Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 01:32:38 (5084)


[01:32]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Hér hafa komið fram furðulegar hugmyndir að mínu mati um stjfrv. og satt að segja undrast ég þá lýsingu sem hv. 8. þm. Reykv. var að gefa á vinnubrögðum í kringum þetta frv. um sjúkraliða. Ég hef alltaf skilið það svo og þann tíma sem Framsfl. var í ríkisstjórn var það talið nauðsynlegt til þess að ráðherra gæti lagt fram stjfrv. að þau væru lögð fyrir þingflokka stjórnarinnar og hefðu fengið þar stuðning, að öðrum kosti varð ráðherra að leggja það fram eigin nafni. Í þessu tilfelli hefði hæstv. heilbr.- og trmrh. þurft að leggja fram frv. í sínu nafni. Það er sú regla sem ég þekkti og hef þekkt og ég hef aldrei heyrt fyrr flokkun milli merkilegra og ómerkilegra frv. Það er að sjálfsögðu rétt að einstakir þingmenn innan stjórnarflokka hafa gert fyrirvara um stuðning sinn, en ég hef alltaf skilið það svo að það þyrfti að liggja fyrir að meiri hluti þingflokks stjórnarliðs styddi stjfrv.
    Nú kom það hins vegar fram hjá hv. 8. þm. Reykv. að það sem gerðist er það að hæstv. forsrh. og hæstv. heilbrrh. gáfu þetta fyrirheit án þess að hafa haft samráð við sína flokka og þá virðist það hafa gerst að hæstv. forsrh. hefur alls ekki fengið stuðning í sínum flokki. Þingflokkur Sjálfstfl. fylgir alls ekki hæstv. forsrh. og það finnst mér vera ærin tíðindi nú á síðasta degi Alþingis þegar það kemur skýrt fram að þingflokkur Sjálfstfl. er hættur að styðja hæstv. forsrh.