Sjónvarpsútsendingar frá Alþingi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 13:44:46 (37)



[13:44]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni fyrir að vekja athygli á þessu máli og þakka jafnfram þá yfirlýsingu sem forseti las af stóli. Það er ljóst að við erum að fjalla um nokkuð flókið mál og því fylgir kostnaður að koma sjónvarpsútsendingum frá Alþingi í viðunandi horf en ég vil lýsa þeirri skoðun minni að mér finnst þessi niðurstaða eins og hún liggur nú fyrir vera mjög óviðunandi. Það hlýtur að teljast óviðunandi fyrir þann hluta landsmanna, sem nýtur þess að sjá Stöð 2, að upplifa það á hverjum degi að útsendingar verði rofnar rétt fyrir klukkan fimm og ræðumenn geta þá verið í miðjum klíðum og er þetta í raun og veru brot á þeim samningi sem gerður var. Við vitum það að Íslenska útvarpsfélagið hefur þessa rás einmitt vegna samningsins við Alþingi. Enda þótt áfram verði haldið á rás Sýnar sér hluti landsmanna alls ekki þá stöð. Ég tek undir það að við þurfum að ræða þessi mál og kanna mjög ítarlega. Við þekkjum það frá öðrum löndum að víðast hvar getur fólk horft á útsendingar frá þjóðþingum frá morgni og fram á rauða nótt þar sem fundir standa svo lengi og þess á milli eru útsendingar eða þær stöðvar eru notaðar til viðtala og til þess að sjónvarpa blaðamannafundum og ýmsu sem fram fer á vegum stjórnmálamanna. Við eigum langt í land með að nýta okkur tæknina og að gefa landsmönnum kost á því að fylgjast með störfum stjórnmálamanna og Alþingis eins og bestur væri kostur. Þetta mál þurfum við að halda áfram að ræða en mér finnst óviðunandi ef útsendingar verða rofnar með þessum hætti.