Náttúruvernd

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 10:33:24 (4434)

[10:33]
     Ólafur Ragnar Grímsson (frh.) :
    Virðulegi forseti. Það er nokkur galli á þingstörfum hér eins og þau eru skipulögð af hálfu forsetaembættisins að hlaupið er í það að taka fyrir flókin mál, ætlaður til þess naumur tími og síðan hlaupið í að taka fyrir annað flókið mál og síðar hið fyrra að nýju og svona koll af kolli. Svona er þetta búið að ganga hér síðustu daga. Ég var t.d. að reifa vinnubrögð og sjónarmið varðandi þetta frv. í gær þegar forseti tilkynnti mér að ákveðið hefði verið að fresta fundi og síðan þegar fundur hófst að nýju var tekið fyrir frv. um grunnskóla.
    Í sjálfu sér beygir maður sig undir þessar ákvarðanir forsetaembættisins en þær eru ekki mjög skynsamlegar. Ég held að skýringin sé innbyrðis togstreita í ríkisstjórninni um það hvaða mál á að afgreiða og

það er mjög vont ef ríkisstjórnin getur ekki komið sér saman um mál með þeim hætti að þingið geti sinnt þeim á eðlilegan hátt. Ég sé t.d. ekki, hæstv. forseti, að það sé eitthvað sérstakt unnið við það að ræða þetta mál áfram fyrri part dags í dag. Skynsamlegra væri fyrir hæstv. umhvrh. og aðra að átta sig á því hvort ekki er hægt að ná einhverju efnislegu samkomulagi um málið og verja tímanum í það frekar en láta bæði mig og aðra halda áfram ræðuhöldum sínum í þessu máli, sérstaklega með tilliti til þess að á dagskránni, virðulegi forseti, eru 11 önnur mál. Þar að auki á að fara fram utandagskrárumræða í dag og eins og allir vita er ljóst að þingfundi verður að ljúka í dag í síðasta lagi kl. 4 eða 5.
    Ég verð að lýsa því í upphafi, virðulegi forseti, að ég er alveg hættur að skilja stjórnina á þessu öllu saman.
    Ef það er vilji ríkisstjórnarinnar, sem mér finnst skynsamlegur, að mæla fyrir þeim mikla fjölda mála sem eru til 1. umr. í dag þá held ég að það væri skynsamlegast að fara í það verk, virðulegi forseti, og bíða svo með umræður um 1. málið og 2. málið sem ljóst er að verða miklar umræður um. Nú veit ég ekki hvort fram hafa farið viðræður við forustumenn þingflokkanna um að taka fyrir þessi mál frá og með 3 og til og með 12, mæla fyrir þeim og reyna að koma þeim til nefndar svo að þingnefndir geti á mánudag byrjað að fjalla um þau. En ef það á að fylgja þeirri venju í dag, virðulegi forseti, að ganga á málin í númeraröð þá er alveg ljóst að það mun aldrei koma að máli nr. 3, virðulegi forseti, og gott ef kemur að því fyrr en á miðvikudag eða fimmtudag í næstu viku ef fylgja á þessari númeraröð. Ég vil þess vegna spyrja virðulegan forseta, áður en ég fer í það verk að halda áfram ræðu minni hvort það sé virkilega þannig að það sé enginn að reyna að koma einhverju viti í þetta og hvort forsetaembættið og þingflokkaformenn geti ekki náð þeirri skynsamlegu niðurstöðu að taka einhverja klukkutíma í að mæla fyrir þessum málum og ef það verður búið um eða upp úr hádeginu þá getum við haldið áfram með þessa umræðu hér. Ég er alveg tilbúinn til þess, virðulegi forseti. Mig langaði bara til að spyrjast fyrir um þetta áður en ég held áfram.
