Framleiðsla og sala á búvörum

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 20:57:10 (4845)


[20:57]
     Flm. (Egill Jónsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér er ekki alveg ljóst hver hefur meiri skyldur á Alþingi til þess að koma málefnum landbúnaðarins til betri vegar heldur en formaður landbn. Landbn. hefur lagt sig fram um það að meta þær aðstæður sem uppi hafa verið í þessum efnum og eiga landbúnaðarmenn miklar þakkir skildar fyrir það og auðvitað ber a.m.k. formanninum að vekja athygli á því hér á Alþingi.
    Að því er varðar framgöngu landbrh. eða framkvæmd búvörusamningsins þá stendur ekkert upp á hana varðandi þá efnisþætti sem hér eru til umræðu. Það er hárrétt hjá hv. síðasta ræðumanni að ekki

hefur verið staðið við öll ákvæði búvörusamningsins og það liggur reyndar fyrir að enginn aðili hefur bent á það með skýrari rökum heldur en einmitt landbn. Alþingis. Í þeim efnum hefur ekkert verið falið og þær áréttingar hafa komið fram í öllum tilvikum við fjárlagagerð á þessu kjörtímabili. Ríkisstjórnin hefur þess vegna haft afar skýra handleiðslu frá landbn. um það hvernig samningsstaðan hefur verið á hverjum tíma. Það er svo annað mál, eins og ég reyndar hefi þegar sagt, að að því er varðar þessi beinu framleiðslumálefni þá hefur við samninginn verið staðið.