Vatnsveitur sveitarfélaga

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 22:56:56 (4667)


[22:56]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. sem hér var verið að mæla fyrir er að mörgu leyti athyglisvert, kannski ekki hvað síst í ljósi forsögunnar og þeirrar fyrirspurnar sem ég gerði um það mál í nóvembermánuði sl. Þar eru auðvitað til álita nokkur efnisatriði og ég tók fyrir nokkur og ég sé að á þeim er tekið að nokkru leyti í þessu frv.
    Ég vil fyrst nefna það sem mér finnst vera til verulegra bóta í þessu frv. miðað við núgildandi lög um vatnsveitur sveitarfélaga, en það er ákvæðið í 4. gr. frv. sem kveður skýrt á um það að vatnsgjaldið, ásamt öðrum tekjum vatnsveitu, eigi að standa straum af stofnkostnaði og rekstri vatnsveitu. Þarna er með öðrum orðum skýrt afmarkað að samanlagðar tekjur vatnsveitu af einstökum tekjuliðum, sem eru nokkrir mismunandi, eigi að standa undir tilteknum skýrt afmörkuðum kostnaði.
    Það kom fram í nál. félmn. í des. 1991, þegar hún skilaði af sér málinu til þingsins á sínum tíma, því sem síðar varð lög nr. 81 1991, um vatnsveitur sveitarfélaga, að óheimilt væri að innheimta hærri tekjur en þyrfti til að standa undir þessum tiltekna kostnaði. Ég vænti þess að ráðherra staðfesti það að það sé hans ásetningur með lagabreytingunni, sem ég geri hér að umtalsefni, að standa við þá ákvörðun nefndarinnar þannig að skilja beri það sama skilningi, að hér sé verið að setja hámark við því sem má innheimta í tekjur vatnsveitu og það hámark miðist við stofnkostnað og rekstur vatnsveitu. Ég vænti þess að ráðherra staðfesti það að það sé hans skilningur að þetta verði svona áfram eins og félmn. gekk frá því á sínum tíma. Og þá er komin mjög skýrt afmörkuð heimild til gjaldtöku. En það er einmitt kjarninn í breytingunum sem gerðar voru á sínum tíma, þegar menn afnámu vatnsskattinn og tóku upp vatnsgjaldið í núgildandi lögum, að skattur, ef svo má segja, hann er innheimtur eftir þeim lögum sem um hann gilda og er hann ekki ætlaður til að standa undir tilteknum kostnaði. Hins vegar er gjald þannig að það eru tekjur til að standa undir afmörkuðum útgjöldum. Og því er orðið vatnsgjald komið í stað vatnsskatts að menn ákveða að takmarka gjaldtökuheimildina í þessu skyni við tiltekin útgjöld. Þetta er afar nauðsynlegt að sé skýrt og að sveitarstjórnum sé þetta kunnugt og fari eftir þessu ákvæði laganna. Ég hef gengið eftir því við hæstv. ráðherra með fyrirspurn til þess að fá upplýsingar um það hvernig sveitarfélög stæðu sig gagnvart þessu ákvæði laganna og eins hvernig ráðuneytið stæði sig í því að fylgja lögunum eftir.
    Í svari við fyrirspurn minni 28. nóv. sl. kemur fram hjá félmrh. að ráðuneytið hefur ekki eftirlit með því að sveitarfélögin fari að lögum hvað þetta varðar á annan veg en þann að bregðast við ef einstakir gjaldendur eða íbúar í sveitarfélögum leggi fram kæru. Það er auðvitað ágætt að ráðuneytið bregðist við því þannig að íbúarnir eigi leið til þess að fá úrskurð um mál sín hvað þetta varðar, að geta skotið þeim til ráðuneytis. En það er auðvitað ekki nægjanlegt að mínu mati og ég er á þeirri skoðun að ráðuneytið eigi að eigin frumkvæði að aðgæta hvort sveitarfélög fari að lögum. Í umræddri fyrirspurn, sem ég gat um, kom það fram hjá hæstv. ráðherra að hann vísaði til áritunar skoðunarmanna og löggilds endurskoðanda á ársreikninga sveitarfélaga og gat um að þeim bæri að ganga úr skugga um að ársreikningurinn væri gerður í samræmi við góða reikningsskilavenju og að fylgt hafi verið ákvæðum laga, reglna og samþykkta um meðferð fjármuna sveitarfélagsins, þar með talið ákvæðum laga um vatnsveitur sveitarfélaga eftir því sem við

á, eins og stendur orðrétt í svarinu, með leyfi forseta.
