Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 04. október 1994, kl. 20:33:43 (18)


[20:33]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Ég flyt nú stefnuræðu ríkisstjórnar minnar í fimmta sinn og nú í upphafi kosningavetrar. Þetta þing, sem nú er að hefjast, er lokaþing kjörtímabils sem hefur ekki verið með öllu viðburðasnautt og á ýmsu hefur gengið um efnahagslega afkomu íslensku þjóðarinnar. Það er e.t.v. ekki til þess fallið að skapa vellíðan í brjóstum landsmanna að nefna kosningaþing því að bitur er reynslan af slíkum þingum. Þá hefur ábyrgðarleysið einatt vikið aðhaldinu til byggðar, festa horfið fyrir undanlátssemi og léttúð tekið við af styrkri stjórn. Hvorki ég né þið, hlustendur góðir, höfum gleymt því hvernig fyrri stjórn lauk ferli sínum. Síðustu 4 lífmánuði hennar hækkuðu útgjöld um nálægt 9 þús. millj. kr. og saup þjóðin lengi seyðið af þeirri upplausn. Til voru þeir sem gerðu því skóna í sumar að núv. ríkisstjórn mundi lenda í vandræðum á haustþingi og ná ekki að koma fram með heilsteypta og skýra fjármálastefnu sem væri í takt við þann efnahagslega stöðugleika sem ríkisstjórnin hefur tryggt á undanförnum árum. Veruleg hætta væri á að þau markmið, sem menn hefðu sett sér við fjárlagagerð, næðust ekki. Jafnvel var fullyrt að umræður um haustkosningar mætti rekja til þessa vanda og menn vildu forðast að afhjúpað yrði að ríkisstjórnin hefði ekki burði til að koma fjárlagadæminu saman. Allar þessar vangaveltur voru staðlausar og fjarri veruleikanum.
    Fjárlagafrv. það sem fjmrh. hefur nú lagt fram tekur reyndar af öll tvímæli. Engum dylst að það fjárlagafrv. er til þess fallið að auka tiltrú manna og markaða á þeim stöðugleika sem tekist hefur að skapa og hefur verið meiri undanfarin þrjú og hálft ár en oftast áður.
    Ég minnist þess að iðulega hefur verið haft á orði að spár opinberra stofnana um þróun efnahagsmála hafi gjarnan virst taka meira mið af óskhyggju en raunveruleikanum. Sjálfsagt hefur slíkt álit á spádómum og áætlunum hins opinbera stundum átt við rök að styðjast. Því er athyglisverðara að horfa á þjóðhagsáætlun fyrir það ár sem nú er að líða og bera spá hinna saman við hina raunverulegu útkomu. Þar kemur margt á óvart en kannski mest það að raunveruleikinn tekur spánni og áætluninni langt fram og er mun

hagstæðari búskap þjóðarinnar.
    Eins og fram kemur í þeirri þjóðhagsáætlun, er þingmenn hafa fyrir framan sig, hefur framvindan á þessu ári orðið mun jákvæðari á öllum sviðum en búist var við þegar áætlunin var kynnt sl. haust. Verðbólgan er minni en þá var reiknað með og viðskiptajöfnuðurinn hagstæðari. Vextir hafa lækkað og atvinnuleysi er minna en spáð var. Síðast en ekki síst hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann aukist lítillega en í fyrrahaust var því spáð að hann minnkaði nokkuð á þessu ári. Hagvöxtur hefur glæðst á ný og verður meiri en nokkurt eitt ár síðan 1987 en gert hafði verið ráð fyrir að hagvöxtur yrði neikvæður enn eitt árið þegar áætlunin var gerð. Þetta eru mjög mikil umskipti til hins betra.
    Hér er ekki spá á ferð heldur raunveruleiki en þrátt fyrir að allir þessir mikilvægu þættir, verðbólga, viðskiptajöfnuður, vextir, atvinnuleysi, kaupmáttur og hagvöxtur, séu hagstæðari en gert var ráð fyrir neitar stjórnarandstaðan enn að trúa því að mikill bati sé að verða í þjóðfélaginu og tönnlast á að ekki sé góð lykt af svo jákvæðum fréttum. Ég er afar þakklátur fyrir að deila ekki pólitísku lyktarskyni með stjórnarandstöðunni fyrst það leiðir menn á slíkar villigötur.