    ( Forseti (PJ) : Vegna athugasemda hv. ræðumanns vill forseti taka fram að áætlað er að halda áfram umræðu um 1. dagskrármálið eins og kynnt var í upphafi fundar. Forseti getur ekki sagt til um það frekar hvort þeirri umræðu muni ljúka en sú umræða er hafin og hv. 8. þm. Reykn. hefur orðið.)
    Virðulegi forseti. Mér er alveg ljóst að hún er hafin. En ég varð við þeim tilmælum forseta í gær að fresta ræðu minni og þá sá forsetaembættið ekki ástæðu til þess að halda áfram þeirri umræðu, síðdegis í gær, heldur tók fyrir annað mál. Það er því ekki alltaf þannig að fylgt sé þeirri reglu að fyrst ég hef hafið ræðu þá verði að halda þeirri umræðu áfram. Ég er svo sem alveg reiðubúinn til að hliðra til á nýjan leik en mig langar til að spyrja: Er það virkilega þannig að það sé bara hæstv. umhvrh. sem krefjist þess að þetta sé gert svona og enginn annar, hvorki af hálfu ríkisstjórnarinnar, forsetadæmisins eða þingflokkanna geti komið skynsamlegri röð á meðferð mála? Mér sýnist að með þessu áframhaldi komist þau mál sem eru til 1. umr. ekki til nefndar fyrr en í fyrsta lagi á þriðjudag.
    ( Forseti (PJ) : Forseti metur áhyggjur hv. 8. þm. Reykn. af framvindu þeirra mála sem hér eru síðar á dagskrá. Hv. ræðumanni og hv. alþm. er ljóst að sá forseti sem hér stendur er varaforseti í þinginu og ákvarðanir um hvernig mál eru tekin fyrir eru stundum teknar án þess að varaforsetar séu kvaddir til en sú ákvörðun liggur fyrir að ræða hér, a.m.k. um sinn, 1. dagskrármálið og ég vænti þess að hv. 8. þm. Reykn. geri sér það að góðu og haldi fram ræðu sinni.)
    Virðulegi forseti. Ég skal gera það en ég mælist til þess að tíminn sé notaður meðan ég er að tala til að taka þá skynsamlegu ákvörðun að láta mæla fyrir þeim málum sem eru til 1. umr., og ég reikna ekki með að það verði miklar umræður um þau, til að hægt sé að koma þeim til nefnda og nefndir geti þá tekið til við þau mál á mánudag. Svo er hægt að halda áfram þessari umræðu og umræðu um mál nr. 2 um eða upp úr hádeginu. Í trausti þess að einhverjir skynsamir menn reyni að hafa samráð um það hvernig við vinnum í þinginu þá skal ég halda áfram ræðu minni en ég mælist til þess að þetta sé skoðað. Ég sé ekki að það þjóni neinum sérstökum tilgangi að vera að hindra það að þessi mál sem eru til 1. umr. fái að komast til nefndar í dag. Ég vil biðja formann þingflokks Alþfl., sem ég sé í salnum, að skoða það mál.
    Ég var að reifa í gær það sjónarmið mitt, sem ég tel mig hafa fylgt á þessu kjörtímabili, að lagasetning um umhverfismál eigi að vera þannig að sem flestir í þinginu geti staðið að henni. Við höfum held ég öll þá tilfinningu gagnvart íslenskri náttúru að hún sé sameign okkar og varðveisla hennar sé skylda okkar kynslóðar gagnvart framtíðinni og sú skylda sé hafin yfir ágreining milli flokka. Það sé ekki fyrr en allar aðrar leiðir hafi verið þrautkannaðar að farið sé inn á þá braut að skipta þinginu upp eftir átakalínum stjórnar og stjórnarandstöðu varðandi þau mál sem snerta umhverfisvernd og varðveislu náttúruauðæfa Íslands. Þess vegna hef ég talið að umhvrh. og umhvrn. væri í nokkuð sérstakri stöðu meðal ráðuneyta. Það ætti ekki að pólitísera, ef ég má nota það orð, þau mál sem þar eru heldur sérstaklega leita eftir víðtækari samstöðu um meðferð þeirra.