    Ég get vel fallist á að það sé eitt af hlutverkum skoðunarmanna og löggilds endurskoðanda að aðgæta hvort sveitarstjórn fari að lögum. Ég bendi þó á að það þarf að skýra verksvið skoðunarmanna frá því sem nú er til þess að það megi teljast ótvírætt að þeim sé það ljóst að þetta sé hlutverk þeirra. Ég tel að ráðuneytið ætti að fara yfir ársreikningana með það í huga hvort að farið er að þessum lögum. Ef ráðuneytið kemst að því að svo er ekki þá eigi það ótilkvatt að gera athugasemd til viðkomandi sveitarstjórnar og biðja um skýringar og eftir atvikum gefa frekari fyrirmæli eftir því sem lög leyfa og ástæða er til.
    Ég vil nefna aðra fyrirspurn í framhaldi af þessu sem ég bar fram til hæstv. félmrh. á þessu þingi, en hún er um tekjur og gjöld vatnsveitna í kaupstöðum árið 1993. Þar spyr ég um hverjar tekjur vatnsveitnanna hafi verið á þessu ári annars vegar, og hins vegar hver hafi verið rekstrargjöld vatnsveitunnar í hverjum kaupstað ásamt fjárfestingum. Þannig að það sést í hverjum kaupstað fyrir sig hver mismunurinn er á milli tekna og gjalda eins og það er skilgreint í lögunum um vatnsveitur sveitarfélaga, þetta árið, 1993. Það kemur í ljós að það er einungis í fimm sveitarfélögum eða fimm kaupstöðum sem tekjurnar eru minni en útgjöldin það ár. Það er hins vegar í 25 sveitarfélögum af þessum 30 sem þeir innheimta meira en þeim ber samkvæmt ákvæðum laganna. Samtals innheimta þeir 245 millj. kr. umfram það sem útgjaldaþörfin eða útgjöldin eru hjá viðkomandi vatnsveitum.
    Nú tel ég að í framhaldi af þessu svari hefði ráðuneytið átt að skrifa til þessara 25 sveitarstjórna og afla frekari upplýsinga t.d. um árin 1992 og 1994 og spyrja hvort að viðkomandi sveitarstjórn hygðist ekki lækka gjöld sín af vatnsveitum, vatnsgjald, aukavatnsgjald o.s.frv., til þess að þau væru ekki að safna tekjum. Því það er ekki meiningin að vatnsgjöld séu tekjustofn, þau eru einfaldlega tekjur á móti útgjöldum.
    Sem dæmi má nefna að Kópavogur innheimtir á árinu 1993 59 millj. kr. meira í tekjur af vatnsveitu en þörf var á samkvæmt ársreikningum kaupstaðarins. En innheimtar tekjur það ár voru samtals 139 millj. kr. þannig að mér sýnist fljótt á litið að kaupstaðurinn hefði átt að lækka gjöld sín um 59 millj. af þessum 139. Ætli það séu ekki um 40%? Húseigendur munar verulega um þessi 40% sem þeir eru að borga meira en þeir eiga samkvæmt lögum þetta tiltekna ár.
