Flugmálaáætlun 1994--1997

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 18:34:58 (4626)


[18:34]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að svara fyrir mig, ég get ekki svarað fyrir fleiri, en það er langt frá því, hæstv. samgrh., að ég sé ánægður með framkvæmdafé til flugmála í Norðurlandskjördæmi vestra. Það vantar mikið á það, hæstv. ráðherra. Og eins og ég sagði þá skuldar hæstv. samgrh. okkur íbúum Norðurlandskjördæmis vestra ýmsar skýringar á störfum sínum sem ráðherra samgöngumála. Ekkert kjördæmi landsins hefur farið jafnhraklega út úr fjárlagagerð í tíð hæstv. samgrh. og Norðurlandskjördæmi vestra.
    Ég sé að hv. þm. og formaður samgn., Pálmi Jónsson, veltir vöngum. ( SJS: Hann leggur kollhúfur.) Hann leggur kollhúfur. En það væri þá gott ef hv. þm. kæmi hér upp og andmæli því sem ég segi. ( Gripið fram í: Hvernig væri það?) Það væri skynsamlegt af honum. Þó held ég að það væri skynsamlegra af honum að gera það ekki.
    Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningum mínum. Hann svaraði því ekki hver það væri sem hefði tekið ákvörðun um að ganga á samþykkt Alþingis um það að vinna ekki fyrir það fjármagn sem samþykkt var við gerð síðustu flugmálaáætlunar. Ef á ekki að vinna fyrir það fé þá er ekki verið skera niður framkvæmdir við Sauðárkróksflugvöll um 15 millj. heldur um 24 millj., hæstv. ráðherra. Við gætum velt því líka fyrir okkur þegar hæstv. ráðherra er að tala um lagningu bundins slitlags á þennan flugvöll hvort hæstv. ráðherra veit að það er slitlag á 400 metrum á enda flugbrautarinnar til suðurs en mér er sagt að framkvæmdin eigi að vinnast af norðurenda flugbrautarinnar. Eigum við ekki aðeins að velta því fyrir okkur hvernig þetta er tæknilega mögulegt?