Stjórnarskipunarlög

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 16:29:44 (4813)


[16:29]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Varðandi stjórnmálaflokkana held ég að þegar stjórnmálakaflar stjórnarskrárinnar, ef ég má orða það svo, verða teknir til endurskoðunar og færðir í nútímalegra horf þá verði nauðsynlegt að taka inn ákvæði varðandi stjórnmálaflokkana. Þar tel ég að ákvæðið um þá eigi heima.
    Varðandi trúfélögin er það ljóst að þau eiga heima á þeim stað þar sem þau eru og varðandi sveitarfélögin finnst mér að það sé ekki hægt að bera þau saman við hin félögin og við séum kannski að tala um ólíka hluti.
    Varðandi stéttarfélögin er ég ekki sannfærður um að það eigi að taka þau fram yfir önnur hagsmunafélög í landinu og setja þau inn í stjórnarskrána sérstaklega. Þess vegna sagði ég það að með þessu stílbroti, bæði í textagerð og einnig varðandi efni málsins sem þarna kemur fram, tel ég skref aftur á bak og kunni að leiða til þess að menn fari að túlka þetta ákvæði og leggja merkingar í það sem kannski vakir ekki fyrir hv. síðasta ræðumanni eða öðrum sem að þessu máli standa.
    Ég velti því fyrir mér líka þegar ég hlýddi á ræðu hans af því að ég heyri hvernig hann leggur út af þessum ákvæðum hvaða gildi lögin frá 1938 um stéttarfélögin og vinnudeilur og önnur slík lög hafa og hvort við verðum þá ekki að taka það allt til endurskoðunar og skoða það núna í ljósi þess ef réttur manna til þess að semja um kjör sín er orðinn stjórnarskrárverndaður, hvort við þurfum þá að hafa löggjöfina með þeim hætti sem hún er og hvort það kalli ekki á að við endurskoðum þessa löggjöf til þess að líta á málið í stærra samhengi.
    Ég er ekki þeirrar skoðunar að stéttarfélög eigi heima með þessum félögum sem nefnd voru og um stjórnmálaflokkana tel ég að eigi að fjalla í stjórnmálakafla stjórnarskrárinnar, ef ég má kalla það svo.