    Við höfum öll tilfinningu gagnvart þjóðgörðum landsins, hvort sem það eru Þingvellir eða þjóðgarðurinn í Skaftafelli. Við höfum öll tilfinningu gagnvart varðveislu Breiðafjarðar og við höfum öll tilfinningu gagnvart íslenskum fossum og fjöllum og öðru því dýrmæta sem gerir það að verkum að okkur þykir vænt um þetta land.
    Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði í gær en ítreka í upphafi að ég hef reynt að starfa þannig að þessum málum að breið samstaða geti myndast um afgreiðslu þeirra. Ég tel líka mjög óheppilegt að það festist í sessi sú starfsvenja í umhvrn., eins og t.d. bryddar dálítið á í öðrum ráðuneytum, að sérhver nýr ráðherra þurfi að taka málin upp ætíð og ávallt til að setja mark sitt á þau. Ég tel þvert á móti að það eigi að vera kappsmál umhvrh. að ganga þannig frá löggjöf að ekki þurfi að hreyfa hana langtímum saman. Það er afar óheppilegt ef afrekadýrkun íslenskra ráðherra, sem því miður er nokkur atvinnusjúkdómur í íslenskum stjórnmálum, fari að setja svip sinn á umhvrn.
    Auðvitað er það þannig að þegar ráðuneytið er nýtt og komið er að þeim verkefnum sem þar hafa beðið á þessu sviði þá kann að vera að á fyrstu árum ráðuneytisins sé mikilvægt að sinna þeim verkum sem beðið hafa. Þótt þau verkefni séu mikilvæg þá tel ég til heilla að sá ráðherra sem í ráðuneytinu situr gangi þannig frá löggjöfinni að það verði samdóma álit yfirgnæfandi meiri hluta þings að hún sé svo vel úr garði gerð að ekki þurfi að hreyfa hana á næstu árum. Umhvrn. á þess vegna ekki aðeins að vernda og friða náttúru landsins. Umhvrn. ber að skapa frið um þá löggjöf sem ríkja á á þessu sviði. Það tel ég vera verkefni umhvrn. númer eitt, tvö og þrjú. Umhvrn. sem komið er í stríðsham við þing og þjóð er komið á rangar brautir. Þeir ráðherrar sem eru óhræddir við að berjast, svo notað sé frægt orðalag, og kjósa kannski frekar stríðið en friðinn ættu að vera í öðrum ráðuneytum. (Gripið fram í.) Ég ætla ekkert að taka neina afstöðu til þess. Það ræður hver flokkur hvern hann setur til ráðherraembætta.
    Mér er þetta mikið alvörumál vegna þess að t.d. að Eysteinn Jónsson sem hafði fyrir rúmum 20 árum forgöngu um það á þingi að stigin voru mikilvæg skref í náttúruvernd á Íslandi starfaði í þeim anda að skapa breiða pólitíska samstöðu um náttúruvernd og umhverfismál. Engu að síður var Eysteinn Jónsson einhver harðasti baráttumaður í íslenskum stjórnmálum í áratugi. Um hann voru og höfðu verið lengi meiri deilur en flesta aðra menn í íslenskum stjórnmálum á lýðveldistímanum. Hann bar hins vegar gæfu til þess að stíga út úr þeim átakafarvegi og skapa víðtæka samstöðu á þingi og meðal þjóðarinnar um nýskipun laga á sviði náttúruverndar.
