Skoðun kvikmynda

102. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 14:05:45 (4737)


[14:05]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með það að hv. menntmn. skuli hafa komið þessu máli hingað til afgreiðslu. Það hefur einmitt mikið verið spurt um þessi mál á hinu háa Alþingi og ekki hvað síst síðan 1992 þegar samþykkt voru ný lög um vernd barna og ungmenna þar sem ákveðið ákvæði datt út úr kvikmyndaeftirlitslögunum þar sem hægt var að fylgja eftir banni við kvikmyndum.
    Hér hefur verið tekið á því einnig að banna auglýsingar sem hafi svipuð áhrif og talað er um í sambandi við kvikmyndir. Það er einnig mjög nauðsynlegt í því breytilega þjóðfélagi sem við lifum í að tekið sé líka á því sem viðkemur auglýsingunum.
    Það hefur komið hér fram, ég man ekki hvort ég ræddi það við 1. umr. um þetta mál, að ég tel einmitt að þær auglýsingar sem sýndar eru frá myndbandaleigum og kvikmyndum rétt fyrir kl. 8 á kvöldin hafi slæm áhrif á ungmenni. Það er alveg greinilegt að sá tími er fyrst og fremst notaður vegna þess að þá er mestur fjöldi þjóðarinnar, og þar með talin börn og unglingar, sestur fyrir framan sjónvarpið til þess að horfa á dagskrána fram undan.
    Síðan er aftur á móti talað um í nál. að nefndin hafi ekki treyst sér til þess að taka á þessu hvað varðar fréttaefni. Þetta gildir samt einnig um fréttaefni því að fréttaefnið er oft og tíðum það óhugnanlegt á að horfa að það verður að vernda börn og ungmenni fyrir því að horfa á þetta og ekki einungis börn og ungmenni heldur jafnvel margt viðkvæmt fólk sem ekki þolir að horfa á þetta. Það er spurning hvort það sé ekki næsta skref að fara að skoða það eitthvað hvernig fréttamenn vinna sínar fréttir og hvaða mat þeir leggja á það hvað sé verulegt fréttaefni því að það virðist vera það sem er ógnvænlegast og blóðugast, svo eitthvað sé nefnt. En nefndin hefur greinilega ekki treyst sér til að taka á því máli núna en vísar í ákvæði sem er hluti EES-samningsins en þar segir að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir. Það er náttúrlega spurning hvort því sé nokkuð fylgt eftir þótt ákvæði sé um það í einni grein og væri kannski vert að spyrja hv. formann menntmn. að því hvort hún viti til þess að einhvers staðar sé slíku ákvæði fylgt eftir, þ.e. að eitthvert eftirlit sé með sjónvarpssendingum á fréttaefni innan lögsögu Evrópubandalagsríkjanna og þeirra sem EES-samningurinn tekur til. Nú þekki ég það ekki en kannski hefur hv. formaður nefndarinnar skoðað þetta eitthvað í tengslum við afgreiðslu frv.
    Þá er einnig nefnt í umfjöllun nefndarinnar að það sé nauðsynlegt að auka eftirlit með starfsemi myndbandaleiga. Mér sýnist ekki hafa verið tekið á því í frv. eða umfjöllun nefndarinnar þannig að þó að ég fagni því að þetta frv. sé komið fram og það sé til bóta svo langt sem það nær þá tel ég enn sé mjög margt ógert í þessum efnum og þar á ég við fréttaefni og myndbandaleigur. Ég tel að það þurfi miklu meira eftirlit með því að það efni sem þar er flæði ekki yfir heimilin og æsku landsins. Ég held að það verði ekki gert nema með hertu eftirliti á þessum sviðum þannig að ég vænti þess að þó að þetta frv. verði samþykkt þá verði ekki þar með hætt umfjöllun um þessi mál heldur sé haldið áfram að skoða þetta og verulega haldið á lofti því sem þó kemur fram í þessu frv. að það þurfi að takmarka eitthvað myndefni sem flæðir yfir íbúa hvarvetna í heiminum og raunar ekki bara á Íslandi. Þetta er það sem held ég allar þjóðir heims þurfa að vakna til vitundar um og taka á á næstu árum.