Neyðarsímsvörun

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 21:38:16 (5016)


[21:38]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég sakna þess að í salnum skuli ekki vera hæstv. fjmrh. Hæstv. fjmrh. varð frægur fyrir þau ummæli sín á sínum tíma sem urðu að slagorði ,,Báknið burt`` og hefur nú staðið í því, eins og allir vita, að selja stofnanir ríkisins. En nú hafa hlutir snúist á þann veg að ,,ein stofnun á dag kemur skapinu í lag`` og ég er ekki alveg viss um að við séum alltaf að velja ódýrustu leiðina. Það eru engar deilur um það að það þarf að hafa neyðarnúmer og verða ekki. Slökkviliðið hefur séð um þetta að miklu leyti í Reykjavík ásamt Vara og lögreglustöðvar eru með sólarhringsvakt úti um land sem hafa tekið á móti þessum skilaboðum þar þegar menn hafa þurft að hafa samband við þær.
    Ég er sannfærður um að það verður hvergi sparnaður hjá þessum stofnunum þó að það verkefni sé af þeim tekið sem hér er verið að færa til nýrra aðila. Ég er sannfærður um að það verður vel unnið hjá þessum nýju aðilum að því að leysa það verkefni sem þeir fá með nýrri stofnun. En ég sakna hæstv. fjmrh. vegna þess að mér finnst að það komi stundum fram eins og ágætur fjmrh. Sjálfstfl. á sínum tíma, Albert Guðmundsson, orðaði svo vel, að ríkissjóður ætti fáa vini. Og þegar menn á seinustu dögum þingsins eru að stofna nýjar og nýjar stofnanir þá spyr maður: Er virkilega þörf á því að gera þessa hluti? Er það fullreynt að ekki sé hægt að leysa þessi mál án þess að fá nýjar stofnanir? En nú er hæstv. fjmrh. fjarverandi og ég ætla ekki að flytja hér langa ræðu um þetta mál. Málið er í eðli sínu gott, við viljum allir að hægt sé að hringja í neyðarsíma, en það er ekkert sem kemur í veg fyrir það að þetta sé stillt annars vegar inn á lögreglustöðvar, hins vegar inn á slökkviliðið hér ef menn vilja spara peninga. En það getur verið að það hafi enginn áhuga á því að spara peninga.