    Þegar litið er yfir efnahagssögu Íslands og efnahagsstjórn blasa við ótal dæmi um einkennilegar uppákomur. Sífelldar glímur hafa verið við árviss vandamál þannig að sjaldnast hefur náðst að leggja línur til lengri tíma. Við munum öll eftir því að þennan 1. júní eða hinn 1. september eða 1. desember væru öll mál í uppnámi og tilefni til þess að gripið yrði til smáskammtalækninga af efnahagslegu tagi til þess að bjarga í horn. Oftar en ekki var þá gripið til millifærslna, stundum í stórum stíl, til að bjarga því sem aflaga fór. Því miður var allt of oft tjaldað til einnar nætur.
    Á þessu kjörtímabili hefur þessi mynd ekki horft þannig við nokkrum manni. Festa hefur ríkt, jafnvægi, vinnufriður og stöðugleiki. Að sönnu skulum við ekki draga úr því að þjóðin hefur orðið að takast á við mikinn samdrátt sem jafna má við kreppu vegna minnkandi þjóðartekna en hún hefur staðið þessa kreppu af sér. Þau skilyrði sem sköpuð hafa verið fyrir íslenskt atvinnulíf hafa gert okkur kleift að komast betur frá þeirri kreppu en spár stóðu til.
    Vissulega hafa ytri aðstæður verið óhagstæðar allt fram undir það síðasta og auðvitað hefur það umhverfi sett framkvæmd stjórnarstefnunnar þrengri skorður en ella hefði verið og þá ekki síst fjármálum ríkisins. Ríkisstjórninni og aðilum vinnumarkaðarins var ljóst að forgangsverkefni við þessar aðstæður væri að efla atvinnulíf landsmanna, uppsprettu lífskjara og velmegunar. Það varð því að ganga fyrir öðru að koma á stöðugleika í efnahagsmálum og tryggja undirstöðurnar, rekstur atvinnufyrirtækjanna. Hverfa varð frá þeim smáskammtalækningum sem voru svo algengar í tíð síðustu ríkisstjórnar en grípa hins vegar til markvissra aðgerða sem miðuðu að því að skapa tryggt ástand og öruggan grundvöll sem fólk og fyrirtæki gætu byggt á til lengri tíma og með því brotist út úr margra ára kyrrstöðu.
    Margvíslegar skipulagsbreytingar hafa verið gerðar í hagkerfinu og þá jafnan í þeim tilgangi að auka frjálsræði og um leið samkeppni í efnahags- og atvinnulífinu og gera leikreglurnar skilvirkari og réttlátari.
    Það var annað höfuðmarkmið ríkisstjórnarinnar að leiða samningana um Evrópska efnahagssvæðið til lykta með farsælum hætti og með þeim að tryggja Íslendingum, jafnt einstaklingum sem fyrirtækjum, alla þá nýju möguleika sem Evrópa hefur upp á að bjóða og um leið íslenskum neytendum verulegan ávinning.
    Þegar ég flutti stefnuræðu mína fyrir ári gat ég aðeins sagt að nokkrar vísbendingar væru um að efnahagsástandið færi nú hægt batnandi. Stjórnarandstæðingar gerðu þá hvað þeir gátu til þess að telja fólki trú um að verið væri að draga upp mynd sem ætti sér enga stoð. Þegar þessi batamerki urðu skýrari með sumrinu og frá því var greint var uppi sami söngurinn. En nú er svo komið að þjóðin öll skynjar efnahagbatann en stjórnarandstaðan hefur allt til þessa dags haldið dauðahaldi í kreppuna. Það er eins og henni sé meinilla við að nú sé bjartari tíð fram undan og allt erfiðið sé að skila árangri. Ég vona að hv. stjórnarandstæðingar beri gæfu til þess í kvöld að líta örlítið bjartari augum til framtíðar.
