Viðlagatrygging Íslands

100. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 19:05:10 (4562)


[19:05]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er fljótgert að lýsa yfir afstöðu til málsins. Ég vil leyfa mér að upplýsa að af hálfu okkar alþýðubandalagsmanna er fullur stuðningur við efnisatriði þessa máls enda er það það sama í þessu frv. og var í frumvörpum sem við lögðum fram á tveimur þingum, breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum og breytingu á lögum um Viðlagatryggingu Íslands þar sem við gerðum einmitt ráð fyrir þessu 10% álagi á iðgjöld til að fjármagna framkvæmdir í snjóflóðavörnum. Það var byggt á mati á framkvæmdaþörf eins og hún lá þá fyrir í ljósi hættumats, sem unnið hafði verið á allmörgum stöðum, og framkvæmda sem menn sáu fram á að yrði að ráðast í.
    Ég vil taka fram að ég er ekki sammála því sem fram kemur í greinargerð eða lok hennar að með lagabreytingu þessari fáist nauðsynlegt viðbótarfjármagn til að gera nauðsynlegt átak í þessum efnum. Það þarf mun meira fjármagn til þess að gera nauðsynlegt átak á landinu öllu í snjóflóðavörnum en felst í frv. Hins vegar munar mikið um þetta fjármagn og ég held að það sé til verulegra bóta að frv. verði samþykkt. En menn mega ekki ganga út frá því að með því að samþykkja frv. hafi menn fjármagnað nauðsynlegar varnir að fullu. Það vantar mikið á að mínu mati.

    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, gera stuttlega athugasemd við upphaf greinarinnar þar sem segir að nýlega hafi nefnd skilað áliti o.s.frv. Það var á sl. hausti sem nefndin skilaði áliti sínu og félmrh. skilaði af sinni hálfu frv. um lagabreytingar fyrir jól og það var svo skilið að það frv., sem er nú til umræðu, hafi átt að fylgja með. En einhverra hluta vegna hefur þetta orðið viðskila og þetta frv. sem var eiginlega seinni hlutinn í tillögum nefndarinnar kemur ekki fram fyrr en 7. febr. og það er heldur laklegt að mínu viti þó að ég voni að það verði ekki til þess að frv. nái ekki fram að ganga. Ég vonast til að þingmenn geri það sem hægt er til að greiða götu málsins.