Afstaða samgönguráðherra til jarðgangagerðar á Austurlandi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 15:08:39 (65)



[15:08]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það er ekki rétt hjá hv. þm. Það er ekki algengt að hann hafi sitt skjalasafn ekki í lagi. En það er svo í þessu máli að það er ekki rétt hjá honum að Alþingi hafi samþykkt langtímaáætlun sem gerir ráð fyrir því að Austfjarðagöngum ljúki á þessu ári. Síður en svo. ( Gripið fram í: Á Austfjörðum?) Að göngum á Austfjörðum ljúki á þessari öld. Það er ekki gert ráð fyrir því og langtímaáætlun sem lögð var fyrir Alþingi á sínum tíma var ekki samþykkt hér í þinginu. Þannig að það er ekki rétt. Þegar hann vék að því hér áðan þá var hann að tala um þá miklu fjármuni sem Alþingi hefði ákveðið, ég man ekki hvort hv. þm. sagði 1998 eða 1999, til jarðgangagerðar. Þetta er ekki rétt. Alþingi hefur ekki tekið afstöðu til þess að veita fjármagn til ganga á Austurlandi.
    Það er líka misskilningur hjá hv. þm. að niðurstaðan í þeirri jarðganganefnd sem lauk störfum vorið 1993, má ég segja, hafi orðið eintóma. Þótt niðurstaðan hafi orðið sú í marsmánuði 1993 að það skyldi sitja fyrir að leggja jarðgöng frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar, frá Norðfirði til Mjóafjarðar og frá Mjóafirði til Egilsstaða, þá gerði sá maður sem hafði komið inn í nefndina sem sveitarstjóri Vopnafjarðar nokkurn fyrirvara. Þótt hann sé kannski ekki sterkur, þá kom þar fram að hann leit svo á að göng til Vopnafjarðar skyldu sitja fyrir. Nú skal ég ekki gera mikið úr því en ég held að það sé alveg nauðsynlegt á hinn bóginn að menn átti sig á að takmarkað fé rennur til vegamála og ef menn leggja áherslu á frekari jarðgangagerð þá er öldungis ljóst að það mun bitna á almennum vegaframkvæmdum í landinu. En mér finnst það ekki vera eðlilegt af hv. þm. að leggja málið þannig fyrir.
    Hugsanleg jarðgöng frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar eru 5,3 km, 3,9 km frá Norðfirði til Mjóafjarðar og 6,8 km frá Mjóafirði til Egilsstaða upp á Hérað og þá erum við að tala um 6,4 milljarða kr. Til samanburðar rifja ég upp að göngin í gegnum Ólafsfjarðarmúla kosta á verðlaginu í dag um 1,2 milljarða kr. og þótti mikið átak og bitnaði á vegagerð á Norðurlandi að við skyldum ráðast í það verkefni. Vestfjarðagöngin kosta 3,9 milljarða og bitna mjög harkalega á vegagerð á Vestfjörðum þannig að hún hefur setið eftir vegna hluts Vestfjarða í þessum göngum. Og ef við erum að tala um hugsanleg Hvalfjarðargöng þá erum við þar að tala um innan við 4 milljarða kr. Því má ekki gleyma að kjördæmin verða að leggja fram fimmtung kostnaðarins við jarðgöngin og ég er ekki alveg sannfærður um það að ástand vega á Austurlandi sé með þeim hætti að menn þar séu almennt reiðubúnir nú til þess að ráðast í verkefnið á þeim grundvelli að Austfirðingar leggi þar fram nokkuð á annan milljarð kr. Fyrir utan það að það er orðið mjög brýnt að ljúka vegagerðinni milli Norðurlands og Austurlands. Ég vil segja það sem mína almennu skoðun að þó svo að kjördæmaþingmenn séu ákveðnir og sumir haldi því fram að ég gangi úr hófi fram í því sem sumir kalla frekju fyrir mitt kjördæmi, þá hygg ég að menn verði að skilja að það er ekki hægt að ráðast í tvö stórverkefni samtímis fyrir hið sama kjördæmi. Það gengur auðvitað ekki.
    Á hinn bóginn vil ég vekja athygli á því að samkvæmt þeirri langtímaáætlun sem hv. þm. vísaði til og lýkur á árinu 2002 var ekki gert ráð fyrir því að komast lengra til Norðurlands en svo að Jökuldalurinn kláraðist og svo til Fellabæjar. Það var ekki gert ráð fyrir því að ljúka því á þessari öld og það var heldur ekki gert ráð fyrir því að setja eina einustu krónu í Fjöllin yfir til Norðurlands. Það verkefni var því mjög látið sitja á hakanum svo ekki sé meira sagt.