    Hugsanlegt er að talsmenn stjórnarandstöðunnar hafi bakþanka vegna eigin ummæla um efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Ég býst ekki við að margir séu búnir að gleyma fullyrðingum þeirra um að þær ráðstafanir leiddi til efnahagslegrar kollsteypu, óðaverðbólgan færi af stað á nýjan leik og ekki yrði við neitt ráðið. Vandinn var orðinn svo hrikalegur, sögðu þeir í júní í fyrra, að engri venjulegri meirihlutastjórn væri ætlandi að taka á honum. Nú yrði þjóðstjórn að koma til. Það gleður þá vonandi nú eins og alla aðra að þessi ríkisstjórn hefur tekið á þessum vanda og leyst hann.
    Eðlilegt er að spurt sé hvers vegna efnahagssamdrátturinn hér á landi hefur ekki leitt til þess að atvinnuleysi hafi rokið upp í 15--20% eins og gerst hefur í mjög mörgum ríkjum Evrópu. Meginástæðan er auðvitað sú að íslensk stjórnvöld brugðust fyrr við, gengu fyrr á hólm kreppuna og áttu náið samráð við lykilsamtök og stofnanir samfélagsins. Almennum aðferðum var beitt til að tryggja stöðu hins íslenska atvinnulífs, gengi krónunnar var lagað að þörfum útflutningsfyrirtækjanna, skattar voru lækkaðir, kaupmáttur almennings varinn með lækkun virðisaukaskatts á matvælum og um leið var hamlað gegn atvinnuleysi með tímabundnum atvinnuskapandi framkvæmdum. Þess var þó jafnan gætt við allar þessar ákvarðanir að ekkert færi úr hömlu og stöðugleikanum væri ekki stefnt í voða. Það tókst að skapa skilning á þessum viðhorfum í þjóðfélaginu og kjarasamningarnir í maí 1993 tóku mið af aðstæðum þjóðarbúsins og efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Þær ákvarðanir, sem aðilar vinnumarkaðarins höfðu þrek til að axla, eiga sinn

drjúga þátt í þeim mikla árangri sem þjóðin hefur náð.
    Það var ánægjulegt að samstaða náðist um það í maí sl. að láta nokkurn hluta af þessum ávinningi skila sér aftur til launþeganna í landinu. En ekki var síður ánægjulegt að eitt meginbaráttumál verkalýðshreyfingarinnar í mörgum undanförnum kjarasamningum, lækkun vaxta, sem stjórnvöld höfðu um árabil heitið að beita sér fyrir, gekk nú fyrst fram eftir að efnahagslegi stöðugleikinn kom til.
    Þegar ríkisstjórnin tók við völdum var raunávöxtunarkrafa ríkisverðbréfa á Verðbréfaþingi 8,15% en er nú 4,86%. Ríkissjóður fjármagnar þannig halla sinn, sem tekist hefur að koma nokkrum böndum á, við mun lægra vaxtastig en hann gerði fyrir tíð þessarar ríkisstjórnar. Skattgreiðendur framtíðarinnar munu hagnast á því. En meira skiptir þó að fjármagnskostnaður almennings og fyrirtækjanna hefur lækkað verulega. Í því felast raunverulegar kjarabætur.
    Á þessu ári verður hagvöxtur hér á landi meiri en nokkurt eitt ár síðan 1987 og á næsta ári eru góðar horfur á áframhaldandi vexti. Þannig hefur okkur tekist að rjúfa tímabil stöðnunar og samdráttar sem ríkt hafði undanfarin sjö ár. Þessi umskipti eiga sér að hluta skýringu í auknum afla á fjarlægum miðum og einnig auknum umsvifum í helstu viðskiptalöndum okkar. En hitt skipti sköpum að ríkisstjórnin hefur fylgt aðhaldssamari efnahagsstefnu og aðilar vinnumarkaðarins hafa lagt raunsætt mat á þjóðhagsleg skilyrði. Vissulega er hagvöxturinn enn minni en hann hefur verið að meðaltali þau 50 ár sem lýðveldi hefur verið á Íslandi. En þá er rétt að hafa í huga að á meðan við gátum aukið sjávaraflann með útfærslu fiskveiðilögsögunnar voru skilyrði hagvaxtar góð og uppbygging lífskjara hröð. En vissulega hefur þessi vöxtur verið óstöðugur eins og fjölmörg dæmi eru um. Þannig hefur landsframleiðslan dregist saman 11 sinnum á síðustu 50 árum. Þetta eru mun fleiri samdráttarskeið en aðrar þjóðir við sambærilegan efnahag hafa þurft að ganga í gegnum.
