Sjónvarpsútsendingar frá Alþingi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 13:50:57 (40)


[13:50]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka þær skýringar sem hæstv. forseti gaf varðandi málið og þátttöku hv. þm. í umræðu um þetta mál. Mér finnst þetta vera í mjög vandræðalegu horfi fyrir Alþingi Íslendinga svo vægt sé til orða tekið. Ég hefði í sporum forseta ekki byrjað að láta sjónvarpa eða útvarpa frá Alþingi við þessar aðstæður á nýjan leik. Við féllumst á það hér með semingi, a.m.k. í mínum þingflokki, á sínum tíma 1992 að í tilraunaskyni yrði farið að sjónvarpa til hluta landsmanna, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu. Það var í rauninni skilyrt við að þetta væri algert bráðabirgðaástand. Sá tími er liðinn og við þær aðstæður finnst mér að Alþingi eigi að stöðva þessa tilraun þangað til hægt er að finna frambærilega lausn. Nóg er nú mismununin í landinu þó að hluti þjóðarinnar --- og þó það væru ekki nema 4% --- væri hornrekur að því er varðar Alþingi Íslendinga. Ég skora á forsætisnefnd þingsins að taka þetta mál nú þegar föstum tökum með það að markmiði að útvarpssendingar hefjist frá Alþingi. Mér finnst að það geti verið allt eins hljóðvarpssendingar og sjónvarpssendingar, geti orðið álíka notadrjúgar fyrir landsmenn, og þangað til að sú lausn er fengin verði ekki sent út frá þinginu nema, eins og gert var í gamla daga, á tilteknum afmörkuðum tímum eins og í gærkvöldi.