Vátryggingastarfsemi

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 18:19:01 (4826)


[18:19]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Frv. það um breytingar á yfirstjórn vátryggingastarfsemi sem hér er til umræðu og hæstv. forsrh. hefur gert grein fyrir gerir ráð fyrir því að tryggingamál önnur en almannatryggingamál séu flutt yfir til viðskrn. Ég held að það sé af hinu góða og mér finnst að það mál sem hér er lagt upp með geti á margan hátt gert verkaskiptingu í Stjórnarráðinu skýrari en nú er. Ég minnist þess frá þeim tíma er ég var starfandi í heilbrrn. að mér fannst alltaf að vátryggingastarfsemin ætti mjög lítið skylt við þau mál sem þar væri verið að fjalla um hverju sinni og í ljósi þess að viðskrn. er frekar lítið ráðuneyti en heilbrrn. stórt er að vissu leyti skynsamlegt að færa þarna til, jafna verkum, með það í huga að hugsanlega muni þegar fram líða stundir, eins hefur verið rætt, bankaeftirlitið, sem nú er í Seðlabankanum, hafa visst eftirlit með vátryggingastarfseminni einnig vegna þess að margt af því sem vátryggingafélögin eru að gera í lánastarfsemi, áhættu og öðru slíku, á mjög skylt við bankastarfsemi eða starfsemi fjármálafyrirtækja. Ég held því að menn séu að stíga rétt skref. Fyrir mitt leyti styð ég þetta frv. og menn eiga að leggja áherslu á að fá það samþykkt áður en þing fer heim.