Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 23:05:36 (4864)


[23:05]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það var aldeilis að mér hefur tekist að koma við taugina í hæstv. fjmrh. Það er meiri óskaplegi æsingurinn. Ætli það geti ekki bara verið að ég hafi hitt nagla á höfuðið. Komið einhvers staðar við viðkvæman eða veikan blett. Þessi dagfarsprúði maður, hæstv. fjmrh., er ekki vanur því að umturnast svona út af smámunum. Ég leyfi mér að láta mér detta það í hug, hæstv. fjmrh., að þetta sé greinilega eitthvað mjög viðkvæmt mál. Varðandi það, hæstv. forseti, að það megi ekki ræða hér um efnahagsmál og hafa á þeim að einhverju leyti annað mat og aðra skoðun en hæstv. fjmrh. þá sé það bara niðurrifsstarfsemi og skemmdarstarfsemi og menn séu að ljúga o.s.frv., þá hafna ég slíkum málflutningi. Fyrsti maðurinn til að taka sér slík orð í munn í umræðunni er hæstv. fjmrh. Ég viðhafði ekki slík orð, en ég leyfði mér að vera hér með gagnrýnið mat á stöðunni og vara við því sem gæti verið fram undan og ég er ekki einn um það, hæstv. fjmrh. Það kann að vera að fáir sérfræðingar í efnahagsmálum séu tilbúnir að ganga fram undir nafni á Íslandi einmitt þessa dagana, en ég hef rætt við þá marga sem hafa deilt með mér skoðunum um að það væri ástæða til að hafa áhyggjur af ýmsum þáttum þessa máls.
    Ég segi bara þetta: Ef það er hér kallað ómerkilegt að leyfa sér að ræða um efnahagsmál út frá öðrum forsendum heldur en hæstv. fjmrh., má þá ekki eins kalla það ómerkilegt ef menn eru að búa til glansmynd sem ekki eru innistæður fyrir og ætlunin er að birta þjóðinni eftir kosningar? Við skulum þá bara bíða og sjá til þegar kemur fram á mitt næsta ár og ræða þá saman að nýju, hæstv. fjmrh. Vonandi verðum við báðir hér í hvaða hlutverkum sem við verðum.