Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 00:28:19 (5052)


[00:28]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þegar við í heilbr.- og trn. í kvöld ræddum frv. til laga um sjúkraliða þá voru margir fletir sem komu fram og var reynt að finna leið til þess að allir gætu sameinast um þessi mál. Þegar við síðan í stjórnarandstöðunni sáum það að formaður ákvað að taka málið ekki út úr nefndinni þá báðum við um sérstaka bókun um það að við hefðum litið svo á að þetta væri mál stjórnarflokkanna og við mundum ekki hindra það að málið fengi framgang, alls ekki, en það væri þeirra mál að ákveða þetta því þetta væri loforð stjórnarinnar. Ég hef því miður ekki bókunina við höndina en það getur verið að aðrir sem með okkur voru hafi það og munu sjálfsagt gera grein fyrir því, en ég vil taka það fram að þetta var mál stjórnarflokkanna og við stóðum ekki gegn því að þetta mál væri tekið út úr nefnd.