími til að gera brtt. Ég hefði viljað gera brtt. varðandi skólanefndirnar og veita foreldrum beina aðild að skólanefndum með atkvæðisrétti. Ég veit það að slíkt fyrirkomulag er í Danmörku og hefur gefist ákaflega vel. Ég hef lesið greinar um það að þessi beina aðild foreldra hafi orðið til þess að auka foreldrastarf mjög mikið og orðið til þess að foreldrar hafi orðið miklu áhugasamari og ábyrgðarfyllri varðandi allt skólastarf og hafi sett sig betur inn í hina faglegu hlið málanna.
    En hér er ekki gengið svo langt heldur eiga foreldrar aðeins áheyrnaraðld að skólanefndunum. Reyndar eru miklar athugasemdir við skólanefndirnar í umsögnunum og mér finnst reyndar að þar gæti ákveðins vantrausts í þeirra garð og menn séu að gefa sér það að það þurfi alltaf fagfólk í allt. En auðvitað er með skólanefndir eins og ýmsar aðrar nefndir á vegum sveitarfélaganna að þær þurfa að taka á alls konar viðkvæmum málum hvort sem það eru félagsmálanefndir, barnaverndarnefndir, húsnæðisnefndir og hvers vegna skyldi fólk, hinn almenni borgari ekki geta tekið þátt í umræðum og ákvörðunum um skólamál. Skólamál koma okkur öllum við og ég held einmitt að það að haga skólanefndunum með þessum hætti, þó að ég hefði viljað fá foreldra þarna inn í beint, að það verði einmitt til þess að auka umræður um skólamál. Menn mega ekki ganga út frá því að það hafi engir vit á skólamálum aðrir en þeir sem hafa sérmenntun í þeim efnum. Auðvitað hafa foreldrar skoðun á því hvað á að gera í skólunum og þeir hafa rétt til þess að setja þær skoðanir fram.
    Enn eitt atriði sem hv. formaður menntmn. kom að í sinni framsögu og aldrei var rætt í nefndinni, það var sú tillaga að lögfesta táknmál sem móðurmál heyrnarlausra. Þetta var aldrei rætt. Því máli er vísað til reglugerðar, en ég held að það hefði verið mjög til bóta og verið gott mál að lögfesta og styrkja þannig stöðu heyrnarlausra að lögfesta þeirra táknmál. Mér finnst þetta vera mannréttindamál en þetta var ekkert rætt.
    Sama gildir um þá miklu gagnrýni sem kemur frá kennarafélögunum um það hvernig verið sé að draga úr áhrifum kennara á skólastarfið. Þetta kemur ítrekað fram í þeirra umsögn, þar er bent á fjölda atriða sem m.a. er verið að taka út úr lögum um umsagnarrétt kennara og þetta var bara ekkert rætt í nefndinni. Hver er stefnan? Er þetta í samræmi við það sem gildir í öðrum ríkisstofnunum? Hver er pólitíkin í þessu? Hvernig á pólitíkin að vera? Hvað eru menn tilbúnir að gera varðandi áhrif starfsmanna á rekstur þeirra stofnana sem þeir vinna hjá?
    Enn eitt atriði sem var aldrei rætt eða aldrei tekin afstaða til var um stærð bekkja. Samband ísl. sveitarfélaga leggur mikla áherslu á það og reyndar kennarasamtökin líka að það sé kveðið á í lögum um hámarksstærð bekkja. Ég er ekki sammála því. Mér finnst það svolítið gamaldags hugsun að vilja lögbinda starf bekkja því að skólastarf nú á dögum er svo fjölbreytilegt. Menn eru með alls konar form, eins og í hinum opnu skólum, þar sem verið er að taka út hópa og bekkurinn hefur ekki sömu merkingu og fyrr.

Þannig að ég er ekki viss um og ekki á þeirri skoðun að það hefði átt að gera það, en hins vegar veit ég það vel og skil það vel að þetta hefur verið grundvallaratriði í samningamálum kennara og er náttúrlega partur af því að gera kannski skólastarfið bærilegt fyrir kennara vegna þess agaleysis sem hér ríkir, því miður.
    Ég sá í viðtali við íslenska konu sem býr í Japan, hún átti lítinn dreng í grunnskóla og þar voru 45 börn í bekk og heyrðist hvorki hósti né stuna. (Gripið fram í.) Já, þar var agi. Það þurfa að vísu að vera ákveðin takmörk fyrir aganum, en það má kannski eitthvað á milli vera þess agaleysis sem hér ríkir og þess stranga uppeldis sem japönsk börn hljóta. Stærð bekkjarins segir auðvitað ekki allt en þetta hefði þurft að ræða. Þetta hefði nefndin þurft að ræða, en það var ekki gert.
    Enn eitt sem ekki var rætt í nefndinni eru þær margítrekuðu athugasemdir sérfræðinga, m.a. skólasálfræðinga, sem fram koma í umsögnum þar sem þeir fara fram á það að þeirra starfsheiti komi fram í lögunum og það sé skilgreint og tekið fram hvert þeirra hlutverk sé. Þetta ber svolítinn keim af því að menn eru að reyna að tryggja stöðu sína í skólakerfinu og kannski gengið svolítið út frá því að það geti ekki aðrir komið að þessum málum, en það er ekki þar fyrir að öll þessi sérfræðiaðstoð sem kveðið er á um í frv. er býsna óljós.
