Tekjuskattur og eignarskattur

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 15:15:04 (5164)


[15:15]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætla í örfáum orðum að skýra frá ástæðum fyrirvara okkar framsóknarmanna við afgreiðslu þessa frv. Það er skoðun okkar að það beri að liðka fyrir þessari lagasetningu hér þar sem hún tengist nýgerðum kjarasamningum. Við vorum hins vegar ekki nógu sáttir við útfærslu frv. gagnvart skattlagningu hlunninda launþega sem eiga um langan veg að fara og annaðhvort er ekið á bíl í eigu vinnuveitandans eða fara á milli á annan hátt, til að mynda ef menn kjósa frekar að kaupa fyrir þá ferðir með áætlunarbílum, en það er ljóst að þau hlunnindi verða skattlögð áfram eins og hér er lagt til. Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir að hér er um að ræða nokkuð viðkvæmt mál og þarfnast nánari skoðunar þannig að við leggjumst ekki gegn því að þessum áfanga verði náð núna.
    Sömuleiðis lýtur fyrirvari okkar framsóknarmanna að því að við erum þeirrar skoðunar að það hefði mátt skoða hvernig þær 2.200 millj. sem það kostar þegar það er komið til framkvæmda að fullu að draga frá lífeyrisgreiðslur áður en til staðgreiðslu kemur, hvort ríkissjóður hefur þá stöðu núna að geta slakað þessu út og hvort hefði ekki verið betra að nýta þessa fjármuni í annað sem hefði verið til meiri tekjujöfnunar. Fulltrúi ASÍ skýrði þetta ágætlega fyrir okkur í nefndinni í gær, að hér er um að ræða prinsippatriði sem verkalýðshreyfingin hefur lagt mikla áherslu á. Út af fyrir sig virði ég þá afstöðu, en það er hins vegar alveg ljóst að þarna er um að ræða kjarabót sem hækkar prósentvís í hlutfalli við það sem laun hækka.