    Nú er hæstv. umhvrh. að rífa upp þessa löggjöf sem Eysteinn Jónsson myndaði breiða samstöðu um á sínum tíma. Mér finnst það miður að verklagið er þannig að það verður óhjákvæmilegt ef niðurstaðan er á þann veg sem hér liggur fyrir að áframhald verði á deilum um málið eins og nú er orðið hér á þingi. Það stafar ekki af flokkspólitískum sjónarmiðum og það stafar ekki af einhverri persónulegri afstöðu heldur fyrst og fremst af því að margt bendir til að í þessu frv. og brtt. sé verið að ganga þvert á það sem taldar eru mikilvægar grundvallarreglur, bæði í náttúruvernd og stjórnsýslu. Ég skal nefna nokkrar.
    Í fyrsta lagi er það mikla viðfangsefni að skilja á milli eftirlitshlutverksins og framkvæmdahlutverksins. Ég er þeirrar skoðunar að það sé grundvallaratriði í framtíðarskipan náttúruverndar að skilja algerlega á milli eftirlitshlutverksins og framkvæmdahlutverksins. Ég held að ég hafi lýst því fyrr á kjörtímabilinu í umræðum um þessi mál að það gæti vissulega komið til greina að breyta hlutverki Náttúruverndarráðs og gera það að öflugum sjálfstæðum aðila sem ekki væri hluti af stjórnsýslunni og ég útilokaði ekkert að slíkar breytingar yrðu gerðar. En þá verða menn að hafa það rækilega í huga að aðrir aðilar sem taka við þeim verkefnum sem Náttúruverndarráð hefur haft falli ekki í þá gryfju að rugla saman óskyldum hlutverkum.
    Annað atriði sem mikilvægt er að hafa í huga er staða umhvrn. á þessu sviði. --- Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér er afar illa við það að annaðhvort sé hæstv. umhvrh. í símanum eða í samræðum við menn í salnum þegar ég er að reyna að útskýra afstöðu mína til þessara mála. Ef málið er svo mikilvægt að það verður að halda áfram umræðum um það hér og nú þá er nauðsynlegt að menn geti rætt saman um málið án slíkra truflana.
    Annað atriðið er að umhvrn. hafi þann sess í þessum málaflokki að það sé nánast ofan við hina eiginlegu undiraðila sem annast eiga bæði eftirlitsverkefnið, framkvæmdaverkefnið og hugsanlega frumkvæðisverkefnið. Ef umhvrn. fellur í þá hefðbundnu gryfju íslenskra ráðuneyta að vilja vera allt í öllu, vegna þess að ráðherrarnir hafa svo gaman af því að vasast í öllu því að þá fer mikið fyrir þeim og margir verða varir við þá, þá erum við komin inn á hættulega braut með þetta nýja ráðuneyti. Það er erfðasjúkdómur íslenska framkvæmdarvaldsins að vilja vera allt í öllu. Það var kannski eðlilegt á fyrri áratugum þegar þjóðin var fámenn og verkefnin voru af því tagi að kannski var það óhjákvæmilegt að ráðuneytin yrðu að gera sig gildandi ef hlutirnir áttu á annað borð að gerast. En ég hef talið að það væri nokkuð samdóma álit flestra þeirra sem að þessum málum koma að það ætti að stefna frá því einkenni íslensku stjórnsýslunnar yfir á nýtt og nútímalegt hlutverk ráðuneytanna.
    Með frv. sýnist mér hins vegar að verið sé að stefna umhvrn. alveg þráðbeint inn í þennan gamla farveg íslenskra ráðuneyta. Það getur haft það í för með sér að umhvrh. verður mikill karl, ef það má orða það þannig, í hversdagslegri önn og það verði eins með hann og menntmrh. áður fyrr að það gat ekkert gerst í skólakerfinu, það var ekki hægt að skipa kennara, það var ekki hægt að gera smábreytingu á starfsháttum skóla hvar sem var á landinu nema fá um það bréf undirritað af menntmrh. Þannig var gamla kerfið í menntmrn. og er að hluta til enn. En menn hafa engu að síður verið að reyna að feta sig frá því. Fyrrv. menntmrh. Svavar Gestsson tók t.d. upp þá skipan að Háskóli Íslands hefði miklu meira sjálfstæði um ráðningu manna til kennslu við háskólann. Og nú er verið að ræða hér breytingar á grunnskólanum um að flytja grunnskólann alfarið yfir til sveitarfélaga. Mér finnst þess vegna vanta algerlega rökstuðning fyrir því hvers vegna umhvrn. telur nauðsynlegt að koma þessum málum fyrir í gamla stílnum með þeim hætti

sem gert er í frv.
