Iðnþróunarsjóður

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 16:05:17 (4587)


[16:05]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Það mál sem hér er lagt fram á það sammerkt með ýmsum öðrum stórum málum sem núv. hæstv. ríkisstjórn hefur gefist upp á að koma í framkvæmd, að þeim er vísað til næstu ríkisstjórnar og næsta Alþingis. Það er út af fyrir sig góðs viti að núv. hæstv. ríkisstjórn treystir því að það taki við aðilar sem komi því fram sem hún er að heykjast á.

    Ég get tekið undir það með hæstv. iðnrh. að okkur vantar ekki fleiri fjárfestingar- eða stofnlánasjóði hér á landi og því miður er það svo að margt í rekstri og starfsemi opinberu stofnlánasjóðanna á umliðnum árum hefði mátt fara betur. Það hefur hins vegar bráðvantað áhættulánasjóð hér á síðustu árum. Það vantar sjóð sem getur veitt víkjandi lán til vænlegra atvinnukosta, sem getur lagt fram hlutafé í góðar, nýjar hugmyndir og sem getur lánað í þriðja lagi veð ef á þarf að halda til aðila sem eiga þau ekki til staðar. Það gengur ekki til lengdar að það sé svo að ungt fólk með góðar hugmyndir sem eiga erindi inn í íslenskt atvinnulíf geti ekki hrint þeim í framkvæmd á annan hátt heldur en að leggja alla sína fjárhagslegu framtíð að veði. Og því miður hefur það verið þannig á síðustu árum að þeir sem hafa farið út í nýja atvinnustarfsemi byrja frá grunni, hafa í flestum tilfellum orðið að fjármagna sig með okurlánum og því miður með þeim afleiðingum að sá rekstur hefur ekki staðið langa stund og endað í allt of mörgum tilfellum með gjaldþroti og þannig hafa margar góðar hugmyndir glatast sem hefðu getað orðið að vaxtarbroddi í okkar atvinnulífi ef betur hefði verið staðið að.
    Ég minni hæstv. viðskrh. á að lungann úr þessu kjörtímabili var það svo að skammtímafjármagn, sem oft og tíðum var það eina sem þeir áttu völ á sem voru að fara út í nýja atvinnustarfsemi, bar allt að 20% raunávöxtum, þ.e. nafnvextir í núll verðbólgu, þegar þeir voru 20%, þá er það svo einfalt mál að þar voru menn að borga 20% raunvexti. Þetta er kannski hluti af því að það er svo komið að okkar unga og vel menntaða fólk fer ekki út í sjálfstæða starfsemi, það er ekki tilbúið til að hætta eigum sínum í atvinnurekstri. Þannig að það er og hefur verið þörf breytinga á þessu sviði og þessi umræða er búin að vera í gangi, um að sameina að einhverju leyti stofnlánasjóðina og gera þá betur í stakk búna til þess að taka þátt í uppbyggingu í atvinnulífinu, hefur verið í gangi í mörg ár og ég vil ekkert láta núv. ríkisstjórn bera alla ábyrgð á því. Þessi umræða var komin upp áður en hefur því miður alltaf strandað, hefur aldrei náð fram að ganga.
    Ég vil nefna, virðulegur forseti, svona sem dæmi um það hvernig þessir sjóðir sumir hafa starfað. Iðnlánasjóður hefur verið rekinn með myljandi hagnaði á umliðnum árum, en hann gengur hins vegar svo hart að þeim sem þar taka lán til uppbyggingar að það er ekki nóg með að það sé tekið veð í húsnæði viðkomandi atvinnustarfsemi heldur er einnig tekið veð í öllum vélum og tækjum og til viðbótar þeim vélum og tækjum sem kunna að vera keypt inn í viðkomandi rekstur. Menn hafa ekki áttað sig á þessu en vakna allt í einu upp við vondan draum og þetta setur mönnum stólinn fyrir dyrnar með fjárfestingar vegna þess að ný fjárfesting verður sjálfkrafa hluti af þeim veðum sem stofnlánasjóðurinn hafði. Það er ekki mikið þó að svona sjóðir geti sýnt góðan hagnað eftir árum því að þarna eru menn bæði með belti og axlabönd.
    Á nýafstöðnu flokksþingi Framsfl. var lögð nokkuð mikil áhersla á þessa þætti, á atvinnulífið, og þar lögðum við til að þegar við eignuðumst Iðnþróunarsjóð að fullu þá yrði höfuðstól hans ekki að hluta eins og hér er rætt um heldur að öllu leyti beitt til nýsköpunar í atvinnulífinu og til viðbótar hluti af hagnaði annarra fjárfestingarsjóða. Þær tillögur sem hér er rætt um og næstu ríkisstjórn er ætlað að framkvæma ganga að nokkru leyti í þessa átt og undir það get ég tekið.
    Við framsóknarmenn bentum á til viðbótar að það þyrfti að gera róttækar breytingar. Það þyrfti að leggja niður Byggðastofnun í núverandi mynd, sameina hana Atvinnuleysistryggingasjóði og iðnráðgjöfum og skilgreina markmið þeirrar stofnunar upp á nýtt. Með þessi tæki í höndunum er ég sannfærður um að við gætum hafið nýja sókn í atvinnulífinu. Því miður hefur stefna núv. ríkisstjórnar verið nánast hreinn thatcherismi. Það hefur átt að fara sömu leiðina og hafði beðið skipbrot á Bretlandseyjum og dagskipunin hefur verið sú að stjórnvöld mættu helst hvergi koma að þróun atvinnulífsins sem er að mínu mati mikill misskilningur. Atvinnulífið á vissulega að lúta almennum viðskiptalögmálum en ef við lítum yfir sviðið og sjáum hvernig hefur verið staðið að málum hjá ýmsum þeim þjóðum sem hafa náð mestum hagvexti og bestum lífskjörum þá hefur það gerst með þríhliða samskiptum atvinnulífsins, stjórnvalda og verkalýðshreyfingar. Og það er sú leið sem við hljótum að fara og við getum ekki farið aðra leið í eins fámennu þjóðfélagi og okkar þar sem við verðum hvort sem okkur líkar betur eða verr að standa saman. En að sjálfsögðu verður þetta allt að byggjast á þeim grunni, sem hefur verið byggður á síðustu árum með fullri samstöðu allra stjórnmálaflokka, að við tökum fullan þátt í frjálsum viðskiptum og frjálsum fjármagnshreyfingum á milli landa. Allt byggist þetta á eðlilegum viðskiptasjónarmiðum.
    Virðulegi forseti. Þetta frv. kemur mjög seint fram og því miður er það að gerast hér að ríkisstjórnin er að koma með stór mál ekki á síðustu vikum heldur á síðustu dögum þessa þinghalds og það er vandséð hvernig það verður afgreitt allt saman á þessum fáu dögum ef yfir höfuð á að gera það, ekki síst þar sem eftir því sem við heyrum, í það minnsta almennir þingmenn, engin umræða er í gangi um það hvernig eigi að haga afgreiðslu mála þessa þrjá vinnudaga eða svo sem hér eru eftir í þinginu og það er náttúrlega ljóst að ef svo verður áfram þá dagar þorri þeirra mála uppi sem hér er verið að fjalla um þessa dagana hvort sem þar er um að ræða ágreiningsmál eða mál eins og þetta sem hefði verið hægt að ná samstöðu um að afgreiða ef menn hefðu einhvern tíma.