Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 00:38:24 (4872)


[00:38]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hæstv. félmrh. að við framsóknarmenn erum dálítið uppteknir af þessum greiðsluvanda heimilanna. Það er hárrétt, hæstv. félmrh., ( Félmrh.: Af frv. þínu.) og væri betur að hæstv. félmrh. væri líka dálítið upptekinn af þeirri stöðu sem Alþfl. hefur í samvinnu við Sjálfstfl. komið mörgum heimilum í, þá miklu greiðsluerfiðleika.
    Ástæðurnar liggja fyrir, hæstv. félmrh. Þær þarf ekki að kanna og ég ítreka það og hæstv. félmrh. þarf ekki annað en spyrja sjálfan sig nokkurra spurninga í þeim efnum. Heldur hæstv. félmrh. að kjör hæstv. félmrh. hefðu nokkuð versnað ef skattarnir hefðu hækkað, beinn tekjuskattur hefði hækkað úr 39,79% í 42% eða vaxtabætur til hæstv. félmrh. hefðu verið skornar niður eða barnabætur til hæstv. félmrh. hefðu verið skornar niður eða þjónustugjöldin sem búið er að leggja á og hæstv. félmrh. hefði lent í að greiða þó ekki væri ekki nema hluta af þeim, en það er búið að leggja á þjónustugjöld í tíð þessarar ríkisstjórnar fyrir tæpa 3 milljarða kr.? Trúir hæstv. félmrh. því að allar þessar aðgerðir, lækkun barnabótanna, lækkun vaxtabótanna, tekjuskattshækkunin, hækkunin á þjónustugjöldunum hafi ekki sett greiðsluáætlanir heimilanna úr skorðum? Það þarf enga sérfræðinga til að rannsaka þetta. Þetta liggur fyrir, hæstv. félmrh. og það eru þessir tveir flokkar, Alþfl. og Sjálfstfl., sem bera ábyrgð á hvernig komið er.