    Ég vék að því í gær að Páll Sigurðsson, prófessor við Háskóla Íslands, forseti Ferðafélags Íslands, hefði bent á alvarlegar, lögfræðilegar ávirðingar sem á frv. eru. Hann segir m.a. í umsögn Ferðafélagsins að með því að gera ráð fyrir ákvarðanatöku umhvrn. á frumstigi séu skaðaðir í reynd möguleikar á stjórnlegri kæru til ráðuneytisins. --- Ég held að hæstv. umhvrh. ætti að láta aðstoðarmann sinn vera algerlega utan við þetta mál en ekki í hliðarherbergjum sýknt og heilagt blandandi sér inn í umræðuna. ( Gripið fram í: Er eitthvað óeðlilegt við það?) Nei, það er kannski ekkert óeðlilegt en það væri skynsamlegra að umhvrh. færi að hugsa dálítið sjálfstætt í málinu.
    Nú hefur það verið þannig á sviði dómsmála að við höfum verið að gera viðamiklar breytingar á íslensku réttarkerfi til þess að koma í veg fyrir að þeir aðilar sem koma að máli á frumstigi væru jafnframt úrskurðaraðilar þegar kæra kemur til meðferðar. Það var gagnrýnt af hálfu Evrópuráðsins á sínum tíma að við værum með slíka skipan hér á landi og við sameinuðumst um það hér, þingið --- og ég legg áherslu á orðin sameinuðumst --- að gera viðamiklar breytingar á íslenskri dómstólaskipan og íslensku réttarfari til þess að fyrirbyggja nákvæmlega það sem er verið að innleiða í þessu frv. á sviði umhverfismála. Það var þess vegna sem ég vék að því í gær hvert væri svar lögfræðinga umhvrn. gagnvart þeim ábendingum og athugasemdum sem Páll Sigurðsson lagaprófessor hefur sett fram í embættisnafni forseta Ferðafélagsins. Ég hef ekki séð neitt slíkt svar. Ég sagði í léttum dúr að kannski væri skýringin sú að einn af lögfræðingum ráðuneytisins og kannski sá sem um þetta mætti fjalla hafi verið önnum kafinn að undirbúa framboð sitt fyrir Alþfl. í Suðurlandskjördæmi þar sem það er greinilega talið meira virði að undirbúa kosningabaráttu Alþfl. í Suðurlandskjördæmi en að sinna efnislegum svörum sem fram hafa komið varðandi meðferð þessa máls. Og ég spyr hæstv. umhvrh. gagngert að því hér: Hvar er svar umhvrn., faglegt, ítarlegt, rökstutt svar umhvrn. við þessu sjónarmiði?
    Páll Sigurðsson lagaprófessor hefur einnig bent á það í álitsgerð að frv., eins og segir í álitsgerðinni, muni ,,leiða til stóraukinna daglegra afskipta ráðuneytisins af ýmiss konar ágreiningsefnum sem ætíð hljóta að rísa í samskiptum manna við stjórnvöld á þessu sviði en um leið skapast hætta á því að gagnsemi ráðuneytisins sem áfrýjunarstjórnvalds skerðist frá því sem nú er (og almennt hefur verið um Stjórnarráð Íslands).``
    Þetta er auðvitað mjög alvarlegur hlutur, hæstv. umhvrh. Þetta er ekki eitthvað sem hægt er að hlaupa bara frá í einhverju hendingskasti og láta aðstoðarmann sinn ganga um ganga þingsins og segja að þetta skipti engu máli. Þetta skiptir nefnilega höfuðmáli. Ástæðan er sú að við höfum á Íslandi, eins og ég sagði áðan, verið að sameinast um það á undanförnum árum að innleiða margvíslegar réttarbætur í stjórnsýslunni og í dómsmálum. Og eins og málið liggur fyrir að mínum dómi er með þessu frv. á því mikilvæga sviði sem er umhverfisvernd verið að ganga þvert á þær grundvallarreglur sem eðlileg, nútímaleg stjórnsýsla kveður á um.
