Lánasjóður sveitarfélaga

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 22:30:58 (4661)


[22:30]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýringar þær sem hann kom með. Ég vil geta þess að það er búið að vera ljóst síðan í desember 1993 að það yrði að samræma lög þessa sjóðs lögum nr. 123 frá 1993 fyrir 1. jan. 1995 þannig að það er ekkert sem kemur mönnum á óvart. Menn hafa í liðlega eitt ár haft vitneskju um að þetta þyrfti að gera. Það er því dálítið klaufalegt, satt best að segja, að ranka við sér fáeinum dögum áður en þingið lýkur störfum og leggja fram frv. um þessa breytingu. Reyndar er þetta

ekki eini sjóðurinn sem er verið að leggja til núna á síðustu dögum að verði aðlagaður þessum tilteknu lögum því að á tveimur öðrum sjóðum eru lagðar til breytingar eins og sjá má á öðrum þingskjölum.
    Í öðru lagi bendi ég á að 1. jan. 1995 er runninn upp fyrir nokkru. Og það skeður ekkert stórvægilegt þó að tíminn sem líður fram yfir 1. jan. 1995 verði einhverjum mánuðunum lengri en skemmri þannig að bara sú ástæða að ástandið er þegar komið upp gerir það að verkum að það getur varla verið stórmál þótt málið hljóti ekki afgreiðslu á þessu þingi án þess þó að ég sé neitt að gera því skóna að svo muni ekki verða. Það verður bara að hafa sinn gang, allt tekur sinn tíma.
    En í fskj. með frv. kemur fram að hinn raunverulegi tilgangur málsins er sá að komast hjá því að Lánasjóður sveitarfélaga þurfi að sæta kröfum sem gerðar eru til lánastofnana og varða hlutafélagsform, bókhald, bankaeftirlit Seðlabankans o.s.frv. Og ég velti því fyrir mér hvers vegna menn vilja ekki að lánsjóðurinn sæti þessu eftirliti og þessum kröfum. Það þarf að gefa skýringu á því, sérstaklega þegar sú áhersla liggur fyrir hjá núverandi stjórnarflokkum, þó að um það sé nokkur ágreiningur milli þeirra og jafnvel innan þeirra, að einkavæða ýmis fyrirtæki og stofnanir sem hafa verið eða eru eign þjóðarinnar, eins og Landsbankann, Búnaðarbankann og svo má nefna fyrirtæki sem þegar hefur verið breytt í hlutafélög og þau síðan seld.
    Ég velti því fyrir mér hvers vegna þessi sjóður er að mati ríkisstjórnarinnar þannig að hann eigi ekki að falla undir áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á bönkum svo dæmi sé tekið. Það er forvitnilegt að fá svör við því og eðlilegast að hæstv. ráðherra veiti þau svör. Hann hlýtur að hafa kynnt sér ástæðuna fyrir því að menn vilja ekki að Lánasjóður sveitarfélaga sæti þeim kröfum sem ég gat um. Þær skýringar kunna að vera þannig að ég geti á þær fallist og fleiri. En það er kjarninn í málinu að þær skýringar séu veittar þannig að menn geti áttað sig á því hvers vegna þessi sjóður þurfi sérstaka meðferð.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna frekar en orðið er varðandi þetta litla þingmál. Ég býst við því að þessu máli verði vísað til félmn. og þar mun ég geta fengið frekari svör og útskýringar við því en koma fram í þessari umræðu.