    Við skulum einnig hafa hugfast að slíkar sveiflur leiða til þess að lífskjör eru ótryggari á Íslandi en í þeim löndum þar sem hagvöxtur er jafnari og stöðugri. Vegna þessara sveiflna hefur óstöðugleiki verið helsti efnahagsvandi Íslendinga í marga áratugi. Allar ríkisstjórnir hafa þurft að glíma við síkan vanda. Hann hefur birst í margvíslegum myndum, ekki síst í viðvarandi viðskiptahalla, mikilli erlendri skuldasöfnun, þrálátri verðbólgu, stundum óðaverðbólgu. Á þessum 50 árum, sem við höfum algerlega haft öll okkar mál í okkar höndum, hefur aðeins níu sinnum verið afgangur á viðskiptajöfnuði við útlönd. Í fyrsta sinn á þessu tímabili hillir nú undir að afgangur verði í utanríkisviðskiptum í þrjú ár í röð, 1993, 1994 og 1995. Þessi árangur er í raun þjóðarsigur.
    Hvað þýðir þessi niðurstaða á mæltu máli? Hún þýðir að árið 1993 greiddum við erlendar raunskuldir okkar niður um rúmar 6 þúsund millj. kr. Á þessu ári greiðum við niður raunskuldir þjóðarinnar um 9 þús. millj. kr. og væntanlega um 8 þús. millj. á því næsta. Þetta þýðir með öðrum orðum að á þremur árum greiðum við niður erlendar raunskuldir okkar um 23 milljarða kr. Það er sannkallaður þjóðarsigur. Meðan þannig er haldið á málum þarf enginn maður í þessu landi að óttast að þjóðin sé á þeirri braut sem frændur okkar Færeyingar lentu á illu heilli. En við vorum á þeirri braut. Af henni var horfið og á hana má ekki aftur fara.
    Í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins næst sá árangur að verðbólga verði innan við 5% á ári fjögur ár í röð, 1992, 1993, 1994 og 1995. Nú er raunhæft að halda verðbólgunni um eða innan við 2% þannig að ekki á að vera hætta á ef af festu er stjórnað að verðbólgan skekki viðskiptagrundvöll okkar við aðrar þjóðir. Við höfum aldrei verið nær því en nú að festa stöðugleikann í sessi og aldrei nær því en nú að skapa forsendur fyrir stöðugum og jöfnum hagvexti. Því er afar mikið í húfi að þessari skýru efnahagsstefnu, sem núv. ríkisstjórn hefur fylgt fram, sé haldið og hvergi frá henni vikið. Þessi stefna leggur grunn að því að við getum byggt upp þróttmikið og fjölbreytt atvinnulíf á næstu árum.
    Á undanförnum sjö árum hafa launþegar þurft að horfa upp á kaupmátt sinn falla ótt og títt, aldrei þó jafnmikið og í tíð síðustu ríkisstjórnar, er kaupmáttur launafólks hrapaði stöðugt, ekki síst árin 1989 og 1990. Síðan hefur kaupmáttur minnkað lítillega, en nú á þessu ári hefur tekist að varðveita hann og reyndar hefur hann aðeins aukist síðustu mánuðina. Nú þegar kjarasamningar fara í hönd er í fyrsta sinn í langan tíma hægt að gera ráð fyrir að þeir samningar tryggi ekki aðeins kaupmátt heldur geti aukið hann ef vel er á haldið og allrar varfærni gætt.
    Þetta kjörtímabil, sem nú er senn liðið og það á undan því, eru lýsandi dæmi um tvo ólíka kosti um stjórn efnahagsmála. Í kosningum á vori komanda verður einkum tekist á um þessa tvo kosti og ætti það val að vera auðvelt.