    Ef verið er að skapa hættu á því, hæstv. umhvrh., eins og segir í álitsgerð Páls Sigurðssonar lagaprófessors, að gagnsemi ráðuneytisins sem áfrýjunarstjórnvalds skerðist frá því sem nú er, þá segi ég við hæstv. ráðherra: Það er ekkert vit í því að vera að innleiða og festa í sessi löggjöf sem felur það í sér.
    Í þriðja lagi er margt í frv. sem felur í sér þær breytingar að miðstýring umhvrn. sé aukin. Nú er auðvitað hægt að ræða það út frá ýmsum sjónarmiðum hvort sé skynsamlegra að efla valddreifingu á sviði umhverfisverndar eða styrkja miðstýringu í sessi og ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það kunna að vera rök á bak við það sjónarmið að þeir aðilar sem standa nær vettvangi séu hugsanlega svo hagsmunalega tengdir málunum að nauðsynlegt kunni að vera að miðstjórnarvald geti gripið inn í. Engu að síður, hæstv. ráðherra, þá hefur þeirri skoðun vaxið fylgi, m.a. hefur hæstv. landbrh. talað fyrir því og ýmsir aðrir að það eigi að styrkja vald héraða í umhverfismálum og reyna að efla skilning heimamanna og frekar hagnýta sér umhyggju heimamanna fyrir þeim náttúruauðlindum sem þar eru frekar heldur en óttast hagsmunagæslu þeirra og þar með fela hinu miðstýrða stjórnvaldi einhvers konar drottnunarvald fyrir fram.
    Fyrir kannski rúmu ári síðan var það afstaða mín að líklegast væri nú skynsamlegt að halda sér að einhverju leyti í miðstýringarþáttinn. En eftir að hafa hugsað þetta mál meira, eftir að hafa kynnt mér meira hvað er að gerast í þessum málum víða um veröld er það niðurstaða mín nú að það eigi að styrkja heimavaldið. Það eigi að halda inn á þær brautir að efla vald héraðastjórna og svæðisstjórna í þágu umhverfisverndar til þess beinlínis að byggja upp á heimavettvangi gæslusveitir í þágu umhverfisverndar. Í þessu frv. er hins vegar á vissan hátt gengið gegn þeirri stefnu og á annan hátt málin skilin eftir í svo lausu lofti að það er mjög erfitt að átta sig á því hvað á raunverulega að gerast.
    Í fjórða lagi sýnist mér að í þessu frv. sé gengið gegn því sem ég hélt fyrir ári síðan að ætti að vera einn meginþáttur í breytingum af þessu tagi að efla og styrkja nýtt hlutverk Náttúruverndarráðs. Mér sýnist þvert á móti að eins og gengið er frá frv. sé Náttúruverndarráð skilið eftir í svo lausu lofti og svo veikburða og í slíkri óvissu að hlutverk þess hlýtur að veikjast. Í staðinn er verið að leggja hér til annars vegar styrkingu umhvrn. sem stofnunar og flétta það inn í málin nánast á öllum stigum í þessum gamla, íslenska valdagræðgisstíl ráðuneytanna, svo að ég orði það bara eins og það er, og svo hins vegar að búa til nýja stofnun, Landvörsluna, sem á að vera bæði framkvæmdaraðili og eftirlitsaðili og gengur þannig þvert á öll grundvallarsjónarmið í nútímastjórnsýslu.
