Kennaraverkfallið

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 14:02:23 (5140)




[14:02]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu í dag. Ég vil fyrst láta það koma fram að það hefur aldrei verið sagt að samningar við opinbera starfsmenn ættu að bíða eftir samningum almenna vinnumarkaðarins. Það hefur hins vegar verið sagt að inn í slíkan samning yrði þá að taka þær hækkanir sem kæmu á almenna vinnumarkaðnum, það væri ekki hægt að semja um það fyrir fram. Það er dálítið annar handleggur.
    Ég ætla ekki að fjalla um verkfallsréttinn, en það er vissulega umhugsunarefni þegar hann varð til á sínum þá bitnaði hann á vinnuveitendunum fjárhagslega en í þessu tilviki bitnar hann fyrst og fremst á þriðja aðila.
    Ég vil einnig að það komi hér fram að ég ræddi ítarlega við forustumenn kennara um fyrirhugað verkfall 5. jan. Þá voru aðeins tveir, þrír dagar liðnir inn á laust samningstímabil og verkfall hafði verið undirbúið frá því á haustmánuðum. Ég benti þeim á hversu hættulegt þetta gæti verið enda hefur það komið í ljós og ég bendi á að það er eina stéttin sem hefur efnt til verkfalla af hálfu opinberra starfsmanna á nýju lausu tímabili.
    Það vekur athygli hér í dag hverjir tóku þátt í þessum umræðum. Það voru hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hv. þm. Guðmundur Bjarnason, ráðherrar í síðustu ríkisstjórn, en þeir þögðu hv. þm. Svavar Gestsson og Ólafur Ragnar Grímsson. Kannski vegna þess að þeir gerðu á sínum tíma tímamótasamning eftir verkfallið 1989 við HÍK og beittu bráðabirgðalögum síðar til þess að taka þennan samning til baka. Þess vegna þegja þeir hér í dag.
    Ég held, virðulegi forseti, að við leysum þetta mál ekki hér. Við leysum það væntanlega með almennum kauphækkunum eins og aðrir hafa fengið í þjóðfélaginu og til viðbótar þurfum við að breyta vinnutímanum og ná þannig fram þeirri leiðréttingu sem við öll keppumst að með því að bæta um leið skólastarfið í landinu.
    Ég vænti þess að á næstu dögum geti samningsaðilar unnið að því báðir að leysa þessa viðkvæmu deilu.