Vaxtalög

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 02:38:53 (4915)


[02:38]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég get sagt eins og nokkrir sem hafa talað á undan mér að ég hafi ekki ætlað

að lengja umræðuna með því að vera að tala í þessu máli. En áðan ræddi ég nokkuð um þá breytingu sem á að gera á lánskjaravísitölunni og ég get heldur ekki orða bundist þegar umræður eru komnar út í það hversu hagstætt það hafi verið í íslensku þjóðfélagi að taka upp lánskjaravísitöluna á sínum tíma.
    Ég vil líka minna á það að launþegasamtökin voru ekki að biðja um það að lánskjaravísitölunni væri breytt núna. Þau báðu um að lánskjaravísitalan væri afnumin. Við því var ekki orðið heldur var farið út í það að breyta henni yfir í að nota framfærsluvísitöluna.
    Ég held að lánskjaravísitalan hafi ekki verið neitt sérstaklega heppileg fyrir alla í íslensku þjóðfélagi. Hún var ágæt fyrir fjármagnseigendur, hún kom þeim mjög til góða en hún kom ekki öðrum til góða sem voru þá t.d. í húsbyggingum og að taka lán, gerðu sínar áætlanir fram í tímann með það fyrir augum að þær gætu borgað vissar skuldir sem þeir voru að taka í kringum 1980 því að fólki var ekki sagt hvernig þessi lánskjaravísitala mundi virka. Fólk var ekkert frætt um það hvaða áhrif það hefði á framtíð þess að vera að taka lán sem þá var orðið bundið lánskjaravísitölu. Það fólk sem þá var að taka lán var alið upp í verðbólguþjóðfélagi og þegar lánskjaravísitölunni var allt í einu skellt á og ég tala nú ekki um þegar í framhaldinu kom það að kauplagsvísitalan var afnumin. Eða muna menn ekki eftir Sigtúnshópnum? Hvernig hefur það fólk farið út úr lánskjaravísitölunni? Það er stór hópur af íslensku þjóðfélagi sem þar átti hlut að máli.
    Ég held að það hefði verið betra fyrir íslenskt þjóðfélag núna að þora að taka á því að afnema lánskjaravísitöluna heldur en vera að breyta henni yfir í þetta. Ég hef grun um það að hæstv. ríkisstjórn hafi verið tilbúin til að breyta þessu núna yfir í framfærsluvísitölu eða vísitölu neysluvöru eins og það á að heita vegna þess að kostnaðurinn af því verður lægri fyrir ríkissjóð, þ.e. skuldir ríkissjóðs hækka ekki eins mikið og vaxtakostnaður, þar af leiðandi verða verðlagsbreytingar ekki eins miklar. Það er hagstætt fyrir ríkissjóð að lánskjaravísitölunni skuli núna vera breytt og það er áreiðanlega ekki bara verið að því vegna þess að launþegasamtökin hafi farið fram á það. Þá hefði frekar verið orðið við því sem launþegasamtökin voru að biðja um.