Launamyndun og kynbundinn launamismunur

97. fundur
Föstudaginn 17. febrúar 1995, kl. 16:06:25 (4480)


[16:06]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Það er afar gott og mikilvægt að ræða þessa skýrslu en það er fráleitt að nota umræðuna til þess að ráðast á ríkisstjórn núverandi eða fyrrverandi eða Alþfl. eins og hér hefur verið gert. Við eigum að taka á þessu á allt annan hátt en þannig og við eigum að vinna úr þessari skýrslu. Ég bendi á að það var ráðherra Alþfl. sem festi það í sessi að þál. sem þessi væri gerð og framkvæmdaáætlun til fjögurra ára sem tekur á mjög þýðingarmiklum hlutum til að vinna bug á þeirri stöðu sem er í launamálum kvenna og karla.
    Að öðru leyti ætla ég að nefna það vegna fyrirspyrjanda míns sem ég gat ekki svarað endanlega í ræðu minni áðan. Hann spyr t.d. um hvort það eigi að láta yfirmenn stofnana og fyrirtækja sæta aukinni ábyrgð og e.t.v. viðurlögum varðandi réttarfarið. Þá vil ég segja að ég tel vænlegra til árangurs að yfirmenn stofnana og fyrirtækja fái meira aðhald m.a. með því að bæta tölfræðilega upplýsingaöflun fremur en að refsileiðinni sé beitt. Tölfræðihópur norræna jafnlaunaverkefnisins hefur skilað tillögum að úrbótum á því sviði sem er mjög nauðsynlegt að skoða nánar. Víst er að ríkið sem atvinnurekandi getur sýnt

ákveðið frumkvæði með því að birta reglulega upplýsingar um launakjör og ýmis hlunnindi starfsmanna sinna aðgreint eftir kyni, starfsstétt o.s.frv.
    Sú niðurstaða sem birtist í könnuninni að ungum menntuðum konum hefur ekki tekist að sannfæra yfirmenn sína um að þær vilji í raun gefa starfi sínu og frama forgang gerir miklar kröfur til yfirmanna og sú spurning vaknar hvort réttlætanlegt sé að skylda yfirmenn stofnana og ráðuneyta til að gera bindandi starfsmannaáætlun sem feli í sér nánari útfærslu á starfsmannakafla framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar um jafnréttismál. Ég tek undir það með fyrirspyrjanda eða stofnanda þessarar umræðu, við eigum að nota þessa skýrslu, við eigum að láta hana vera vinnugagn, við eigum að bæta þessa stöðu, ekki með upphrópunum heldur með markvissu átaki og við þurfum að breyta viðhorfum. Ekki bara úti í þjóðfélaginu, ekki bara hjá hinu opinbera heldur líka heima.