Listmenntun á háskólastigi

102. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 13:39:39 (4730)


[13:39]
     Björn Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Hv. 9. þm. Reykv. taldi að við værum að samþykkja einhvers konar hálflög ef ég skildi hann rétt og þetta mál væri ekki fullunnið. Það er mikill misskilningur að þetta mál sé ekki fullunnið. Það er mjög ítarlega unnið og það liggja fyrir fastmótaðar tillögur um það hvernig staðið skuli að framkvæmd frv. ef það verður samþykkt sem allar líkur benda til. Ég þakka fyrir þær góðu undirtektir sem þetta mál hefur fengið í þinginu og innan hv. menntmn. þar sem náðist full samstaða um málið þó með þessum fyrirvara hv. 9. þm. Reykv.
    Það liggja fyrir tillögur um hvernig staðið skuli að fjármögnun þessa skóla og það liggja fyrir hugmyndir um hvernig staðið skuli að skipulagi skólans og þessar hugmyndir hafa allar legið fyrir gagnvart öllum umsagnaraðilum og áður en málið var lagt fram gagnvart þeim aðilum sem þetta mál varðar sérstaklega.
    Varðandi hlut Reykjavíkurborgar vil ég taka það fram að Reykjavíkurborg átti fulltrúa í nefndinni sem smíðaði tillögurnar sem frv. er byggt á og það er gert ráð fyrir því í tillögunum að Reykjavíkurborg eigi fulltrúa í stjórn hins nýja listaháskóla. Það hefur því alltaf verið gengið að því sem vísu að Reykjavíkurborg yrði virkur þátttakandi í þessum málum og Reykjavíkurborg gripi ekki til þess ráðs þegar skólinn væri kominn í þetta form að draga þá til baka fjárstuðning sinn við tónlistarmenntun og myndlistarmenntun í höfuðborginni. Það kæmi mér mjög á óvart ef sú staða væri uppi núna eftir að skipt hefði verið um meiri hluta í borgarstjórn Reykjavíkur að þá mundu menn þar vilja halda að sér höndum varðandi stuðning við listmenntun í borginni og skipta alveg um skoðun frá því sem var og réð úrslitum þegar við mótuðum þessar tillögur með þátttöku fulltrúa Reykjavíkurborgar. Mér hefur nú virst koma fram áhugi hjá núverandi meiri hluta í borgarstjórn Reykjavíkur á því að láta að sér kveða í menningarmálum. A.m.k. hafa verið haldnar tvær ráðstefnur um þessi mál upp á síðkastið, um hlut Reykjavíkurborgar í menningarmálum. Ég hef ekki orðið var við það sérstaklega að þar hafi verið ályktað á þann veg að Reykjavíkurborg ætli að draga sig út úr varðandi fjárstuðning við tónlistarmenntun eða myndlistarmenntun. Ef hv. þm. er að boða það hér að þessar hugmyndir standi á veikum grunni vegna þess að Reykjavíkurborg hafi skipt um skoðun í þessu máli þá kemur mér það satt að segja í opna skjöldu. En það er það eina sem mér virðist vera vafaatriði varðandi þetta því að hvergi er gert ráð fyrir því að dregið sé úr fjárframlögum á vegum ríkissjóðs til þessara skóla og eini aðilinn sem hefur boðað að það kunni að verða breyting á afstöðu hans er Reykjavíkurborg. Það kemur fram í bréfi sem fylgir bréfi borgarstjórans og er frá hagfræðingi Reykjavíkurborgar en ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að Reykjavíkurborg ætli að hverfa frá stuðningi sínum við listmenntun þótt hún verði skilgreind með þeim hætti að um listmenntun á háskólastigi sé að ræða.
    Það er eina vafaatriðið í þessu efni sem ég hef orðið var við síðan við gengum frá þessum tillögum og eins og ég legg áherslu á áttu fulltrúar Reykjavíkurborgar aðild að þessu starfi öllu og það er gert ráð fyrir aðild borgarinnar að stjórn þessa skóla.
    Varðandi skólagjöldin þá geta menn dregið upp þá mynd að það verði mjög há skólagjöld í þessum skóla. Ég vil ekkert fullyrða um það. Við erum ekki að taka ákvörðun um það með samþykkt þessa frv. Það er á valdsviði skólans. Menn virðast gleyma því stundum þegar þeir ræða þetta mál að það sem við erum að

samþykkja hér, verði þetta frv. að lögum, er að um sjálfstæða stofnun verði að ræða sem taki ákvarðanir um sín innri málefni og m.a. um þennan þátt. Mér finnst rétt að halda því til haga hér að það eru miklar ranghugmyndir gefnar ef menn láta eins og listnám nú sé ekki stundað fyrir há skólagjöld. Menn þurfa ekki annað en kynnast því hvað tónlistarnemar þurfa að borga há gjöld fyrir að stunda tónlistarnám til að átta sig á því að um há skólagjöld er þegar að ræða varðandi listnám í landinu. Í sjálfu sér eru skólagjöld ekki nýmæli í þessari skólagrein, ef ég má orða það svo, en hins vegar erum við ekki að taka ákvarðanir um skólagjöldin. Það hlýtur að ráðast af þeim samningum sem takast á milli skólans, ríkisins og Reykjavíkurborgar, sem ég tel að hljóti að verða annar tveggja burðarása á bak við þennan skóla, hvað skólagjöldin þurfa að verða há. Ég vona að við þingmenn Reykvíkinga munum þá a.m.k. sammælast um það að hlutur borgarinnar í þessum merka skóla, sem allir eru sammála um að koma á fót, verði sem mestur.