    Þá er það enn eitt sem er nokkuð óljóst í mínum huga og það er það eftirlit sem ríkið á að hafa með grunnskólanum. Ef við horfum aðeins á þetta skipulag þá er það Alþingi sem setur rammann um skólakerfið með lögum og þar fer menntmrh. og menntmrn. með æðstu völd. Það ákveður hvaða greinar á að kenna, það gefur út námsbækurnar og það á að hafa eftirlit með því að lögum sé framfylgt og skólarnir standi við lögin. Hvernig á þetta eftirlit að fara fram? Það er aldeilis óljóst. Á að kalla til erlenda aðila, á Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála að annast þetta eða hvað? Þarna er enn einn þátturinn sem er býsna óljós.
    Það mætti fleira telja í þessu efni, en ég ætla nú að fara að stytta mál mitt, frú forseti, og reyna að draga saman að lokum að ástæðan fyrir því að ég, eins og aðrir fulltrúar minni hlutans í menntmn., leggst gegn afgreiðslu þessa máls eru auðvitað þessir tveir meginþættir, að það er verið að afgreiða þetta mál í óþökk kennara og við þær aðstæður að öll þeirra réttindamál eru í lausu lofti. Í öðru lagi hafa enn þá ekki náðst samningar við sveitarfélögin um það hvernig að þessum málum muni staðið. Það er ekki ljóst hvaða kostnaður hlýst af þessu frv. og þó að ég sé sammála þeirri röð að fyrst sé að ákveða rammann, síðan að ganga frá samningamálum og réttindamálum kennara og loks að ákveða tekjustofna til þess að standa undir þessu öllu saman þá hefði það samt átt að gerast nokkurn veginn á sama tímapunkti með kannski þriggja daga millibili eða eitthvað slíkt.
    Þannig að að mínum dómi er ótímabært að samþykkja þetta frv. og það er alveg augljóst að þetta eru fyrst og fremst metnaðarmál hæstv. menntmrh. og formanns menntmn. að koma þessu frv. hér í gegn. En að gera það við þessar aðstæður, gegn mótmælum kennara og á þeim tíma þegar kennarar standa í samningaviðræðum, sem mun auðvitað leiða til þess að það þarf að taka alla þá samninga upp aftur, og gegn mótmælum og athugasemdum sveitarfélaganna, þetta er bara mjög óskynsamlegt. Það er mjög óskynsamlegt að standa svona að verki. Og að meiri hluti nefndarinnar skuli afgreiða málið út rétt á meðan Samband ísl. sveitarfélaga var að funda um málið er auðvitað alveg fráleitt.
    Í bréfi sem Samband ísl. sveitarfélaga skrifaði okkur 14. febr. sl. þá er allt ítrekað varðandi fyrri skilyrði sem sveitarfélögin setja. Þau vilja auðvitað vita að hverju þau ganga. Þau vilja fá að vita hver niðurstaðan verður í samningamálum kennara og varðandi réttindamál kennara. Það er ekkert smáræði sem sveitarfélögin eru að fá yfir sig í lífeyrismálum, í ráðningarmálum, í orlofsmálum o.s.frv. Það hefði verið langeðlilegast að ganga frá þessu öllu á nokkurn veginn sama tíma. Ég hugsa að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, sem er vanur samningamaður fyrir stéttarfélag, hefði ekki verið kátur með það að setja fyrst sjómannalög og gerbreyta stöðu sjómanna og koma svo sex mánuðum síðar og semja um öll réttindamálin, hvernig eigi að taka á breytingum.
    Menn verða að hafa yfirsýn yfir það hvað þeir eru að gera, en það er þannig, frú forseti, að þá yfirsýn skortir. Við vitum ekki hvað samþykkt þessa frv. hefur í för með sér, hver kostnaðurinn verður og mér finnst það óviðunandi að samþykkja lög með þeim hætti. Það hefði verið hægt að ljúka sjálfri vinnslu frv., sem eins og ég hef hér rakið er alls ekki lokið, og ég tek það fram í mínu nál. að ég harma það hvernig meiri hlutinn ákvað að standa hér að verki vegna þess að ég hef þá trú að það hefði mátt ná alla vega víðtækara samstarfi eða við hefðum fleiri getað staðið að afgreiðslu þessa máls ef meiri hlutinn hefði sýnt vilja til þess að reyna að ná samkomulagi með því að fara betur ofan í málið og með því að við hefðum þó ekki væri nema gengið frá yfirlýsingum, fengið yfirlýsingar varðandi réttindamál kennara.
    En ég harma það hvernig að þessu var staðið og mér finnst þetta svo óheppilegt og ég segi það í mikilli hjartans einlægni, að skólamál eru þess háttar mál sem mjög eða alla vega þokkaleg samstaða þarf að ríkja um í samfélaginu. Það gengur ekki að vera að setja lög um jafnviðkvæmt mál og framtíð barna þessa lands og alla þá aðstöðu og aðbúnað sem kennarar búa við, að vera að setja slík lög í óþökk kennara án nægjanlegs samráðs og í sátt við sveitarfélögin og án þess að það sé nokkurn veginn samstaða á hinu háa Alþingi um það hvernig þeim málum skuli háttað. Ég held að þetta þýði bara það að næsta ríkisstjórn rífur þetta allt saman upp og hamingjan má vita hvað út úr því kemur og það mun bara dragast að koma hér fram úrbótum í skólamálum á Íslandi sem ekki er vanþörf á. Þess vegna ítreka ég það að ég harma það

hvernig hér hefur verið að málum staðið.