Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 11:27:11 (4930)


[11:27]
     Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er nöturlegt að heyra málflutning þingmanna Alþb. í þessu máli. Í öðru orðinu gagnrýndi hv. þm., síðasti ræðumaður, niðurskurð í menntamálum, en í hinu orðinu er hann að leggjast gegn frv. sem gerir ráð fyrir stórauknum framlögum til menntamála og stórkostlegum umbótum í skólastarfi.
    Hann gerði að sérstöku umtalsefni jafnrétti til náms. Ég held að það sé alveg greinilegt að þingmaðurinn hafi ekki lesið þetta frv. sem hér er til umfjöllunar því að í mörgum greinum þess má finna að það er sérstök áhersla lögð á eftirlit með skólastarfinu og það var í raun og veru talin forsenda þess að unnt væri að færa þetta verkefni yfir til sveitarfélaganna að það yrði með því mjög öflugt eftirlit. Ég bendi á 9. gr., 10. gr., 31. gr., 49. gr. og 51. gr.
    Einnig gerði þingmaðurinn að umtalsefni bandarískt skólakerfi og taldi það eiginlega skilyrði fyrir góðum skólum þar að það væru skólar í ríkra manna hverfum og þá einkaskólar. Ég hef reynslu af amerískum grunnskólum, almennum grunnskólum, sem ég held að við gætum lært margt af, sem ekki voru í neinum ríkra manna hverfum.