    Stjórnmálamenn fortíðarinnar hafa stundum haldið því fram að vexti sé hægt að lækka með handafli eða tala þá niður. Ekkert er í raun fjær sannleikanum en fullyrðing af slíku tagi. Með yfirlýsingum og aðgerðum stjórnvalda er vissulega hægt að stuðla að því að vextir lækki. Ógætileg ummæli áhrifamanna eða peningastofnana geta til skamms tíma haft óheppileg áhrif á vaxtastöðuna en meginatriðið er þó það að nokkrir grundvallarþættir efnahagslífsins séu í lagi ef takast á að lækka vextina. Þessi atriði voru ekki í lagi en úr því hefur verið bætt og þess vegna hefur tekist að lækka vextina og einmitt þess vegna er líklegt að vextir í framtíðinni lækka enn meira.
    Ég skal nefna nokkur dæmi um forsendur sem þurfa að vera til staðar til að tryggja lágt vaxtastig þannig að atvinnulífið og einstaklingarnir njóti góðs af.
    Mikilvægt er að viðskiptajöfnuður við erlendar þjóðir sé hagfelldur. Áríðandi er að ríkissjóðshalli

fari ekki úr böndum. Þýðingarmikið er að nýsparnaður sé töluverður í landinu og lánsfjárþörf hins opinbera sé minni en nýsparnaðurinn.
    Hvernig víkja þessar forsendur við nú? Eins og ég hef áður sagt hefur okkur tekist að lækka raunskuldir þjóðarinnar út á við um 23 þús. millj. kr. --- 23 milljarða kr. --- hvorki meira né minna. Þessi árangur er afar mikilvægur.
    Þegar ríkisstjórnin tók við var lánsfjárþörf hins opinbera um 40 milljarðar kr. Mun meiri en allur nýsparnaður í landinu. Þess vegna var vaxtastigið mjög hátt þótt reynt væri að beita blekkingum með því að skrá vexti ríkisins lægri en sala bréfa þess á markaði sagði fyrir um.
    Nú horfir málið hins vegar þannig við að lánsfjárþörf hins opinbera verður aðeins um 14 milljarðar kr. í staðinn fyrir 40 milljarðar áður en nýsparnaðurinn nálægt 35 milljörðum kr. Hér er því um gjörbreytingu að ræða sem tryggir lágt vaxtastig.
    Fjárlagahallinn verður milli 6 og 7 milljarðar kr. eða 3 milljörðum lægri en í núgildandi fjárlögum. Við fjárlagavinnu var markið sett á 9 milljarða í fyrstu en spár sumra stjórnarandstæðinga lutu að því að hallinn mundi verða um 20 milljarðar kr. Þessi halli á ríkissjóði er of mikill en rétt er að hafa í huga að íslenska ríkið er rekið með minni halla en flest ríki OECD, helstu viðskipta- og samanburðarlönd okkar. Einnig í þessum efnum hefur þrátt fyrir kreppu tekist betur til en á horfðist.
    Afgreiðsla fjárlaga, viðskiptajöfnuður, aukinn nýsparnaður, minni lánsfjárþörf hins opinbera --- allir þessir þættir benda til þess að vextir muni fara lækkandi á næstu missirum.
    Fréttir berast nú frá fyrirtækjum og bönkum um bætta afkomu. Bankar og sjóðir hafa afskrifað óhemju fé á liðnum árum. Bættur hagur banka á að geta leitt til þess á næstu missirum að vaxtamunur fari minnkandi í bankakerfinu sem er áríðandi fyrir viðskiptamenn bankanna og að mínu mati farsælt fyrir bankakerfið þegar til framtíðar er horft. Við höfum öll viðurkennt að óhjákvæmilegt væri að bankarnir hefðu hér háan vaxtamun meðan þeir borguðu niður vanda fortíðarinnar. Hagur bankanna fer nú batnandi og því full ástæða til að ætlast til þess af bankakerfinu að það minnki vaxtamun þegar fram líða stundir. Ríkisvaldið mun fylgjast náið með framvindu þeirra mála.
