Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 22:08:55 (4854)


[22:08]
     Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það mætti halda að ég og hæstv. umhvrh. hefðum aldrei setið í sama þingflokknum þar sem ég hef iðulega rætt þar jafnréttismálin, lagði þar fram t.d. ítarlegt frv. um jafnréttislög, breytingar á þeim, sem áttu að stuðla að jafnrétti kynjanna. Ég man aldrei eftir því að hæstv. ráðherra hafi tekið þátt í einhverjum sérstökum umræðum þar um jafnréttismál. (Gripið fram í.) Ja, átti að gera það og hefur gert það vegna þess að þar voru ýmis ákvæði sem hafa stuðlað að auknu jafnrétti. Kærunefnd jafnréttismála hefur t.d. fjallað um ýmis mál sem hafa stuðlað að auknu jafnrétti. Þannig að ég gæti auðvitað vísað til fleiri mála. Ég gæti vísað til þess sem hæstv. umhvrh. veit sjálfsagt ekkert um, að ég beitti mér fyrir námskeiðum hjá láglaunafólki og konum á öllum stofnunum fatlaðra um allt land sem skilaði þeim auknum launahækkunum. Þannig að það er ýmislegt sem ég er núna að upplýsa hæstv. umhvrh. um sem hann hefði átt að vita meðan við vorum saman í þingflokknum, þá hefur hann bara verið þar sofandi meðan við vorum að fjalla um jafnréttismálin.