    Það má líka nefna aðra kaupstaði eins og t.d. Garðabæ, sem innheimtir árið 1993 28,5 millj. kr. meira en þörf var á samkvæmt útgjöldum eða ársreikningum vatnsveitu Garðabæjar, en gjöldin reyndust ekki vera nema rúmar 11 millj., en tekjur nærri 40 millj. Þannig að á því ári hefði bæjarastjórn Garðabæjar átt að hafa gjaldskrána 3 / 4 lægri en hún var í reynd, tæplega 75% lægri en hún varð í reynd. Fasteignaeigendur í Garðabæ voru þarna að greiða fjórum sinnum hærra verð fyrir þessa þjónustu en þeim ber samkvæmt lögum. Ég tel það mjög alvarlegt mál að sveitarstjórnir skuli umgangast þessi lög svona af mikilli léttúð eins og virðist vera og ég tel það reyndar mjög alvarlegt að hæstv. ráðherra og ráðuneyti hans sýni ekki viðbrögð við þessum upplýsingum, en mér er ekki kunnugt um að ráðuneytið hafi sýnt nein viðbrögð í framhaldi af þeim upplýsingum sem fram koma í svarinu. En ef svo er þá mun hæstv. ráðherra vafalaust upplýsa það og ég bið hann þá velvirðingar ef ég hef hann fyrir rangri sök hvað það varðar. En þetta er mikið alvörumál því fasteignagjöld eru að verða einn þyngsti bagginn á venjulegu launafólki, að það er verið að hlaða svo miklum sköttum á fasteignirnar sjálfar að það er verða hvað þungbærast fyrir venjulegt launafólk í kaupstöðum landsins að borga þau gjöld.
    Þá vil ég nefna annað atriði sem ég er ósáttur við í þessum lögum, sem reyndar er ekki gerð tillaga um að breyta og ég veit ekki hvort ég geng svo langt á þessu þingi að leggja til breytingar á því, en ég vil a.m.k. lýsa skoðunum mínum á því ákvæði. Það er að álagningarstofn vatnsgjaldsins skuli vera afskrifað endurstofnverð húss og mannvirkis margfaldað með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins o.s.frv. Mér finnst nú alveg nóg bölið fyrir fasteignaeigendur að vera látnir borga af fasteign sinni fasteignaskatt, þ.e. eignaskatt af álagningarstofni sem er annar og hærri heldur en eignin er metin í verði, þannig að það er ekki bara að mönnum sé gert að borga, a.m.k. þeim sem búa utan höfuðborgarsvæðisins, eignarskatt af matsverði eignarinnar heldur er bætt við það matsverð töluvert hárri fjárhæð, breytilegri þó eftir sveitarfélögum, þar sem þeir eru að borga viðbótareignarskatt, að þetta óréttlæti gengur líka yfir á vatnsgjaldið. Nógu slæmt er nú að miða vatnsgjaldið, sem er gjald fyrir tiltekna þjónustu, við matsverð, fasteignamatsverð íbúðar, þó það sé ekki verið að nota yfireignarverð, eins og gert er ráð fyrir í lögunum og frv. líka. Ég er mjög ósáttur við þetta og tel að ef menn á annað borða ætla sér að miða vatnsgjaldið við álagningarstofn af þessu tagi ætti það að vera fasteignamatsverðið en ekki annað og hærra.
    Hins vegar tel ég skorta rök fyrir því að menn greiði vatnsgjald í takt við fasteignamatsverð og hvort heldur menn reikna með fasteignamati eða jafnvel rúmmáli eignarinnar, því að kostnaðurinn við að reka vatnsveitu er ekki endilega tengdur stærð hússins eða hugsanlegu mati eignarinnar á almennum markaði. Reyndar eru þessi gjaldtökumál á húseigendur, þá á ég við gjaldtökur til sveitarfélaga, í verulegum ólestri að mínu mati. Þar á ég ekki bara við álagningarstofninn og hvernig gjaldtakan varðandi vatnsgjaldið er ákvörðuð, ég á einnig við gatnagerðargjaldið og holræsagjaldið, en í öllum þessum tilvikum er um gjöld að ræða sem eiga að standa undir tilteknum útgjöldum, en álagningarstofninn sem ákvarðar gjaldið er ekki í neinum tengslum við þessi útgjöld. Og stundum reyndar er mönnum gert að borga þessi útgjöld án þess að njóta þeirrar þjónustu sem gjaldið á að standa straum af.
