Stjórnarskipunarlög

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 16:03:33 (5176)


[16:03]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. á þskj. 855. Það er brtt. við frv. til stjórnarskipunarlaga en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Við stjórnarskrána bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Efna skal til stjórnlagaþings til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Um skipan þingsins og störf fer samkvæmt sérstökum lögum. Þingið skal koma saman eigi síðar en 1. júní 1996.
    Þegar þingið hefur afgreitt frumvarp til nýrra stjórnarskipunarlaga skal bera það undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Meiri hluti atkvæða ræður úrslitum málsins. Nái tillagan samþykki skal hún staðfest af forseta lýðveldisins og er hún þá gild stjórnarskipunarlög.``
    Tilefni þess að ég flyt þessa brtt. er að fyrr á þessum vetri flutti ég frv. til laga um sérstakt stjórnlagaþing en því fylgdi frv. til stjórnarskipunarlaga til breytinga á stjórnarskránni og síðan frv. til laga um sérstakt stjórnlagaþing þar sem efnisinnihaldið varðandi þetta þing er skilgreint og ákvæði um það í sérstöku frv.
    Það var sérstök nefnd sem fjallaði um þetta frv. Nefndin náði ekki samkomulagi um þetta mál. Ég taldi því rétt og eðlilegt að láta á það reyna að flytja brtt. við frv. sem hér á að afgreiða um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.
    Ég tel óþarfa, virðulegi forseti, að fara ofan í efnisrök fyrir því að ég legg til að slíkt stjórnlagaþing verði haldið. Ég flutti um það ítarlega framsöguræðu fyrr á þessum vetri, en hlutverk þessa stjórnlagaþings er að endurskoða stjórnarskrána í heild sinni og ekki síst er kveðið á um það í greinargerð með því frv. að stjórnlagaþing eigi sérstaklega að fjalla um kosningareglur og einnig að stjórnlagaþing eigi að skoða æskilegar breytingar á stjórnkerfinu, svo sem skýrari skil milli framkvæmdar- og löggjafarvalds. Þar

er átt við atriði eins og að ráðherrar eigi jafnframt að vera þingmenn og hvort afnema skuli aukafjárveitingar, þar átti að fjalla um aukinn rétt til þjóðaratkvæðagreiðslu, um ráðherrábyrgð og ákvæði um þingrofsréttinn. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að ég tel eðlilegra að það sé sérstakt stjórnlagaþing sem fjalli um þetta mál og þess vegna flutti ég þetta frv.
    Þetta er efnisinnihald þeirrar brtt. sem ég flyt við frv. til stjórnarskipunarlaga, sem er 451. mál á þessu þingi.