Tóbaksvarnalög

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 04:01:58 (5107)

[04:01]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hef hlýtt með athygli á framsöguræðu hv. þm. Tómasar Inga Olrich. Nú er þetta þingmaður sem hefur hér öðrum fremur staðið og barist fyrir frelsi einstaklingsins til athafna og ákvarðana á sem flestum sviðum.
    Ég tek undir það með hv. þm. að auðvitað ber að sporna gegn neyslu á óhollum efnum en hins vegar óttast ég mjög þegar ég sé þetta frv. og vil spyrja hv. þm. t.d. um 2. gr. frv. þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Það er réttur hvers manns að þurfa ekki að anda að sér lofti sem mengað er tóbaksreyk af völdum annarra.`` Þýðir ekki svona ákvæði sett í lög að við stöndum hér frammi fyrir óþolandi lögregluríki? Ég sé að undir þetta skrifa þingmenn sem hafa leyft sér að reykja tóbak í kaffistofu þingsins. Ég gæti hugsað mér samkomu eins og þær gerast bestar á Íslandi þar sem 50% fólksins leyfir sér að reykja. Hvað þýðir lagasetning af þessu tagi? Þýðir hún ekki gífurleg átök, vinnu fyrir lögmenn, kærur og baráttu?
    Nú er það svo, hv. þm., að mér hefur heyrst að það sé almennt álitið að fullkomin boð og bönn hafi jafnvel í sumum tilfellum neikvæð áhrif. Ég sé t.d. að í frv. er lagt til að banna algerlega innflutning og notkun á fínkorna tóbaki. Hvaða hunda þarf til þess t.d. í tolli . . .


    ( Forseti (GunnS) : Ég verð að benda hv. þm. á að nú er tíminn liðinn.)
    Hæstv. forseti. Ég hafði ekki tekið eftir og biðst ég afsökunar á því en ég lýk spurningunni. Ég var að spyrja um fínkorna tóbakið. Hvernig hyggst formaður nefndarinnar koma í veg fyrir innflutning á

því?