    Auðvitað verða alltaf verulegir hagsmunir á sviði umhverfisverndar og á flestum sviðum munu einhverjir aðilar birtast sem telja að með ákvæðum um umhverfisvernd og náttúruvernd sé verið að ganga þvert á þeirra hagsmuni. Þá er mikilvægt að eftirlitsaðilinn sé algerlega sjálfstæður. Nú er það svo að á ýmsum öðrum sviðum í íslenskri stjórnsýslu höfum við á síðustu 5--7 árum verið að styrkja slíkan sjálfstæðan eftirlitsaðila. Það hefur verið talið eitt af þeim mikilvægu verkefnum sem tengjast alþjóðavæðingu íslenskrar stjórnsýslu að gera eftirlitsaðilana sjálfstæða, skilja þá frá þeim stofnunum þar sem þeir störfuðu áður og koma upp óháðum og sjálfstæðum eftirlitsaðilum á fjölmörgum sviðum, sviði viðskiptalífs, sviði framleiðslu og öðrum greinum. Með þessu frv. er gengið þvert á þá meginstefnu og ég skil ekki rökin.
    Virðulegi forseti. Ég sagði það áðan að sá mikli baráttumaður íslenskra stjórnmála Eysteinn Jónsson hefði borið gæfu til þess að ná þingi og þjóð saman um það fyrir bráðum aldarfjórðungi síðan að þjóðin eignaðist löggjöf um náttúruvernd sem hún var sátt við alllengi. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að endurnýja þá löggjöf. Að sjálfsögðu þarf að breyta henni til þess að taka mið af breyttum sjónarmiðum og nýjum aðstæðum. En þá er það lykilverkefni hæstv. umhvrh. að halda þannig á málum að breið samstaða þings og þjóðar skapist um þá nýju löggjöf. Að halda þannig á málum að hér komi hver maðurinn á fætur öðrum og gagnrýni efnislega þessa þætti, fólk, sem er almennt fullt af velvilja gagnvart málaflokknum, er ekki skynsamlegt, hæstv. ráðherra. Ef frv. verður lögfest í þeim búningi sem það er nú þá er verið að gefa út tilkynningu um það að fyrsta verk nýs umhvrh. hljóti að verða að taka þetta mál upp, ekki bara vegna þess að það hafi ekki skapast nægileg samstaða um málið heldur vegna þess eins og ég tel mig hafa verið að sýna hér fram á að frv. í núverandi búningi gengur þvert á flestar þær grundvallarreglur sem við höfum verið að reyna að fylgja á sviði stjórnsýslu, úrskurðarmála, valddreifingar og öðrum þeim þáttum sem almennt eru taldir til framfara í okkar þjóðfélagi.
    Virðulegi forseti. Það væri margt fleira sem hægt væri að segja um þetta mál. Ég hef kosið í minni ræðu að gera grein fyrir þessum almennu sjónarmiðum frekar en vera að fara ofan í einstakar greinar í frv. Ég er í sjálfu sér alveg reiðubúinn að gera það síðar ef nauðsynlegt er en á þessu stigi málsins tel ég skynsamlegt fyrir hæstv. umhvrh. að taka sér umhugsunarfrest yfir helgina og hugleiða með opnum huga þau sjónarmið sem hér hafa komið fram og kanna hvort það sé nú ekki skynsamlegri bautasteinn eða a.m.k. áfangaminnisvarði um störf ráðherrans í embætti að hann hafi frekar tekið sér til fyrirmyndar Eystein Jónsson á sviði náttúruverndar heldur en að gerast hér í þingsölum á síðustu vikum þessa kjörtímabils eins konar pólitískur arftaki Jóns Sigurðssonar, fyrrv. iðnrh. og viðskrh., sem aldrei gat haldið á nokkru máli af viti í þinginu.