Sjúkraliðar

100. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 18:58:07 (4558)


[18:58]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er mælt fyrir af hálfu hæstv. ráðherra mun vera liður eða afsprengi þeirra samninga sem gerðir voru við sjúkraliða um nýárið. Það var vel að samningar voru loksins gerðir milli viðsemjenda og vonum seinna sem það gerðist. Þetta frv. er því gott að því leyti að það á að kveða á nánar um reglur og réttindi sjúkraliða og er nauðsyn að svo verði.
    Það er nú þannig að allar starfsstéttir, einkum og sér í lagi kvenna, finnast mér vera dálítið óöruggar um sinn hag. Hvar endar starf mitt og hvar byrjar starf þess næsta? Það hefur nánast rignt yfir okkur á þinginu alls konar athugasemdum við frv. og verða vafalaust teknar vandlega til athugunar í heilbr.- og trn. sem ég geri ráð fyrir að þetta frv. fari fyrir.
    Eins og ég sé málið þá sýnist mér að það séu 3. gr. og 5. gr. sem hugsanlega gæti orðið einhver ásteytingarsteinn. Í 3. gr. stendur að óheimilt sé að ráða sem sjúkraliða aðra en þá sem hafa starfsleyfi samkvæmt lögum þessum sem þýðir þá að ef einhver hjúkrunarfræðingur eða hjúkrunarkona, sem hefur ekki sjúkraliðaleyfi, vildi komast í sjúkraliðastarf þá hefur hún ekki leyfi til þess þó hún hafi sennilega meiri menntun en ætlast er til.
    Einnig eru ýmsir þættir í 5. gr. sem hjúkrunarfræðingar hafa gert miklar athugasemdir við og raunar hafa sjúkraliðar sjálfir líka sent inn athugasemdir og finnst þetta frv. alls ekki ganga nógu langt. Það verður margs að gæta þegar við í heilbr.- og trn. förum að fjalla um þetta frv. Ég læt í ljós þá von að við náum heilum sáttum í málinu og það finnist fletir sem allir geta sætt sig við.
    Það munu ekki verða miklar umræður um frv. núna vegna þess að verið er að reyna að liðka fyrir því að þetta mál komist sem fyrst í nefnd og verði sem fyrst afgreitt. Ég vildi benda á að það eru 3. og 5. gr. sem gætu orðið einhverjir ásteytingarsteinar og ég vil líka undirstrika það að hver starfsstétt fyrir sig á rétt á því að starf hennar sé ákvarðað þannig í lögum og reglugerðum að fólk þurfi ekki að verða dauðhrætt um hag sinn gagnvart öðrum. Það skemmir vinnuandann á stofnunum og gerir fólk óhæfara til þess að fást við þann vanda sem þarf að leysa. Kannski gætu hagsmunir þriggja stétta rekist eitthvað saman. Það eru náttúrlega hjúkrunarfræðingar sem hafa mótmælt mikið og svo sjúkraliðar og svo Sóknarkonur en ég tek fram að engin mótmæli hafa borist frá þeim. Okkur er nokkur vandi á höndum að finna rétta leið út úr þessu máli en ég hef ekki trú á öðru en það verði reynt að gera það þannig að réttlætið nái fram að ganga og sjúkraliðar geti orðið ánægðir með hag sinn í þessu máli.