    Hæstv. forseti. Nú um hríð hafa Íslendingar deilt nokkuð við næstu nágranna sína í austri, forna vini og frændur, Norðmenn, og eftir atvikum einnig við Rússa. Ekkert stendur okkur þó fjær en að standa í illdeilum við þessar þjóðir. Okkur hefur hins vegar óneitanlega sárnað viðbrögð Norðmanna við veiðum Íslendinga á alþjóðlegu hafsvæði. Auðvitað geta menn deilt um slíka hluti en því miður hafa forustumenn Noregs svarað rökstuddum óskum okkar af mikilli óbilgirni. Það hefur komið mér á óvart hversu stór orð þessir forustumenn hafa haft um íslenska sjómenn og íslensk stjórnvöld. Því hefur verið haldið fram að Íslendingar hafi stundað rányrkju á eigin miðum og svo gjörsamlega misfarist fiskveiðistjórnun að nú neyði fiskþurrð á heimaslóð okkur til þess að stofna lífríki hafs á fjarlægum miðum í hættu. Látið er að því liggja að Norðmenn hafi haldið betur á sínum málum en við höfum gert. Jafnframt hafa norsk yfirvöld gert því skóna að Íslendingar gangi á svig við málstað strandríkja og fylgi fram stefnu úthafsveiðiríkja og rányrkjuþjóða. Saga Íslands í sjávarútvegsmálum verðskuldar ekki þennan dóm og það sem meira er, okkar ágætu vinir Norðmenn hafa ekki efni á slíkum svigurmælum í okkar garð.
    Íslendingar voru forustumenn á heimsvísu um útfærslu landhelgi og stjórnun á veiðum í þágu skynsamlegrar nýtingar á lífríki hafsins. Norðmenn voru eftirbátar, sporgöngumenn, ekki brautryðjendur. Íslendingar voru strax í kjarnahópi strandríkja á úthafsveiðiráðstefnu Sameinuðu þjóðanna en Norðmenn ekki. Það var ekki fyrr en Noregur lenti í útistöðum við Íslendinga að þeir breyttu um stefnu. Noregur hélt því fram í upphafi þessara deilna að veiðar Íslendinga í hinni svokölluðu Smugu væri ólögleg rányrkja, ekki stunduð af sjómönnum heldur sjóræningjum. Þeir halda því ekki lengur fram að Smuguveiðarnar séu ólöglegar. Norðmenn stóðu að því að trufla veiðar á Svalbarðasvæðinu og beittu til þess landhelgisgæslu sinni. Þó var innlend lagasetning í Noregi og lagafrágangur þá með þeim hætti að nú nýlega töldu Norðmenn sig þurfa að breyta reglunum til þess að treysta lagagrundvöll sinn innan lands.
    Allur þessi málatilbúnaður af hálfu Norðmanna hefur vakið mikla undrun mína sem jafnan hef haft mikið álit á Noregi og dálæti á norsku þjóðinni.
    Ég býst við að flestum Íslendingum sé þannig farið að þykja þessi samskipti dapurleg og geti ekki hugsað sér að hafa þau lengi í þessu fari. Meginatriðið er þó það að Norðmenn geta ekki fært fram sannfærandi rök fyrir því að Íslendingar skuli einir þjóða í okkar heimshluta og sú þjóð sem mest er háð fiskveiðum vera útilokaðir frá veiðum í Norðurhöfum á meðan fjarlægari þjóðum er hins vegar ætlaður réttur á þeim slóðum. Deila þessi verður ekki leyst þannig að báðar þjóðirnar hafi sóma af nema Íslendingar fái sanngjarnan kvóta í þorskveiðum á Barentshafi. Þessi krafa sýnir að það er fjarri Íslendingum að ýta undir ofveiði einhvers staðar í heiminum sem stofni viðkomu fiskstofna í hættu eða takmarki vöxt þeirra eða viðgang.
    Norðmenn hafa beitt allri hörku gagnvart Íslendingum en á hinn bóginn látið þjóðum eins og Rússum eftir að veiða á sama svæði án nokkurra afskipta eða eftirlits.
    Við Íslendingar berjumst fyrir því að sanngjörn niðurstaða fáist á úthafsveiðiráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Við höfum barist fyrir því að sanngjarnar alþjóðlegar reglur, eins og hafréttarsáttmálinn, gildi í samskiptum þjóðanna á hafinu. Norðmenn hafa ekki enn staðfest hafréttarsáttmálann en nú er svo komið að nægjanlegur fjöldi ríkja hefur gert það svo hann öðlast ótvírætt lagagildi að þjóðarétti á næstu vikum.

