Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 23:04:54 (5043)


[23:04]
     Frsm. umhvn. (Kristín Einarsdóttir) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vildi benda hv. þm. á að á bls. 9 í tillögunni sem er á þskj. 146, sjálfri till. ekki nál., er tekið dæmi um hugsanlegan kostnað en þá er gengið út frá ákveðinni stærð. Hins vegar er ekki endilega víst að niðurstaðan verði að það sé rétta stærðin. Þá er talað um í þeim útreikningum sex stöðugildi, en það var hins vegar rætt um innan nefndarinnar að það væri ekkert sem krefðist endilega einmitt þeirrar stærðar, það gæti jafnvel verið minna. Við reiknum með þeirri stærð og tökum mið af ákveðinni stærð á húsnæði, 200 m 2 gólfrými, en þetta er bara dæmi af því að það er ekki búið að gera sér nákvæmlega grein fyrir hvað húsnæði verður stórt sem þarf. Auk þess töldum við að það þyrfti að kanna hvort ekki væri hægt að nota annað húsnæði sem fyrir væri í tengslum við aðrar stofnanir. Þá er talað um að um væri að ræða alls um 25 millj. kr. veltu ef eingöngu væri greitt úr ríkissjóði og ekkert annað kæmi til. En þá

var reyndar talað um þessi sex stöðugildi sem var hins vegar ekki talað um að væri endilega nauðsynlegt og væri kannski í stærra lagi. Það mætti mjög vel hugsa sér t.d. tvö stöðugildi til að byrja með og svo yrði að sjá til hvað þörfin væri mikil.