Launamyndun og kynbundinn launamismunur

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 16:04:11 (4479)


[16:04]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Um leið og ég þakka þessa umræðu og svör hæstv. félmrh. kemst ég ekki hjá því að segja að ég er algjörlega ósammála hæstv. fjmrh. og þeirri frjálshyggju eða einstaklingshyggjustefnu í launamálum sem hann boðar. Skýrslan sannar einmitt hið gagnstæða, hæstv. fjmrh., hún sannar að það er í gegnum persónubundnu greiðslurnar sem launamisréttið heldur innreið sína en meðan mönnum er borgað samkvæmt kjarasamningum standa menn sæmilega jafnt að vígi. Ef það er eitthvað sem þessi skýrsla sannar umfram annað þá er það að öflugasta aðgerðin í launamisréttismálum væri sú að hækka grunnkaupið og greiða öllum samkvæmt umsömdum kjarasamningum.
    Ég er ósáttur við þá niðurstöðu hæstv. félmrh. að ekki megi birta nafn þeirrar opinberu stofnunar sem neitaði að taka þátt í þessu verkefni. Að sjálfsögðu ber að veita einkafyrirtækjunum nafnleynd hvort sem þau taka þátt í verkefninu eða ekki en ég tel að opinber stofnun hafi engan rétt til þess að skorast undan þátttöku í verkefni af þessi tagi. Treysti hæstv. félmrh. sér ekki til að gefa upp nafn þessarar stofnunar skora ég héðan úr þessum ræðustól á þá stofnun að gefa sig fram.
    Um launakerfið og viðhorfin vil ég segja þetta: Ég held að það sé ekki rétt að skella allri skuldinni á launakerfið sjálft. Ekki í þeim skilningi að hin umsömdu laun valdi mismunun. Það er fyrst og fremst hið lága kaup, lágt umsamið grunnkaup, sem skapar þrýsting á óumsamin réttindi sem síðan fela í sér launamisréttið. Svarið liggur því einmitt í að gera launakerfið einfaldara og gagnsærra, að semja um mannsæmandi grunnkaup og með því að færa allar þessar sporslur inn í grunnkaupið.
    Ég þakka svo aftur hæstv. ráðherra þessa umræðu og ég vona að hún sé aðeins upphafið en ekki endir að aðgerðum í þessu máli. Ríkjandi ástand er okkur öllum til vansa, það er óþolandi, og hvar í flokki sem menn standa ber þeim að sameinast um að taka á því.