Varnir gegn mengun af útblæstri bifreiða og brennslu olíu og bensíns

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 16:54:56 (4523)




[16:54]
     Fyrirspyrjandi (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. skelegg svör hans, en ég vil í framhaldi af því sem hv. þm. Gísli Einarsson sagði áðan benda á það að Jóhann Ársælsson, 3. þm. Vesturl., lagði fram árið 1993 fyrirspurn um líkt efni og væri gaman að vita hvað hefði orðið um niðustöðu þeirrar nefndar sem mun hafa verið í gangi til að ræða einmitt um notkun brennsluhvata í bensíni.
    Í skýrslu sem forveri núv. hæstv. umhvrh., Eiður Guðnason, lagði fyrir Alþingi í mars árið 1993 sagði að hæstv. ríkisstjórn hefði það að markmiði að Ísland yrði um næstu aldamót hreinasta land hins vestræna heims. Stórt orð Hákot. Það er hátt stefnt og það er vel. Því er ég undrandi á að heyra það að hæstv. umhvrh. ætlar sér að setja öll mörk um varnir gegn umhverfismengun sömu og aðrar þjóðir Vestur-Evrópu. Ef við ætlum að verða hreinasta landið og bera af þá verðum við að gera betur. Við verðum að hafa ákveðnari og sterkari löggjöf, gera meira heldur en hinir og ég hvet hann og alla aðra til þess að gera svo vel og gera svo.