    Ég tel að samningsstaða okkar í þessum deilum sé sterk að því leyti til að sanngirnisrök mæli með því að komið verði til móts við sjónarmið Íslendinga en jafnframt hljótum við að forðast að sýna óbilgirni í samningskröfum okkar. Við munum auðvitað krefjast kvóta sem tryggi okkur reglubundinn afla og varanlegan aðgang að veiðum í Barentshafi. Með þeim hætti verður slegið á órökstuddar fullyrðingar um að Íslendingar stuðli að því að þorskur sé ofveiddur á þessu hafsvæði. Jafnvel kæmi til álita af okkar hálfu í slíkum viðræðum að tengja þann kvóta sem okkur væri úthlutað í Barentsþorski við stofnstærð hans, rétt eins og gert er í samningi um veiðar á Alaskaufsa í Norður-Kyrrahafi í hinum svokallaða ,,kleinuhringssamningi``. Í slíkum tilfellum getur kvóti farið alveg niður í nánast ekki neitt ef stofnstærð fer niður fyrir ákveðin mörk.
    Íslendingar hafa verið forustuþjóð í fiskverndarmálum og við verðum það áfram, jafnt á nálægum sem fjarlægðum miðum. Þekkingin á fiskstofnunum hefur verið takmörkuð en þó aukist ár frá ári. Þrátt fyrir þær augljósu takmarkanir sem á þessum vísindum eru þá hljóta menn að styðjast við þau í sínum ákvörðunum.
    Við höfum einnig önnur mál að ræða við Norðmenn en þorsk. Við höfum sameiginleg hagsmunamál á fleiri sviðum sjávarútvegs, svo sem síld, karfa og aðra mikilvæga stofna. Við eigum reyndar samleið með Norðmönnum í öllum meginatriðum á úthafsveiðiráðstefnunni og norsk stjórnvöld mega ekki láta kapphlaupið inn í Evrópusambandið villa sér sýn og koma í veg fyrir eðlileg samskipti þessara fornu vinaríkja. Norsk stjórnvöld hljóta að skilja að við getum ekki samþykkt að íslenskir sjómenn og útgerðir njóti ekki eðlilegs réttar. Þeir hljóta að skilja að vilji Íslendinga stendur til skipulegra veiða og þær deilur sem nú eru uppi eru ekki til þess fallnar að auka öryggi í umgengni við þorskstofna í Norðurhöfum.
    Viðræðufundur ríkjanna verður hinn 11. okt. nk. Sá fundur er ekki eiginlegur samningafundur heldur könnunarviðræður. En engu að síður hljótum við að binda vonir við að fundarhöld af því tagi og framtíðarviðræður munu að lokum leiða til lausnar og samvinnu þjóðanna í þessum málum sem báðum verður til hags og blessunar.
    Hæstv. forseti. Við vorum nokkuð mörg sem settumst í fyrsta sinn inn á þing í upphafi þessa kjörtímabils. Margt hefur komið á óvart, sumt þægilega en annað ekki. Mér hefur komið mest á óvart hve ósparir sumir menn hér eru á fullyrðingar og hversu langt þeir leyfa sér að ganga í árásum á menn, bæði innan þings og utan. Er þetta að mínu mati helsti ljóður á störfum þingsins. En við nýliðarnir hér þurfum þó ekki að ætla að þessi ósiður sé með öllu nýtilkominn. Í fróðlegu útvarpserindi fyrir réttum 20 árum ræðir Gísli Jónsson um stöðu Íslands í ríkisráði Danakonungs í byrjun aldarinnar. Erindinu lýkur hann svo, með leyfi forseta:
    ,,Þessi saga er ímynd og sýningarverk á því hvernig mál eru meinlaus eða hættuleg eftir atvikum eins og dýr merkurinnar og fuglar himinsins skipta um lit eftir árstíðum. Allan þann langa tíma sem þrefað var um ríkisráðsákvæðið, menn bornir landráðabrigslum, ráðherrar sögðu af sér og flokkar stofnaðir og klofnir út af því, voru sérmál Íslands borin upp í ríkisráðinu danska og kom aldrei að sök.``
    Samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði er tæplega ársgamall og þegar orðinn okkur til góðs. Því miður báru stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþingi ekki gæfu til þess að standa að þeirri samningsgerð. Hér var deilt dögum saman og margt af því sem þá var sagt er orðið jafnfáfengilegt í ljósi örstuttrar sögu og sumt sem sagt var um ríkisráðið forðum tíð. En sem betur fer virðast efasemdarraddirnar nú að mestu þagnaðar og enginn nefnir að Íslendingar eigi að losa sig frá samningnum og missa af þeim ábata sem í honum felst. Innganga flestra EFTA-ríkja í Evrópusambandið leiðir til þess að aðlaga þarf EES-samninginn að hinum breyttu aðstæðum. Þau mál hafa verið undirbúin af hálfu ríkisstjórnarinnar og viðbrögð Evrópusambandsins eru þannig að ekki er ástæða til að ætla annað en að viðunandi lausn fáist.