    Virðulegur forseti, það er fleira í þessu frv. sem mér finnst ástæða til að nefna þó að ég dvelji dálítið við

þetta, sem mér finnst nú reyndar vera aðalatriðið, að fjalla um vatnsgjaldið sjálft og tala fyrir því að framfylgt sé ákvæðum laga um að sveitarfélög séu ekki að innheimta hærra gjald en þeim ber. Það á ekki að líða það að aðili sem fær til þess heimild frá löggjafanum að innheimta gjald eða skatta sé að innheimta meira en honum er ætlað að taka. Einhver verður að gerast málsvari þeirra sem borga þessi gjöld. Og eins og málum er háttað þá virðist sem gjaldendurnir, þ.e. íbúðareigendurnir, eigi sér engan málsvara í stjórnkerfinu. Sveitarstjórnirnar hugsa fyrst og fremst um eigin fjárhag og að afla tekna til að standa undir útgjöldum sínum og eins og svarið við fyrirspurn minni leiðir í ljós eru langflest þeirra að innheimta miklu meira en þeim ber og eru í raun að sækja sér tekjur til að standa undir öðrum útgjöldum. Því miður virðist félmrn. vera meira og minna sveitarstjórnarmannaráðuneyti og gæta hagsmuna sveitarstjórnarmanna og jafnvel stundum hagsmuna sumra sveitarstjórnarmanna, þ.e. þeirra sem mest mega sín, fulltrúa öflugustu sveitarfélaganna. En sá þáttur virðist algjörlega vera vanræktur að mínu mati sem ég tel að eigi að vera og sé samkvæmt lögum í starfi ráðuneytisins, að það sé einnig hagsmunagæsluaðili og málsvari fyrir íbúana þannig að ráðuneyti félagsmála sé ekki bara ráðuneyti sveitarstjórnarmanna heldur líka ráðuneyti íbúanna.
    Ég vil, virðulegi forseti, spara mér frekari umræðu um önnur efnisatriði þar til síðar. Það gefst betra tækifæri til þess við 2. umr. málsins að fara yfir atriði í frv. sem tengjast fyrispurnum mínum frá í nóvember. Mér finnst ástæða til þess að gera þeim fyrirspurnum skil og viðbrögðum ráðuneytisins í framhaldi af því því að mér finnst það til fyrirmyndar þegar ráðuneyti bregst við rökstuddum ábendingum, eins og ég tel að ég hafi verið með, og bæti úr. Þar á ég við það ákvæði í 4. gr. frv. um að setja í síðustu málsgreinina heimild til að ákvarða hámark og lágmark vatnsgjalds miðað við rúmmál húseigna. En það er reglugerðarákvæði sem sett var á sínum tíma og ég hef gert athugasemdir við og er núna tekið inn í lagatextann. Það tel ég til fyrirmyndar af hálfu ráðherra að bregðast við með þessum hætti en hins vegar vil ég láta það í ljós að ég er ekki viss um að ég sé efnislega sammála því að menn eigi að miða vatnsgjald við rúmmál en það er önnur saga.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, vekja athygli á því að með skilgreiningu hæstv. ráðherra á því hvaða tekjur vatnsveita megi innheimta er staðfestur sá skilningur sem ég kom fram með í einni af fyrirspurnunum frá því í nóvember sl., að arðgreiðsla er ekki hluti af útgjöldum vatnsveitu.