Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 01:09:37 (4879)


[01:09]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er ekki að varpa á þingmanninn orðum. Ég er að bregðast við orðum hans og ég er ekki að tala um það að þessar 3 millj. sem felast í þeim lið sem við vorum að fjalla um snúi að aðgerðum í launamálum heldur er þetta til að fylgja eftir mjög fróðlegri skýrslu sem fjallar um hvernig launamunur hefur orðið til. Við sem höfum fjallað um þessi mál höfum öll sagt að þessi skýrsla kemur okkur ekki á óvart. Það sem er merkilegt við hana er það að hún staðfestir hluti og hún leitar skýringa á hvað hefur gerst til að við getum brugðist við þeim. Við bregðumst ekki við launamuninum með 3 millj. en við fylgjum verkefnum skýrslunnar áfram eftir með því. Það sem ég hef gagnrýnt hér er það að um leið og menn ráðast svo mjög á þær aðgerðir sem var verið að grípa til í tengslum við kjarasamninga sem er gert í samningum af því tagi sem hér hefur komið fram eru menn að ráðast á verkalýðshreyfinguna, ekki bara á ríkisstjórnina.