    Evrópusambandið stendur nú á tímamótum. Þeir sem best til þekkja telja að það endurmat á skipulagi sambandsins sem fram undan er verði afar flókið og ljúki ekki fyrr en undir aldamót. Íslendingar munu fylgjast grannt með því sem þar gerist og þeim breytingum sem verða á Evrópusambandinu.
    Árið 1992, fyrir tveimur árum síðan, stóðu Íslendingar frammi fyrir þeirri spurningu hvort þeir ættu að eiga samleið með ríkisstjórnum Norðurlanda sem þá leituðu eftir inngöngu í Evrópusambandið. Það var ákvörðun ríkisstjórnarinnar og Alþingis í raun að hafna þeim kosti þá. Forustumenn Evrópusambandsins hafa sagt við mig að engin ný ríki verði tekin í Evrópusambandið fyrr en eftir þá breytingu á skipulagi sambandsins sem áður var getið. Þessi niðurstaða var áréttuð af einum af aðalráðamönnum ESB, Henning Christophersen, í sjónvarpsviðtali fyrir nokkrum dögum, en reyndar virtist það mat hans að á inngöngu mundi ekki á reyna fyrr en árið 2003. Hugsanlegt er því að spurningin um það hvort Ísland standi utan Evrópusambandsins eða ekki verði áleitin á ný undir lok aldarinnar. Það ræðst þó algjörlega af þeim breytingum sem verða á skipulagi Evrópusambandsins og með hvaða hætti forræðishyggja þess þróast í þeim málum sem okkur eru mikilvægust. Íslendingar eru Evrópuþjóð í besta skilningi þess orðs. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið höfum við tryggt íslensku þjóðinni aðgang að öllum þáttum hins evrópska efnahagslífs, með kostum þess en ekki með þeim göllum sem Evrópusambandsaðild mundi fylgja við núverandi aðstæður.
    Ísland er svo vel í sveit sett um þessar mundir að efnahagsleg skilyrði eru með þeim bestu sem þekkjast í Evrópu. Allir kostir eru því Íslendingum opnir ef þeir kjósa og engum tækifærum hefur verið á glæ kastað. Spurningin er því einvörðungu sú hvort Evrópusambandið muni í framtíðinni breytast svo að

það verði aðgengilegt fyrir Íslendinga að þeirra eigin mati.
    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Þingstörf hefjast nú á ný. Þótt þinghaldið verði skemmra en endranær vegna komandi kosninga verða fjölmörg mál til úrlausnar og mikilvægt að vel takist til um meðferð þeirra. Það er vissulega fagnaðarefni fyrir okkur öll að sjá að verstu erfiðleikarnir eru nú að baki. En lífsbaráttan verður þó ætíð hörð hér á okkar góða landi. Hún krefst þess að hver maður geri sitt besta, að samheldni og samhugur ríki meðal þjóðarinnar og að lífsins gæðum sé af sanngirni deilt. Sundrungaröfl hafa oft slegið á baráttuþrek þjóðarinnar og spillt fyrir því að hún fái notið ávaxta atorku sinnar. Við skulum heita því að gera okkar ýtrasta til að tryggja að þeim efnahagslega ávinningi sem er innan seilingar verði ekki fórnað á altari sundrungar og óeiningar.
    Ég þakka þeim sem hlýddu.