Tilvísanakerfið

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 15:39:40 (4497)


[15:39]
     Sturla Böðvarsson :
    Hæstv. forseti. Hér hafa hv. þm. Framsfl. hafið umræðu um tilvísanakerfið sem á að koma á. Hins vegar hefur það vakið athygli að það er ekki ljóst hver afstaða hv. þm. Framsfl. er til þessa kerfis. ( GÁ: Nú?) Það hafa þrír hv. þm. talað en það hefur ekki verið nokkur einasta leið að finna út hvort þeir væru með eða móti tilvísanakerfi. Þá rifjast það upp að á sinni tíð voru uppi áform hjá Framsfl. um að taka upp tilvísanakerfið. Það hlýtur að vera mikið umhugsunarefni fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh. sem hefur staðið í þessari orrustu síðustu vikurnar að fá ekki sterkari stuðning úr þeirri átt, þ.e. frá Framsfl. ( GÁ: Hlustaðir þú ekki á mína ræðu?)
    Hins vegar er ekki óeðlilegt að þessi umræða fari fram í þinginu og er í rauninni vonum síðar miðað við hina miklu umræðu sem hefur farið fram í þjóðfélaginu um tilvísanakerfið. Ég tel að sú harkalega umræða hafi verið skaðleg og hafi að ýmsu leyti dregið úr tiltrú manna á því að árangur náist við þá kerfisbreytingu sem ég tel eðlilegt að skoða, skoða kerfisbreytingu hvað varðar grunnheilbrigðisþjónustuna. Ég tek undir með hv. 4. þm. Norðurl. e. að það er afar mikilvægt að styrkja grunnheilbrigðisþjónustuna og breyta henni þannig að það megi draga úr kostnaði við heilbrigðisþjónustuna þannig að sérfræðingar hafi ekki algerlega frjálsar hendur um aðgang að þjónustu við sjúklingana án þess að áður komi til þess að grunnheilbrigðisþjónustan, þ.e. heilsugæslulæknarnir, komi þar að. En ég tel að viðbrögð sérfræðinga hafi satt að segja verið allt of harkaleg. Það hlýtur að vera hægt að ná niðurstöðu í samkomulagi milli þessara heilbrigðisstétta. En ég legg áherslu á að það verður að ná niðurstöðu, gera breytingu á kerfinu sem er öruggt að spari en að við leggjum ekki út í mikla orrustu til þess að breyta þessu kerfi án þess að það komi sparnaður út úr því.